Úrslit í umdeildri drónamyndakeppni ráðast á morgun

Eigandi iStore sagðist vilja kæla málið í smátíma

Fyrstu verðlaun er endurgreiðsla á drónanum
Phantom 4 Fyrstu verðlaun er endurgreiðsla á drónanum
Mynd: gizmodo.com

Úrslit í umdeildri drónamyndbandakeppni verða tilkynnt á morgun. Keppnin komst í fréttir síðastliðinn nóvember þegar Ragnar Hansson einn þeirra 5 keppenda sem komust í úrslit gagnrýndi aðferðir keppinautar síns við að safna lækum.

Istore stóð fyrir myndbandasamkeppni þar sem keppendur áttu að notast við Phantom 4 dróna. Um var að ræða like-keppni og sá sem fengi flest læk myndi fá drónann endurgreiddan. Ragnar var efstur í keppninni til að byrja með en skyndilega fjölgaði lækum á myndband keppinautarins eftir að sambýliskona kvikmyndagerðarmannsins óskaði eftir stuðningi í hópnum Góða systir en hún sagði að upphæðin sem fengist fyrir sigur myndi hjálpa þeim að greiða fyrir smásjárfrjóvgun. Var Ragnar ósáttur við þessa beiðni og sagði sjálfur að hann hefði lengi reynt að eignast barn.
Í kjölfar gagnrýninnar urðu hjónin fyrir persónulegum árásum og þeim hótað líkamsmeiðingum. Einnig var kvartað til stjórnenda Youtube sem varð til þess að rásinni þar sem myndbandið var birt var lokað.

Ragnar Hansson sagði þessi viðbrögð skelfileg og að þetta hefði ekki verið meiningin með gagnrýni hans. Það varð úr að iStore ákvað að hætta við like-keppnina og fá óháða dómnefnd til að velja sigurvegarann.

„Ég vildi kæla málið aðeins eftir alla þessa umræðu“ segir Sigurður Þór Helgason, eigandi iStore í samtali við DV. Hann ákvað því að bíða með að tilkynna úrslitin þar til eftir jólaösina en segir að nú sé búið að velja myndbandið og sigurvegarinn verði látinn vita á morgun. „Allir fimm keppendurnir sem komust í úrslit fá einnig 30.000 króna gjafabréf í iStore,“ bætir Sigurður við en hann vill með því bæta keppendum upp fyrir þau leiðindi sem sköpuðust í kjölfar umræðu um keppnina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.