Fréttir

Milljónir úr eigin vasa til að hjálpa flóttamönnum

Jim Estill er stundum kallaður Oskar Schindler Kanadamanna

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 11. janúar 2017 18:00

Hann er stundum kallaður Oskar Schindler þeirra Kanadamanna og þótt mannúðarstarfið sem hann vinnur sé í eðli sínu frábrugðið því sem Þjóðverjinn vann á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar er markmiðið það sama, að koma fólki í neyð til aðstoðar. Jim Estill er maðurinn sem hér er fjallað um en á undanförnum mánuðum hefur hann, upp á eigin spýtur, varið sem nemur 130 milljónum króna úr eigin vasa til að koma hátt í 50 fjölskyldum frá hinu stríðshrjáða Sýrlandi til Kanada.

Skilvirkt stuðningskerfi

Breska blaðið Guardian fjallaði ítarlega um Jim Estill á dögunum, en Estill þessi er auðmaður og stjórnarformaður raftækjafyrirtækisins Danby sem er með höfuðstöðvar í Guelph í Ontario.

Það var um mitt ár 2015 að Estill fór að leiða hugann að því hvort og þá hvað hann gæti gert til að leggja hönd á plóginn á tímum „einhverrar mestu mannúðarkrísu okkar tíma“ eins og hann orðar það. Eftir Víetnamstríðið komu Kanadamenn á eins konar stuðningskerfi (e. private sponsorship program) sem fól í sér að einstaklingar og samtök gátu tekið höndum saman og gerst stuðningsaðilar fyrir flóttamenn. Einu skilyrðin voru þau að viðkomandi stuðningsaðilar veittu flóttamönnum fjárhagslegan stuðning og styddu við bakið á þeim í leit að húsnæði og atvinnu fyrsta árið eða svo. Síðan kerfinu var komið á hafa 275 þúsund flóttamenn komið til Kanada með þessari leið.

Ástandið í Sýrlandi hefur verið afar eldfimt á undanförnum árum og milljónir manna kosið af illri nauðsyn að yfirgefa heimili sín.
Stríðsástand Ástandið í Sýrlandi hefur verið afar eldfimt á undanförnum árum og milljónir manna kosið af illri nauðsyn að yfirgefa heimili sín.

Mynd: EPA

Erfitt að þurfa að velja

Estill hugsaði með sér að kerfið væri sniðugt fyrir mann í hans stöðu, mann með sterkt fjárhagslegt bakland og viljann til að láta gott af sér leiða. Hann settist því niður og reiknaði hversu marga flóttamenn hann gæti stutt og var niðurstaðan sú að í fyrstu gæti hann aðstoðað um 50 fjölskyldur sem myndu þá setjast að í Guelph og nágrenni borgarinnar.

„Þú ert í rauninni kominn í hlutverk skaparans. Þú velur hver lifir og deyr, þú velur hver fær að koma og hver ekki.“

„Mér fannst þetta ekki mikið. Guelph er 120 þúsund manna borg og 50 fjölskyldur eru kannski 250 til 300 manns,“ sagði hann í viðtali við Guardian. Estill settist niður með góðgerðasamtökum í borginni og fékk þau í lið með sér. Það var auðveldi hlutinn. Erfiði hlutinn kom hins vegar þegar hann þurfti að velja hvaða flóttamenn hann tæki með til Kanada. Milljónir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir stríðsátökin í Sýrlandi á undanförnum árum og eins og Estill orðar það var hann skyndilega kominn í það hlutverk að ráða hver fengi að lifa og hver þyrfti að deyja. „Þú ert í rauninni kominn í hlutverk skaparans. Þú velur hver lifir og deyr, þú velur hver fær að koma og hver ekki.“

Estill segir þó að hann hafi ákveðið að láta skynsemina ráða för þegar hann valdi fjölskyldur. Hann taldi að áætlun hans, hvort hún tækist eða mistækist, réðist af því hversu margir myndu fóta sig í kanadísku samfélagi þegar fram liðu stundir; hversu margir fengju vinnu, greiddu skatta og myndu aðlagast samfélaginu. Með þessi atriði í huga ákvað hann að þeir sem ættu ættingja fyrir í Kanada yrðu í forgangi og þeir sem líklegt væri að myndu aðlagast samfélaginu á skjótan hátt. „Þetta þýddi, sem dæmi, að við tókum ekki einstæða móður með átta börn. Þetta var hræðilegt en hvað áttum við að gera,“ spyr hann.

47 fjölskyldur búnar að koma sér fyrir

Þegar upp var staðið hafði Estill valið 58 fjölskyldur og þó að fyrsta markmiðinu sé nú náð ætlar hann ekki að láta staðar numið. Hann ætlar að fá fleiri fjölskyldur, 50 í senn, til Kanada í gegnum stuðningskerfi sitt. Áður en næstu 50 fjölskyldur koma vill Estill að þær fjölskyldur sem þegar eru komnar séu búnar að aðlagast samfélaginu. Þegar þetta er skrifað eru 47 fjölskyldur búnar að koma sér fyrir í Guelph og 11 til viðbótar eru væntanlegar á næstu mánuðum.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sést hér bjóða flóttamenn velkomna til Kanada. Stuðningskerfi fyrir flóttamenn var komið á í Kanada eftir Víetnamstríðið og síðan þá hafa 275 þúsund flóttamenn komið til landsins.
Velkomin Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sést hér bjóða flóttamenn velkomna til Kanada. Stuðningskerfi fyrir flóttamenn var komið á í Kanada eftir Víetnamstríðið og síðan þá hafa 275 þúsund flóttamenn komið til landsins.

Óhætt er að segja að áætlun Estill hafi fallið í góðan jarðveg meðal íbúa Guelph og hafa 800 íbúar nú þegar skráð sig á lista yfir sjálfboðaliða sem eru tilbúnir að veita fjölskyldunum stuðning. Þessi stuðningur getur verið af ýmsum toga; allt frá því að sýna fjölskyldum helstu stofnanir borgarinnar og hvar verslanir er að finna til þess að finna húsnæði og atvinnu.

Einn laugardag fyrir skemmstu gekk Estill til dæmis á milli húsa og bauð íbúum að láta moka snævi þökt bílastæði gegn vægu gjaldi. Íbúar tóku þessu tilboði með opnum huga og mættu nýju þegnarnir í kjölfarið með skóflur og fengu laun fyrir.

„Trúi þessu ekki ennþá“

Þó að margir hafi lagt hönd á plóginn hefur Estill verið aðalmaðurinn í þessu öllu saman. Hann hefur varið nánast hverju einasta kvöldi í að heimsækja þá íbúa sem þegar eru búnir að koma sér fyrir eða tekið á móti nýju þegnunum á heimili sínu til að veita þeim félagsskap. Nú þegar er búið að byggja fjölbýlishús þar sem íbúðir eru leigðar flóttamönnum og þá stendur vinna yfir við að breyta skrifstofubyggingu í borginni í leiguhúsnæði. Þar sem Estill er stjórnarformaður Danby hefur hann komið upp sérstakri deild innan fyrirtækisins þar sem einungis flóttamenn eru í vinnu. Estill hjálpar einnig flóttamenn sem eru með aðrar áætlanir. Til að mynda aðstoðaði hann fyrrverandi bílasala frá borginni Damaskus í Sýrlandi við að opna dollaraverslun í verslunarmiðstöð í borginni. Estill hjálpaði honum að fjármagna verslunina og sér maðurinn, Youssef, um daglegan rekstur.

„Ég vildi ekki verða gamall og hugsa þá með mér að ég hefði staðið á hliðarlínunni og fylgst með.“

„Ég trúi þessu ekki ennþá,“ segir Youssef sem flúði frá Sýrlandi þegar stríðið braust út. Þaðan fór hann til Kaíró í Egyptalandi. Í viðtalinu kveðst hann lengi hafa reynt að safna kjarki til að smygla sér til Evrópu í leit að betra lífi. Hann heyrði af áætlun Estill í gegnum frænda sinn í Kanada og af rælni ákvað hann að sækja um, vitandi að líkurnar á að hann fengi samþykki væru ekki ýkja miklar.

„Ég fór beint á Google og reyndi að komast að því hver hann væri, þessi maður sem væri tilbúinn að borga 130 milljónir úr eigin vasa til handa fólki sem hann hefur aldrei hitt,“ segir Youssef sem segist eiga Estill ótrúlegt margt að þakka. Þó að tiltölulega skammt sé liðið síðan áætlunin fór af stað er um helmingur flóttamannanna kominn með vinnu. Þeir greiða sjálfir fyrir leiguhúsnæði sitt.

Sjálfur segir Estill að launin fyrir vinnuna séu ánægjan við að sjá flóttamennina koma sér fyrir í Kanada og hefja nýtt líf, ef svo má segja. „Það er ekkert eins ánægjulegt og það,“ segir hann og bætir við að kveikjan að þessar áætlun hafi verið einföld: „Ég vildi ekki verða gamall og hugsa þá með mér að ég hefði staðið á hliðarlínunni og fylgst með. Þannig að ég ákvað að gera það sem ég gat.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
í gær

Öll bestu tíst vikunnar á einum stað: „Vona að gellan sem tók sig til og pissaði á gólfið á b5 sé á feitum bömmer“

Öll bestu tíst vikunnar á einum stað: „Vona að gellan sem tók sig til og pissaði á gólfið á b5 sé á feitum bömmer“
Fréttir
í gær

Ari Eldjárn gestur í vinsælum skemmtiþætti á BBC

Ari Eldjárn gestur í vinsælum skemmtiþætti á BBC
Fréttir
í gær

Guðni Th. skammaður fyrir syndir Ólafs Ragnars: „Að ná sér í eina með extra ananas“

Guðni Th. skammaður fyrir syndir Ólafs Ragnars: „Að ná sér í eina með extra ananas“
Fréttir
í gær

Atli Helgason fær ekki lögmannsréttindi

Atli Helgason fær ekki lögmannsréttindi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leikarinn Vilhelm Neto túlkar íslenska sumarið á einstakan hátt: „Á morgun ætla ég að fokka þér upp“

Leikarinn Vilhelm Neto túlkar íslenska sumarið á einstakan hátt: „Á morgun ætla ég að fokka þér upp“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Myndband: Milljónir hafa horft á heimsþekktan bloggara lofsama Ísland

Myndband: Milljónir hafa horft á heimsþekktan bloggara lofsama Ísland
Fyrir 2 dögum

Einstakur flokkur

Einstakur flokkur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hlustaðu á átakanlega upptöku: Þórhildur klökknaði í beinni útsendingu á Rás 1

Hlustaðu á átakanlega upptöku: Þórhildur klökknaði í beinni útsendingu á Rás 1