Skattpíningin löngu komin út úr öllu korti 

Ofurskattar á áfengi og tóbak er sérkennileg pólitík – Neyslustýring ekki virkað segir framkvæmdastjóri FA

Mynd: Kristín Bogadóttir

„Þetta eru rosalegar tölur,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, um upplýsingarnar um álagningu á áfengi og tóbak sem DV fjallar um í blaðinu í dag. Félag atvinnurekenda (FA) vakti nýlega athygli á verðlagningu áfengis hér á landi þegar hækkanirnar sem nú eru komnar til framkvæmda voru boðaðar.

„Þetta eru tölur sem við könnumst við,“ segir Ólafur og bendir á að hlutfall ríkisins geti verið enn hærra en þarna kemur fram. Þá verði að taka með í reikninginn að það sem kallast smásöluálagning ÁTVR endi líka í ríkissjóði. „Innkaupsverð á vodkaflöskunni er innan við 10 prósent og allt hitt fer til ríkisins.“

Heimsmet í álagningu löngu slegin

Ólafur bendir réttilega á að hækkun á áfengis- og tóbaksgjöldum hafi í gegnum tíðina verið réttlætt með tvennum hætti. Annars vegar sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð og hins vegar sem neyslustýring.

„Sem tekjuöflun, þá spyrjum við: Eru engin takmörk fyrir því hvað er hægt að skattleggja einhverjar tilteknar vörur til að afla tekna fyrir ríkissjóð? Evrópu- og heimsmet í áfengisgjöldum eru löngu slegin og mönnum finnst samt í lagi að halda bara áfram. Við höfum kallað eftir einhverri pólitískri stefnumörkun um það hvar eigi að láta staðar numið, því þetta eru bara endalausar hækkanir,“ segir Ólafur.

„Hin réttlætingin á þessu er að þetta sé neyslustýring. Við fáum ekki séð að hún sé að virka. Það er að segja, að þrátt fyrir hækkandi gjöld þá eykst salan í Vínbúðunum. Ef menn vilja fást við neikvæðar afleiðingar áfengis- og tóbaksneyslu þá er miklu nær að gera það með forvarnarstarfi sem hefur sýnt sig að skili miklu betri árangri en tilraun til að stýra neyslu með sköttum.“

Ólafur kveðst ekki hafa alþjóðlegan samanburð varðandi skattlagningu á tóbaki og hvernig henni sé háttað í nágrannaríkjum okkar, en hvað áfengið varðar séum við komin út úr öllu korti.

Meira í DV í dag

Sjá einnig:

Þetta hirðir ríkið af tóbaki og áfengi eftir hækkanir

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.