Fréttir

Hafnaði endurupptökubeiðni dæmds barnaníðings

Telur sig hafa verið ranglega sakfelldan

Kristín Clausen
Miðvikudaginn 11. janúar 2017 17:00

Endurupptökunefnd hafnaði í vikunni beiðni dæmds barnaníðings. Maðurinn, sem var sakfelldur fyrir fjölmörg kynferðisbrot gegn sex stúlkum árið 2008, telur að hann hafi verið ranglega dæmdur eða dæmdur fyrir mun fleiri brot en þau sem hann framdi.

Líkt og DV greindi frá á sínum tíma var við ákvörðun refsingar árið 2008 litið til þess að um var að ræða mörg brot framin yfir langt tímabil gegn börnum og unglingum og sum þeirra voru mjög alvarleg. Var endurupptökubeiðandi dæmdur í fangelsi í fjögur ár og til greiðslu miskabóta.

Brotin gegn einni stúlku, sem er fædd 1984, voru framin á árunum 1988 til 1994 og gegn annarri, fæddri 1987, árið 1993 eða 1994. Fjórar stúlknanna voru fæddar 1992. Brotin gegn þeim voru flest framin árið 2001. Manninum var meðal annars gefið að sök að hafa borgað tveimur stúlkunum fyrir að hafa við sig munnmök.

Endurupptökubeiðandi telur að hann hafi verið ranglega sakfelldur eða sakfelldur fyrir mun meira brot en það sem hann hafi framið. Þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi vikið röksemdum héraðsdóms til hliðar hafi hann þyngt refsingu þar sem brotahrina hafi verið talin standa lengur yfir en fái staðist.

Endurupptökubeiðandi telur að byggt hafi verið á röngum staðreyndum og eða upplýsingum sem hvergi hafi komið fram í skýrslum, mikils ósamræmis hafi gætt milli vitna og eða brotaþola og þá hafi sönnunargögn verið rangt metin eða ekki nægilega rannsökuð. Þá telur endurupptökubeiðandi að um óvönduð vinnubrögð hafi verið að ræða af hálfu dómara.

Þá telur hann að rannsóknarlögregla hafi ekki fylgt lögbundinni hlutlægni við rannsókn málsins og að sönnunargögnum endurupptökubeiðanda í hag hafi verið haldið eftir. Þar sem að þeim gögnum hafi verið haldið eftir ættu þau að teljast sem ný gögn í endurupptökumálinu. Að lokum telur endurupptökubeiðandi að sönnunarbyrði hafi minnkað verulega í málum er varði kynferðisbrot.

Endurupptökunefndin féllst ekki á það með manninum að um ný gögn sé að ræða né heldur að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Þá hafi ekkert komið fram í máli þessu sem sýnir að ætla megi að ákærandi eða dómari hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru.

Að sama skapi verður ekki talið að vitni eða aðrir hafi vísvitandi borið ranglega fyrir dómi og það hafi valdið rangri niðurstöðu málsins.

Rökstuðningur mannsins hvað varðar framburð stúlknanna og vitnanna er reistur á sömu sjónarmiðum og haldið var fram af hans hálfu við meðferð málsins fyrir dómstólum og var tekinn afstaða til hans þar. Yfirlýsing tveggja ættingja endurupptökubeiðanda um meintar lygar einnar stúlkunnar gefa ekki tilefni til annarrar niðurstöðu.

Því telur endurupptökunefnd ekki hægt að fallast á þann rökstuðning endurupptökubeiðanda að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fyrir 2 dögum

Með og á móti: Lúpína

Með og á móti: Lúpína
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þungur Pungur hraunar yfir Áttuna: „Hreinasti peningaþvottur“

Þungur Pungur hraunar yfir Áttuna: „Hreinasti peningaþvottur“