fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

„Ferðalaginu var lokið sama dag og ég lenti“

Draumaferð Helga til Barcelona endaði sem martröð – Ferðataska með nauðsynlegum lyfjum gufaði upp eftir innskráningu

Ritstjórn DV
Laugardaginn 7. janúar 2017 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Læknirinn minn segir að ég hefði getað látið lífið þarna úti vegna lyfjaleysis, eða um borð í vél Icelandair,“ segir Helgi Ólafsson sem segir farir sínar ekki sléttar af ferðalagi til Barcelona í byrjun desember. Hann varð fyrir því óláni að ferðataska hans gufaði hreinlega upp og skilaði sér aldrei á leiðarenda. Í töskunni voru meðal annars lyf sem honum eru nauðsynleg til að komast í gegnum daginn. Lyf sem hann tekur vegna meiðsla á baki og langvarandi veikinda. Mistökin eyðilögðu ferðalagið fyrir honum og vini hans sem var með í för. Nú, mánuði seinna, bólar enn ekkert á töskunni og er Helgi afar ósáttur við viðbrögð Icelandair og það viðmót sem hann hefur fengið við kvörtunum sínum. Flugfélagið metur frásögn hans og kröfugerð vegna þeirra muna sem eiga að hafa glatast, ótrúverðuga.

Taskan horfin í París

Helgi flaug ásamt félaga sínum frá Keflavík 2. desember síðastliðinn, millilent var í París og flogið með tengiflugi þangað til Barcelona. Í París kom hins vegar í ljós að farangur þeirra hafði ekki skilað sér. Vegna ástands síns segir Helgi að hann tilkynni ávallt um veikindi sín áður en hann ferðast til útlanda og kveðst hafa þráspurt við innritunina hvort taskan yrði innrituð alla leið og ávallt fengið þau svör að hann þyrfti engar áhyggjur að hafa, taskan myndi skila sér til Barcelona.

Helgi hafði tekið með sér lyf í handfarangri en aðeins það magn sem hann taldi sig þurfa um borð í vélunum. Afganginum, sem átti að duga alla utanlandsferðina, hafði verið pakkað ofan í töskuna sem ekki hafði skilað sér. Þá hafði farangur félaga hans ekki heldur skilað sér alla leið. „Ég fór áhyggjulaus um borð í flugvélina. En ég veiktist strax daginn eftir úti í Barcelona, 3. desember. Í kjölfarið leitaði ég læknisaðstoðar á Spáni, mér voru gefin lyf til að halda einkennum í skefjum og ráðlagt að ferðast ekki frekar um sinn.“

Helgi segir að tilefni ferðarinnar hafi verið að fara á knattspyrnuleiki og spila golf. Hann hafi reyndar látið sig hafa það að sitja í stúkunni, þrauka og horfa á leikina, enda hafi miðarnir verið dýrir og hann ekki getað hugsað sér að láta þá fara til spillis.

Vanlíðan og fráhvörf

„Ferðin var hreinlega ónýt þar sem ég fékk ekki lyfin við mínum sjúkdómi. Vegna þessa varð ég fyrir miklum heilsubresti og veiktist hastarlega. Eftir að hafa verið úti í einn dag í íbúð í Saloh veiktist ég enn frekar og læknir sem kallaður var til mældi eindregið með því að ég flytti inn á hótel ef þörf væri á frekari inngripum og styttra væri í næsta sjúkrahús,“ segir Helgi. Þegar þangað var komið óskaði hann aftur eftir lækni en hjá honum fékk hann ekki þau lyf sem hann þurfti til að bregðast við veikindum sínum. „Auk þess sem sá læknir þekkti ekki mína sögu að fullu. Áfallið var mikið þegar ég fékk engin svör um hvar taskan væri niðurkomin og ferðin ónýt. Ferðalaginu var lokið sama dag og ég lenti á Spáni. Lyfjaleysið varð til þess að vanlíðan og fráhvörf voru mikil og ég gat með engu móti notið þess að horfa á fótboltaleiki sem ég var búinn að greiða himinháa upphæð fyrir við þessar kringumstæður. Ferðin sem var fyrst og fremst til þess farin að horfa á fótbolta og spila golf. Fótbolti og golf eru mín aðaláhugamál og var ég lengi búinn að skipuleggja og safna fyrir ferðinni.“

Þar sem þeir félagar voru nær allslausir í Barcelona fengu þeir heimild hjá flugfélaginu til að kaupa fatnað og nauðsynjar. Helgi kveðst hafa keypt skynsamlega inn og tekið nótur fyrir öllum kaupum. Þrátt fyrir að hafa haldið bókhald fyrir öllum kaupum, eins og hann var beðinn um, hefur hann ekki fengið endurgreitt.

Hann segir að heimferðin hafi verið skelfileg. Hann hafi ekki verið búinn að fá lyfin sín í marga daga. „Ég spurði hvort ég gæti fengið að sitja í fyrsta farrými þar sem ég sá að fáir voru og þegar vanlíðanin er svona mikil vill maður fá að vera í friði og ró. Ég lýsti í stuttu máli fyrir starfsmanni um borð hvað hefði gerst og þvílíkum dónaskap hef ég aldrei mætt á minni ævi. Ég var bara húðskammaður fyrir að kunna ekki að pakka í tösku og var niðurlægður fyrir framan aðra farþega.“

Krafan metin ótrúverðug

Þegar heim var komið fór Helgi á fund með yfirmanni hjá Icelandair.

„Þar var mér tjáð að þetta væri svo ótrúlegt að þetta líktist frekar einhverju svindli og taldi hann ólíklegt að krafa mín yrði samþykkt. Þá var mér öllum lokið.“

Helgi segir að hann muni beina viðskiptum sínum annað í framtíðinni.

„Ferðin í heild var hreint út sagt ömurleg og viðmót Icelandair finnst mér til skammar. Og hvar er farangurinn minn?“ spyr Helgi sem síðan fékk það endanlega staðfest nú á miðvikudag að krafa hans þætti ótrúverðug og að Icelandair myndi ekki samþykkja hana.

„Ég spurði af hverju og þá kemur í ljós að maður má greinilega ekki eiga fína og flotta hluti án þess að verða ótrúverðugur. Tilteknir voru sérstaklega þrír hlutir sem ég var með í töskunni og tilkynnti tapaða. Armbandsúr, Hugo Boss-leðjurjakki og Hugo Boss-blazerjakki. Mér finnst þetta algjörlega fráleitt.“

DV leitaði viðbragða Icelandair við frásögn Helga.

„Við teljum ekki rétt að tjá okkur um þetta mál að öðru leyti en því að við teljum að farþeginn sem DV spyr um hafi ekki fært sönnur á kröfur sínar,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í skriflegu svari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala