fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Fá að borga fyrir Bláa lónið en ekki njóta þess

Veðurtepptu nýsjálensku pari synjað um endurgreiðslu í Bláa lóninu

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 6. janúar 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er mjög svekkjandi. Heimsóknin í Bláa lónið átti að vera hápunktur ferðarinnar. Við fáum ekki að upplifa þessa perlu en við fáum að borga fyrir hana,“ segir Kate Gerken í samtali við DV. Hún greiddi 174 evrur, jafnvirði um 21 þúsund króna, í aðgangseyri fyrir tvo að Bláa lóninu sem og rútuferð frá Reykjavíkurflugvelli að lóninu. Gerken varð hins vegar veðurteppt á Akureyri og gat ekki nýtt miðann. Hún freistaði þess að fá hann endurgreiddan en þá kom í ljós að afpanta þyrfti ferðina með 24 klukkustunda fyrirvara til þess. „Þessi þjónusta er einfaldlega mjög léleg,“ segir Gerken.

Mynd: 123rf.com

Bókaði með þriggja vikna fyrirvara

Gerken er frá Wellington á Nýja-Sjálandi en býr tímabundið á Bretlandseyjum ásamt kærastanum sínum, Thomas Nilsson. Ísland hefur lengi verið draumaáfangastaður þeirra og því nýttu þau tækifærið og fóru í ferðalag yfir hátíðarnar. Þau bókuðu flug til Íslands 27. desember og héldu af landi brott í gær, 5. janúar.

Eins og áður segir átti Bláa lónið að vera einn af hápunktum ferðarinnar en auk þess ætlaði parið að spóka sig í höfuðborginni og skoða valda staði á Norðurlandi. „Ég reyndi að bóka miða með þriggja vikna fyrirvara en ekkert var laust á meðan við ætluðum að vera í Reykjavík. Við ákváðum því að bóka miða sama dag og brottförin var ráðgerð þar sem við áttum kvöldflug til London,“ segir Gerken.

„Heimsóknin í Bláa Lónið átti að vera hápunktur ferðarinnar. Við fáum ekki að upplifa þessa perlu en við fáum að borga fyrir hana.“

„Þessi þjónusta er einfaldlega mjög léleg“

Hún taldi að tíminn væri nægur en skötuhjúin áttu bókað morgunflug með Flugfélagi Íslands frá Akureyri til Reykjavíkur á fimmtudag. Áætlanir þeirra riðluðust þó heldur betur þegar fluginu var aflýst og þau neyddust til þess að stökkva upp í rútu til Reykjavíkur. „Ég hringdi strax í Bláa lónið og óskaði eftir endurgreiðslu því við værum veðurteppt fyrir norðan. Okkur var þá bent á að við hefðum þurft að afpanta miðann með sólarhrings fyrirvara en í staðinn var okkur boðið að fara í lónið kl. 20.00 daginn eftir, en þá erum við farin úr landi. Það er fáránlegt að íslenskt fyrirtæki eins og Bláa lónið taki ekki tillit til þess að gestir geti forfallast vegna veðurs. Þessi þjónusta er einfaldlega mjög léleg,“ segir Gerken.

Endurselja afpantaða miða

Mikil eftirspurn er meðal erlendra ferðamanna í að heimsækja Bláa lónið og er uppselt marga daga fram í tímann. Ásókn í lónið hefur aukist ár frá ári og í maí síðastliðnum var greint frá því að hagnaður Bláa lónsins árið 2015 hafi numið 2,2 milljörðum króna samanborið við 1,8 milljarða árið 2014. Árið 2015 kom metfjöldi gesta í lónið og miðað við straum ferðamanna til Íslands má ætla að fjöldinn hafi ekki verið minni árið 2016.

DV hafði samband við forsvarsmenn fyrirtækisins til þess að fá þeirra hlið á málinu en svör höfðu ekki borist áður en DV fór í prentun. Blaðamaður hringdi hins vegar í þjónustuverið um miðjan dag á fimmtudag og falaðist eftir miðum í lónið en var þá tilkynnt að allt væri uppselt þann dag. „Þú getur hins vegar fylgst með heimasíðunni. Ef eitthvað losnar þá fara stundum miðar þar í sölu,“ segir ónafngreindur starfsmaður fyrirtækisins.

Uppfært – svar barst frá Bláa Lóninu rétt eftir að DV fór í prentun:

„Miðar sem eru afbókaðir með þetta skömmum fyrirvara, það er 24 stunda, fara almennt ekki í endursölu þar sem fyrirvarinn er mjög skammur. Starfsmenn okkar i „Customer Care“ fylgjast vel með því ef það eru til dæmis seinkanir á flugi vegna veðurs. Við reynum að koma til móts við fólk eins og kostur er til dæmis með því að færa heimsóknina á annan tima ef það hentar viðkomandi. Okkur þykir það afar leitt að parið hafi ekki komist í Bláa Lónið og hvetjum þau til að hafa samband við okkur,“ segir Magnea Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Bláa Lónsins í skriflegu svari við DV.

Í bókunarskilmálum Bláa Lónsins kemur fram að ef miðar eru afbókaðir með þriggja daga fyrirvara þá endurgreiðir fyrirtækið 90 prósent miðaverðsins. „Ef þeir eru afbókaðir með eins til þriggja daga fyrirvara þá er endurgreiðslan 50 prósent og ef þeir eru afbókaðir með minna en 24 stunda fyrirvara þá endurgreiðum við ekki,“ segir Magnea. Viðskiptavinir Bláa Lónsins samþykkja bókunarskilmála fyrirtækisins í bókunarferlinu áður en greiðsla fer fram, líkt og hjá flugfélögum og hótelum. Að sögn Magneu eru ekki margir sem óska eftir endurgreiðslu en þó komi slík tilvik fyrir á degi hverjum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“
Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans
Fréttir
Í gær

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“