Mús á veitingastað Ruby Tuesday: „Fengum kökk í hálsinn og rukum út“

„Ég er rosalega svekkt og ætla ekki að sleppa þessu svona auðveldlega. Þetta er viðbjóðslegt,“ segir Ragnhildur Ingibjörg Ólafsdóttir sem ásamt vinkonum sínum varð vör við mús þar sem þær sátu á á veitingastað Ruby Tuesday á Höfðabakka síðastliðinn fimmtudag. Hún segir staðinn ekki hafa viljað bjóða hópnum endurgreiðslu fyrr en hún vakti athygli á atvikinu á samfélagsmiðlum. Eigandi staðarins segir málið vera tekið alvarlega.

Í samtali við blaðamann kveðst Ragnhildur hafa snætt á staðnum ásamt tveimur öðrum vinkonum sínum og hafi þær setið þar með ungum börnum sínum. „Þegar við sitjum þarna og erum að spjalla hleypur síðan mús fram hjá vinkonu minni og inni gat á bakvið hana! Henni brá heldur betur og fengum við allar kökk í hálsinn að hafa verið búnar að borða þarna.“

Ragnhildur segir þær vinkonur hafa gert tveimur starfsmönnum staðarins viðvart og bent þeim á hvert músin fór.
„Þau náðu þá í límaband og límdu fyrir götin, sem gerir nú lítið. Og þetta var í kringum borðið okkar!“,“ segir hún og bætir við að hópurinn hafi engu að síður verið rukkaður um fullt verð fyrir matinn.

„Ég spurði hvort það væri engin afslættur væri fyrir þetta og þau neituðu því þar sem þau vissu ekki af músinni og hún hefði alveg eins getað hafa stokkið inn rétt áður út af kulda. Við fengum allar kökk í hálsinn og rukum út.“

Ragnhildur segir staðinn ekki hafa svarað tölvupóstum hennar í kjölfar atviksins en hún vakti athygli á málinu inni á facebookhópnum Matartips. Þá kveðst hún jafnframt hafa sent tölvupóst til Heilbrigðiseftirlitsins vegna málsins.

Hefur pantað meindýraeyði

Guðmundur Ingvar Arnfjörð, eigandi Ruby Tuesday á Íslandi sendir frá sér tilkynningu vegna málsins í kjölfar þess að Ragnhildur vakti athygli á því á facebook. Þar segir:

„Þetta finnst okkur á Ruby Tuesday mjög miður að heyra. Við viljum að sjálfsögðu að allir fari ánægðir héðan út en það er augljóst að við höfum ekki staðið okkur nægjanlega vel í gær. Ég hef sett mig í samband við Ragnhildi Ingibjörgu og við munum að sjálfsögðu endurgreiða hópnum að fullu strax í dag.

Varðandi músaganginn, þá höfum við ekki orðið vör við mýs áður en tökum þessu mjög alvarlega og ég hef þegar pantað meindýraeyði sem mun fara yfir allt húsnæðið hjá okkur og ganga úr skugga um að hér sé allt í standi. Við eldum alla okkar hamborgara úr fersku kjöti, og setjum aldrei eldaða hamborgara inn í ískáp og notum seinna. Ég mun ræða við kokkana til þess að reyna að átta mig á þvi hvað getur hafa gerst hér. Ég mun svo í framhaldinu setjast niður með öllu okkar starfsfólki og skerpa á ferlunum hjá okkur.“

„Mér finnst þetta bara hryllingur og ég vil ekki að aðrir lendi í þessu. Við vitum ekkert hvort að mýs eða rottur hafi komist í snertingu við matinn,“ segir Ragnhildur jafnframt í samtali við blaðamann.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.