Alma var 15 ára þegar hún lést: „Núna er allt svo hljótt, enginn söngur úr herberginu þínu“

„Aldrei í lífinu hélt ég að ég ætti eftir að gera þetta, að sitja heima með tárin í augunum að skrifa minningargrein um dóttur mína. Elsku litli fallegi engill, það eru engin orð sem fá því lýst hversu mikið við söknum þín. Núna er allt svo hljótt, enginn söngur úr herberginu þínu, enginn gítarleikur, og ekkert verið að kalla á mömmu sína til að biðja hana um að koma með eitthvað,“ skrifaði Hildur Hólmfríður Pálsdóttir í minningargrein um dóttur sína, Ölmu Maureen Vinson þann 20. október árið 2014 en Alma var aðeins 15 ára þegar hún lést þriðja þess mánaðar. Banamein hennar var of stór skammtur af morfínlyfinu Contalgin.

Í umfjöllun Kastljós sem sýnd verður í kvöld er rætt við Hildi en þar kemur fram að Alma hafði byrjað í neyslu tveimur árum fyrr. Hún gagnrýnir úrræðaleysi í samfélaginu þegar kemur að ungum fíklum og telur hún að forvarnir þurfi að hefjast fyrr. Hildur upplifði verstu martröð allra foreldra að koma að dóttur sinni þar sem hún var látin í rúminu á heimili sínu. Í minningagrein um dóttur sína segir Hildur:

„Að koma að barninu sínu látnu í rúminu sínu er ekki það sem nokkur getur hugsað sér að eiga von á, við stóðum hérna agndofa, ég og bróðir hennar, skelfingin var svakaleg.“

Hildur Hólmfríður Pálsdóttir opnar sig um sára og erfiða lífsreynslu
Hildur Hólmfríður Pálsdóttir opnar sig um sára og erfiða lífsreynslu

Alma átti sína drauma, hafði stórt hjarta og vildi láta gott af sér leiða, ljúka skóla og starfa við sálfræði og félagsfræði og stofna meðferðarheimili fyrir börn. Til þess kom aldrei. Hún varð fíkninni að bráð og lyfseðilsskylt lyf dró hana til dauða. Í kvöld leitar Kastljós skýringa á af hverju hafi ekki gengið betur að draga úr aðgengi að lyfseðilsskyldum lyfjum.

Hildur segir í samtali við Kastljós en þátturinn er sýndur í kvöld:

„Þeim er örugglega talin trú um að þetta sé allt hættulaust og þetta sé bara gott. Þegar þau byrja að reykja gras og eitthvað svoleiðis, að þetta sé bara náttúrulegt lyf og þetta geri bara gott, þau trúa þessu, dílerinn er náttúrulega besti vinur þeirra og þau trúa öllu sem hann segir, en þetta er bara kjaftæði. Þetta er bara eitur og leiðir í eitthvað meira og sterkara og endar yfirleitt bara á einn veg.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.