Fá að borga fyrir Bláa lónið en ekki njóta þess

Veðurtepptu nýsjálensku pari synjað um endurgreiðslu í Bláa lóninu

Kate og Thomas eru alsæl með Íslandsferðina ef undan er skilin þjónusta Bláa lónsins.
Nýsjálendingar við Goðafoss Kate og Thomas eru alsæl með Íslandsferðina ef undan er skilin þjónusta Bláa lónsins.

„Þetta er mjög svekkjandi. Heimsóknin í Bláa lónið átti að vera hápunktur ferðarinnar. Við fáum ekki að upplifa þessa perlu en við fáum að borga fyrir hana,“ segir Kate Gerken í samtali við DV. Hún greiddi 174 evrur, jafnvirði um 21 þúsund króna, í aðgangseyri fyrir tvo að Bláa lóninu sem og rútuferð frá Reykjavíkurflugvelli að lóninu. Gerken varð hins vegar veðurteppt á Akureyri og gat ekki nýtt miðann. Hún freistaði þess að fá hann endurgreiddan en þá kom í ljós að afpanta þyrfti ferðina með 24 klukkustunda fyrirvara til þess. „Þessi þjónusta er einfaldlega mjög léleg,“ segir Gerken.

Bókaði með þriggja vikna fyrirvara

Gerken er frá Wellington á Nýja-Sjálandi en býr tímabundið á Bretlandseyjum ásamt kærastanum sínum, Thomas Nilsson. Ísland hefur lengi verið draumaáfangastaður þeirra og því nýttu þau tækifærið og fóru í ferðalag yfir hátíðarnar. Þau bókuðu flug til Íslands 27. desember og héldu af landi brott í gær, 5. janúar.

Eins og áður segir átti Bláa lónið að vera einn af hápunktum ferðarinnar en auk þess ætlaði parið að spóka sig í höfuðborginni og skoða valda staði á Norðurlandi. „Ég reyndi að bóka miða með þriggja vikna fyrirvara en ekkert var laust á meðan við ætluðum að vera í Reykjavík. Við ákváðum því að bóka miða sama dag og brottförin var ráðgerð þar sem við áttum kvöldflug til London,“ segir Gerken.

„Þessi þjónusta er einfaldlega mjög léleg“

Hún taldi að tíminn væri nægur en skötuhjúin áttu bókað morgunflug með Flugfélagi Íslands frá Akureyri til Reykjavíkur á fimmtudag. Áætlanir þeirra riðluðust þó heldur betur þegar fluginu var aflýst og þau neyddust til þess að stökkva upp í rútu til Reykjavíkur. „Ég hringdi strax í Bláa lónið og óskaði eftir endurgreiðslu því við værum veðurteppt fyrir norðan. Okkur var þá bent á að við hefðum þurft að afpanta miðann með sólarhrings fyrirvara en í staðinn var okkur boðið að fara í lónið kl. 20.00 daginn eftir, en þá erum við farin úr landi. Það er fáránlegt að íslenskt fyrirtæki eins og Bláa lónið taki ekki tillit til þess að gestir geti forfallast vegna veðurs. Þessi þjónusta er einfaldlega mjög léleg,“ segir Gerken.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.