fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FréttirLeiðari

Maður orða sinna

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 31. janúar 2017 09:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Venjulega er stjórnmálamönnum talið það til tekna ef þeir uppfylla kosningaloforð sín. Í hugum almennings er hinn dæmigerði stjórnmálamaður einstaklingur sem stígur fram með langan loforðalista í kosningabaráttu en er svo á harðahlaupum frá loforðunum nokkrum dögum eftir kosningar. Sennilega áttu flestir von á því að svipað ætti við um Donald Trump, kosningaloforð hans væru líka svo fjarstæðukennd að ekki væri rökrétt að gera ráð fyrir að þau kæmust nokkru sinni til framkvæmda. Nú sýnir sig að þeir sem þetta héldu voru barnslega einfaldir.

Því miður hefur Donald Trump reynst vera maður orða sinna. Það verður því ekki sagt að kjósendur hans hafi keypt köttinn í sekknum. Hann var kosinn út á ógeðfelld stefnumál sín og kjósendur hans eru vísast himinlifandi og líta svo á að loksins sé kominn forseti í Hvíta húsið sem mark sé takandi á. Á fyrstu dögum í embætti hefur hann verið iðinn við að undirrita tilskipanir sem miða að því að efna kosningaloforðin, auk þess sem hann hefur gefið ýmsar hrollvekjandi yfirlýsingar, eins og þá að pyntingar væru ekki svo slæmar vegna þess að þær virka. Trump hefur á undraskömmum tíma tekist að skapa svo mikinn óróa meðal Bandaríkjamanna að fjöldamótmæli eru orðin daglegt brauð.

Í lýðræðisríkjum er það yfirleitt þannig að þegar umdeildur forseti er kjörinn þá sækist hann eftir því að sætta þjóðina og lýsir því yfir að hann ætli sér að vera forseti allra landsmanna. Trump hefur ekki farið þessa leið. Hann hefur greinilega litla sem enga diplómatíska hæfileika og virðist þar að auki ekki geta tekið leiðsögn. Allri gagnrýni tekur hann sem persónulegri árás. Slíkir menn raða já-mönnum í kringum sig og einangrast snarlega í veruleikafirringu sinni.

Ákvörðun Trump að banna flóttamönnum að koma til Bandaríkjanna og tímabundið bann við komu fólks frá Írak, Íran, Sýrlandi, Súdan, Sómalíu, Líbíu og Jemen hefur valdið uppnámi. Nú er svo komið að þær þjóðir heims sem kenna vilja sig við mannréttindi eru komnar í þá ótrúlegu stöðu að spyrja sig hvort mögulegt sé að eiga náin og góð tengsl við stórveldið Bandaríkin. Hvað er til ráða þegar forseti landsins boðar að troðið skuli á mannréttindum fólks og ákveðnum hópum útskúfað? Ljóst er að ásýnd Bandaríkjanna hefur beðið verulegan hnekki.

Á sama tíma og sýrlenskum flóttamönnum er meinað að koma til Bandaríkjanna opnaði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, dyr Bessastaða fyrir þeim. Sú tímasetning er alveg örugglega engin tilviljun. Sennilega man Guðni vel eftir hinum fleygu orðum, sem eignuð eru Edmund Burke: „Það eina sem þarf til að hið illa sigri er að góðir menn geri ekkert.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu