Hné niður við sjúkrahúsið á Ísafirði: Var meinaður aðgangur að bráðaþjónustu

Enginn svaraði í vaktnúmerið sem er eina leiðin til að fá þjónustu

Mynd: Sigurður Gunnarsson.

Síðastliðinn laugardag var manni gert erfitt um vik að leita sér læknisþjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Maðurinn sem var illa haldinn af lungnabólgu ætlaði að ganga á sjúkrahúsið til að leita sér aðstoðar en fékk aðsvif á leiðinni og lognaðist út af. Gangandi vegfarandi kom manninum til aðstoðar, bankaði upp á í næsta húsi og bað húsráðendur um að hringja á lækni.

Manninum var í framhaldinu ekið á sjúkrahúsið sem er staðsett steinsnar frá staðnum þar sem maðurinn hné niður.
Bæjarins bestu greinir frá. Þar segir jafnframt að illa hafi gengið að ná á lækni í gegnum símanúmerin 1700 og 1770. Þá var hringt í 112 en þegar hér var komið við sögðu höfðu mennirnir tveir beðið heillengi fyrir framan sjúkrahúsið. Á meðan reyndi sá þriðji ítrekað að hringja á lækni.

Þá segir á Bæjarins bestu:

„Móttökur á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða voru með þeim hætti að sjúklingnum og þeim sem aðstoðaði hann var bent á að hringja vaktsímann 1700 til að fá aðstoð. Íbúinn sem heima sat við símann hringdi þá aftur í 112, þar sem boðist var til að hringja eftir sjúkrabíl fyrir manninn sem þegar var kominn á sjúkrahúsið, til þess að kalla mætti til lækni eftir þeim leiðum.“

Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóra lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, segir að stundum sé ekki ljóst þegar sjúklingar koma sér sjálfir á staðinn hvort um bráðatilfelli sé að ræða eða hvort málin geti fengið afgreiðslu í gegnum vaktnúmerið 1700.

„Ef um augljós bráðatilvik er að ræða séu sjúklingar fyrirvaralaust teknir inn á deild og læknir kallaður til og í þessu tilfelli hefði átt að taka strax á móti sjúklingnum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.