fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Sigmar freistar þess að fá lóðasölu Skúla Gunnars dæmda ógilda

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur mánudaginn 9. janúar

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 7. janúar 2017 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 9. janúar næstkomandi verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli athafnamannsins Sigmars Vilhjálmssonar gegn Stemmu hf., félagi sem er í meirihlutaeigu Skúla Gunnars Sigfússonar, sem iðulega er kenndur við Subway.

DV greindi frá málinu í nóvemberlok í fyrra en þá freistaði lögmaður Skúla, Sigurður G. Guðjónsson, þess að fá málinu vísað frá á þeim grundvelli að Sigmar væri ekki aðili að því. Á það sjónarmið vildi héraðsdómur ekki fallast og því verður málið tekið til efnislegrar meðferðar eftir helgi. Hvorki Skúli Gunnar né Sigmar vildu tjá sig um málið við DV þegar eftir því var leitað en sá síðarnefndi sagði þó að hann vonaðist til þess að málið myndi ekki hafa áhrif á samstarf þeirra á öðrum vígstöðvum. Dómstólar væru til þess að fá skorið úr deilumálum. Sigurður G. var hins vegar vígreifari og lét hafa eftir sér að Skúli og Sigmar væru „engir vinir“.

Mörg sameiginleg verkefni

Sigmar og Skúli Gunnar hafa verið viðskiptafélagar um langt skeið og komið að mörgum verkefnum saman. Þekktasta verkefnið er Hamborgarafabrikkan en Skúli Gunnar hefur verið viðloðandi rekstur fyrirtækisins, ásamt Sigmari og Jóhannesi Ásbjörnssyni, frá upphafi. Skúli Gunnar var einnig hluthafi í Konunglega kvikmyndafélaginu sem rak sjónvarpsstöðvarnar Bravó og Miklagarð sem Sigmar var í forsvari fyrir. Þá var Sigmar markaðsstjóri Subway hérlendis um sex mánaða skeið árið 2014 en skömmu síðar voru áform félaganna um eldfjallasetur á Hvolsvelli kynnt.

Þúfa varð að fjalli

Upphaflega hugmyndin var að opna sýningu um Eyjafjallajökul í litlu húsnæði en smám saman þróaðist hugmyndin yfir í að reisa stóra fasteign sem gegnt gæti hlutverki þjónustumiðstöðvar fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi. Þar yrði að finna afþreyingu, verslanir, veitingastaði og hótel. Stemma hf. fékk úthlutað lóðum við Austurveg 12 og 14 þar sem reisa átti miðstöðina og var áætlaður kostnaður við verkefnið einn milljarður. Utan um það var félagið Stemma hf. stofnað. Stemma hf. er í eigu Gufupressunnar (45,45%) og Leiti eignarhaldsfélags (18,18%) sem bæði eru í 100% eigu Skúla Gunnars, hið fyrrnefnda í gegnum Leiti. Þriðji og síðasti hluthafinn er félagið Sjarmur og Garmur ehf. (36,36%) sem Skúli Gunnar og Sigmar eiga helmingshlut í.

Segir verðið of lágt

Dómsmálið snýst um þá kröfu Sigmars að sú ákvörðun hluthafafundar Stemmu hf., sem haldinn var 9. maí 2016, að selja Fox ehf. lóðirnar að Austurvegi 12 og 14 og önnur réttindi, verði ógilt. Fox ehf. er í 100% eigu fjárfestisins Harðar Jónssonar. Í úrskurði héraðsdóms um frávísunarkröfu Skúla, sem DV hefur undir höndum, kemur fram að Skúli hafi ólmur viljað selja lóðarréttindi Stemmu hf. en Sigmar lagðist gegn þeim viðskiptum þar sem hann taldi kaupverðið of lágt. Kemur fram að hann hafi leitað annarra tilboða og fengið allt að 50% hærra kauptilboð í lóðirnar. Þrátt fyrir það hafi Skúli í krafti meirihlutaeignar sinnar knúið söluna, á lágu verði, í gegn. Það hafi skert rétt hluthafa til arðgreiðslna þar sem kaupverðið hafi verið mun lægra en raunverulegt verðmæti lóðanna. Þá telur Sigmar að ákvörðun hluthafafundarins hafi verið tekin með ólögmætum hætti, meðal annars hafi atkvæðisréttur verið ranglega skráður og því hafi salan ekki hlotið tilskilinn fjölda atkvæða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“