fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Alvarleg staða í Frakklandi

Inflúensufaraldur breiðist út – Sóttvarnarlæknir sér ekki ástæðu til að vara við ferðum

Ritstjórn DV
Laugardaginn 14. janúar 2017 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Inflúensufaraldur breiðist nú út um Evrópu og hefur Frakkland orðið mjög illa úti. Svo alvarleg er staðan raunar að franski heilbrigðisráðherrann hefur beint þeim tilmælum til sjúkrahúsa þar í landi að framkvæma ekki aðgerðir nema bráða nauðsyn beri til svo pláss sé fyrir sjúklinga sem þurfi á meðferð vegna inflúensu að halda. Tugir Íslendinga eru í Frakklandi að fylgjast með handboltalandsliði karla sem tekur þar þátt í heimsmeistaramótinu. Embætti landlæknis telur þó ekki ástæðu til að gefa út sérstaka viðvörun vegna ferða til Frakklands.

Ástandið í Frakklandi er með þeim hætti að sjúklingar veikir af inflúensu hafa þurft að bíða í allt að sólarhring þar til hægt er að meðhöndla þá. Í flestum tilfellum er um eldra fólk að ræða og hefur biðin haft það í för með sér, að sögn talsmanna hjúkrunarfólks í Frakklandi, að fjöldi fólks sem hefði verið hægt að hjálpa hefur látist vegna inflúensunnar.
Talið er að faraldurinn muni ekki ná hámarki fyrr en í næstu viku. Samkvæmt því sem haft er eftir heilbrigðisráðherranum Marisol Touraine eru óvenjumargir nú alvarlega veikir og varar hún við því að fjöldi manns kunni að láta lífið. Í hitteðfyrra kostaði inflúensufaraldur yfir 18 þúsund manns lífið í Frakklandi að því er kemur fram í frétt danska ríkisútvarpsins.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í samtali við DV að ekki sé talin ástæða til að vekja sérstaka athygli á stöðunni í Frakklandi hér á landi. Íslendingar ferðist víða og þrátt fyrir að heimsmeistaramótið í handknattleik fari nú fram í Frakklandi telji heilbrigðisyfirvöld ekki ástæðu til að vara sértaklega við inflúensufaraldrinum þar í landi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt