Nýtt Lúkasarmál í uppsiglingu? „Mamma þorir ekki lengur út úr húsi“

Konan sem passaði Tinnu þorir ekki út úr húsi

Veglegum fundarlaunum heitið fyrir þá sem finna Tinnu
Tíkin Tinna hefur verið týnd í 6 daga Veglegum fundarlaunum heitið fyrir þá sem finna Tinnu

„Ég hringdi í mömmu mína í kvöld en náði ekki sambandi og var farin að hafa miklar áhyggjur af henni þar sem hún á við andleg veikindi að stríða og við systurnar í kvíðakasti hérna í Noregi að ná ekki í hana þar sem búið var að nafngreina, heimilisfang og birta myndir af facebookinu hennar, grindverkinu í garðinum,“ þetta skrifar Yrsa Heiðarsdóttir, dóttir konunnar sem passaði tíkina Tinnu sem týndist rétt fyrir áramótin í Reykjanesbæ.

Mikil ólga hefur verið í hópnum Hundasamfélagið á Facebook eftir hvarf Tinnu. Tinna var í pössun hjá ókunnugri konu í Reykjanesbæ þegar hún týndist. Það var aðfaranótt 29. desember sem farið var með Tinnu ásamt þremur öðrum hundum út í garð til að láta hana pissa. Tinna var með heimagerða ól og fældist þegar flugeldur sprakk í nágrenninu og sleit sig lausa úr ólinni, samkvæmt upplýsingum frá Yrsu.

Yrsa tók að sér að svara spurningum fólks á Hundasamfélaginu fyrir móður sína sem treystir sér ekki sjálf til að hafa samskipti við fólk vegna kvíða sem hefur aukist eftir hvarf Tinnu. Konan hefur verið gagnrýnd fyrir að láta eigendur Tinnu ekki vita af hvarfi hennar strax en þau fengu ekki að vita af hvarfinu fyrr en sólarhring síðar þegar þau komu að sækja tíkina.

Konan sem passaði hana þorir ekki út úr húsi
Tinna er enn ófundin Konan sem passaði hana þorir ekki út úr húsi

Yrsa segir að mamma hennar hafi sett hina hundana inn í lokað herbergi og farið strax að leita að Tinnu og leitað hennar í fjóra klukkutíma. Strax daginn eftir talaði hún við lögregluna og hundaeftirlitið og bað um aðstoð. Yrsa segir móður sína ekki hafa látið eigendurna vita því hún vildi ekki eyðileggja fríið þeirra og vonaðist til að Tinna myndi skila sér.

Málið er óneitanlega farið að minna á Lúkasarmálið svokallaða þegar hundurinn Lúkas hvarf árið 2007. Sögusagnir fóru á kreik um að Lúkas hefði verið drepinn og maður sem grunaður var um verknaðinn mátti þola ofsóknir í kjölfarið.

„Mamma er algjörlega á botninum núna eftir að löggan kom og heimtaði að gera húsleit hjá henni og ég og systur mínar erum hérna í Noregi að farast úr áhyggjum. Ég er ekki búin að sofa síðan á gamlárs því ég hef svo miklar áhyggjur af henni,“ skrifar Yrsa og bætir við:

„Ég finn til með Andreu [eiganda Tinnu] og skil hennar hlið mjög vel en að sverta og eyðileggja mannorð mömmu minnar er ekki nauðsynlegt. Slys gerast og fólk höndlar svona á misjafnan hátt. Mamma þorir ekki lengur út úr húsi því hún er hrædd um að fólk eigi eftir að henda sér á hana með allslags meinyrðum og stælum. Hún dregur ekki upp gardínurnar heima hjá sér því henni finnst eins og það sé verið að fylgjast með henni.“

Tinna er ennþá týnd og hafa fundarlaunin nú hækkað úr 200 þúsund krónum upp í 300 þúsund. Á vefnum hundasamfélagið.is eru að finna nánari upplýsingar um Tinnu og hvernig skal bregðast við ef hún finnst.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.