Formaður Stúdentaráðs mælir með eftirsetu og skólabúningum í grunnskólum: „Stuðlar að auknum aga“

„Þessi refsing byggir ekki á hreinni illsku, þvert á móti er tilgangurinn að hjálpa börnum að læra að það borgar sig að vera stundvís. Af hverju að taka áhættuna á að mæta fimm mínútum of seint ef það getur kostað klukkutíma í eftirsetu aukalega eftir skóla?“ spyr Kristófer Már Maronsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands í pistli sem birtist á vefsíðunni Rómur. Nefnir Kristófer að dónaskapur og agaleysi sé oft á tíðum viðurkennd hegðun hjá Íslendingum. Hann spyr hvort einn af orsakavöldum agaleysis barna, unglinga og fullorðins fólks sé að finna í barnaskólum landsins og telur að ein leið til auka aga komandi kynslóða sé að taka upp eftirsetu og skólabúninga.

Svokallað eftirsetukerfi (detention) tíðkast í mörgum grunnskólum erlendis og er ein algengasta refsing við óæskilegri hegðun nemenda í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu, Kanada og Singapúr, ásamt mörgum öðrum löndum, líkt og Kristófer nefnir. Sjálfur kveðst hann þekkja kerfið af eigin reynslu eftir að hafa stundað nám í grunnskóla í Ástralíu á unglingsárunum og segir hann kerfið hafi borið sýnilegan árangur.

„Það kom örsjaldan fyrir að börn enduðu í eftirsetu, það gerðist þó en í kjölfarið var stundvísi nemenda til fyrirmyndar. Yfirleitt voru allir mættir tíu mínútum til korteri fyrir tíma, þar sem við vinirnir byrjuðum jafnan daginn á stuttum fótboltaleik eða spjalli um daginn og veginn. Bekkurinn hittist fyrir utan smíðastofuna á slaginu hálfníu og þá var nafnakall áður en haldið var til skólastofu. Á meðan nafnakallinu stóð röltu starfsmenn um og athuguðu hvort allir væru ekki í skólabúningunum sínum, þar sem eftirseta var á matseðlinum fyrir þá sem fylgdu ekki reglunum.“

Þá kveðst Kristófer jafnframt vera stuðningsmaður skólabúninga eftir að hafa verið í skóla þar sem slíkir búningar tíðkuðust. en líkt og Kristófer nefnir er nemendum er skylt að ganga í skólabúning fyrstu tíu ár skólagöngunnar í flestum skólum Ástralíu, bæði í kennslustofum og í leikfimistímum.

„Það var þó þannig að í ellefta og tólfta bekk gátu nemendur valið sér klæðnað alveg sjálf. Þrátt fyrir það mátti varla sjá íþróttabuxur og hettupeysu því nemendur höfðu vanist því að klæða sig snyrtilega frá og með 7. bekk og sá ávani varð meginreglan þegar kom að skólaklæðnaði,“ ritar Kristófer og bætir síðar við:

„Nú þykir mörgum það eflaust full mikil forræðishyggja að börnin þurfi sérstök íþróttaföt. Fyrir það fyrsta þá getur þú ekki sýnt öllum vinum þínum nýju Tim Cahill treyjuna sem þú fékkst í jólagjöf, en öll vorum við í gulum bol og dökkbláum stuttbuxum svo metingurinn var úr sögunni.“

Hann nefnir einnig hvernig kurteis framkoma áströlsku nemendanna hafi verið gjörólík agaleysinu heima á Íslandi.
Hann segir dónaskap á borð við óstundvísi og það að grípa frammí fyrir fólki vera nokkurs konar samþykkta hegðun hjá Íslendingum, en viðurlögin séu þó sjaldnast nokkur.

„Þetta kristallast út um allt í samfélaginu og ég tel að ein leið til þess að takast á við vandamálið til lengri tíma sé að kenna börnum í grunnskóla hvað agi, virðing og stundvísi skipta miklu máli. Ein af áhrifaríkustu leiðunum tel ég vera eftirsetu og skólabúninga.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.