fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Verður ekki skylt að fjölga í borginni

Jón Gunnarsson boðar frumvarp sem afnemur skyldu Reykjavíkurborgar til að fjölga borgarfulltrúum

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 29. janúar 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í þingmálaskrá ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, þar sem tiltekið er hvaða mál ríkisstjórnin hyggst leggja fram á þinginu, er meðal annars að finna frumvarp Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, til breytinga á sveitarstjórnarlögum. Frumvarpið miðar að því að afnema skyldu Reykjavíkurborgar til að fjölga borgarfulltrúum eftir næstu sveitarstjórnarkosningar. Samkvæmt núgildandi lögum frá árinu 2011 er borginni skylt að fjölga aðalmönnum í borgarstjórn úr 15 í að minnsta kosti 23 eftir kosningarnar 2018 en samkvæmt lögunum er heimilt að fjölga þeim upp í allt að 31. Skiptar skoðanir eru meðal borgarfulltrúa um frumvarpið.

Unnið að málinu í forsætisnefnd

[DV greindi frá því í desember síðastliðnum((http://www.dv.is/frettir/2016/12/23/borgin-gaeti-sparad-thratt-fyrir-fjolgun-borgarfulltrua/) að unnið væri að því innan forsætisnefndar borgastjórnar að kanna með hvaða hætti best yrði staðið að fjölgun borgarfulltrúa í fjárhagslegu tilliti en að óbreyttu myndi launakostnaður vegna fjölgunar borgarfulltrúa um átta auka launakostnað borgarinnar um 92 milljónir rúmar á ári. Brugðið var upp tveimur sviðsmyndum. Sé horft á aðra sviðsmyndina myndi kostnaður borgarinnar hækka um tæpar 19 milljónir en samkvæmt hinni myndi kostnaðurinn lækka um rúmar 28 milljónir.

Dagur B. Eggertsson telur að skipulag á starfi borgarstjórnar skipti meira máli en fjöldi borgarfulltrúa.
Enginn talsmaður fjölgunar Dagur B. Eggertsson telur að skipulag á starfi borgarstjórnar skipti meira máli en fjöldi borgarfulltrúa.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Dagur enginn sérstakur talsmaður fjölgunar

Verði frumvarp Jóns Gunnarssonar, sem leggja á fram í mars komandi, hins vegar lögfest breytist staðan. Samkvæmt frumvarpinu yrði borginni í sjálfsvald sett hvort af fjölgun borgarfulltrúa yrði. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að skiptar skoðanir hafi verið um fjölgunina innan borgarstjórnar. „Ég hef litið þannig á að Alþingi eigi að setja þennan ramma, það var Alþingi sem ákvað það einróma á sínum tíma að fjölga ætti borgarfulltrúum. Forsætisnefnd borgarstjórnar hefur verið að vinna til samræmis við það. Borgarstjórn tók á sínum tíma ekki afstöðu með eða á móti frumvarpinu um fjölgun borgarfulltrúa heldur eftirlét það einstökum borgarstjórnarflokkum og borgarfulltrúum. Það hafa verið skiptar skoðanir um þetta mál þannig að verði þetta að lögum munum við taka umræðuna upp að nýju.“

Dagur segir að í sínum huga skipti meira máli hvernig störf borgarstjórnar séu skipulögð heldur en hversu margir borgarfulltrúar sinni þeim. „Ég hef ekki verið neinn sérstakur talsmaður þess að fjölga borgarstjórnarfulltrúum. Ég held að talan skipti ekki öllu máli heldur hvernig starfið er skipulagt. Í dag eru fjölmargir varaborgarfulltrúar og aðrir fulltrúar virkir í starfi borgarstjórnar og það hvernig þeir hlutir eru útfærðir skiptir ekki minna máli.“

Halldór Halldórsson segir að sjálfstæðismenn sjái enga sérstaka ástæðu til að fjölga borgarfulltrúum.
Fagna boðun frumvarpsins Halldór Halldórsson segir að sjálfstæðismenn sjái enga sérstaka ástæðu til að fjölga borgarfulltrúum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sjálfstæðismönnum líst vel á

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, fagnar því að stefnt sé að því að leggja frumvarpið fram. „Okkur líst mjög vel á þetta, borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, mjög vel. Við skrifuðum einmitt þingflokki Sjálfstæðisflokksins bréf fyrir nokkrum mánuðum þar sem við hvöttum til að viðlíka frumvarp Sigríðar Andersen yrði samþykkt. Af því varð ekki en við fögnum þessu. Breyti Alþingi þessum lögum þarf borgarstjórn að taka afstöðu til þess hvort hún haldi sig við þá stefnu að fjölga borgarfulltrúum. Þetta þarf að gerast hratt, það er stuttur tími til stefnu. Undirbúningsvinna forsætisnefndar borgarstjórnar hefur gengið út frá því að borgarfulltrúum verði fjölgað í 23.“

Halldór segir að sjálfstæðismenn muni beita sér fyrir því, verði frumvarpið samþykkt, að borgarfulltrúar verði áfram 15. „Það hefur verið okkar afstaða. Við höfum ekki séð ástæðu til að fjölga borgarfulltrúum. Þetta er eina sveitarfélagið á landinu þar sem allir borgarfulltrúar eru í fullri vinnu og varaborgarfulltrúar á launum að hluta. Því hefur verið haldið fram að hægt sé að spara það mikið í öðrum kostnaði að aukakostnaður vegna fjölgunar borgarfulltrúa verði ekki verulegur, jafnvel enginn. Við höfum ekki keypt þau rök.“

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, telur að fjölgun borgarfulltrúa muni styrkja lýðræði í borginni.
Vill að borgin haldi sínu striki Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, telur að fjölgun borgarfulltrúa muni styrkja lýðræði í borginni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Líf vill að borgin haldi sínu striki

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og forseti borgarstjórnar, er hins vegar þeirrar skoðunar að borgin ætti að halda sínu striki og fjölga borgarfulltrúum. „Það hníga mörg rök að því að fjölga borgarfulltrúum. Ég tel það styrkja lýðræðið, líklegra sé að hópur kjörinna fulltrúa verði fjölbreyttari og minni framboð og fleiri sjónarmið fái rödd ef borgarfulltrúum verður fjölgað.“

Líf bendir á að íbúum borgarinnar hafi fjölgað gríðarlega. Borgarfulltrúum hafi verið fjölgað í 21 á kjörtímabilinu 1982 til 1986 en þá hafi þeim verið fækkað aftur í 15. Árið 1986 var íbúafjöldi í Reykjavík um 91 þúsund manns en á síðasta ári, 2016, bjuggu ríflega 122 þúsund manns í borginni. Borgarstjórn núna endurspegli ekki þær breytingar sem orðið hafa á íbúaþróun. „Mín persónulega skoðun er sú að við eigum að halda okkar striki og fjölga borgarfulltrúum við næstu borgarstjórnarkosningar. Verði frumvarpið að lögum þurfum við hins vegar auðvitað að ræða málið að nýju.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala