fbpx
Sunnudagur 17.febrúar 2019
Fréttir

Tveir þingmenn ekki skráð hagsmuni

Ráðherra tók túr á makríl – Smári og Óli Björn eiga í fjölmiðlum

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 10. janúar 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tveir þingmenn hafa ekki skráð fjárhagslega hagsmuni sína eða trúnaðarstörf í hagsmunaskrá sem skylt er að gera eigi síðar en mánuði eftir að þing kemur saman. Þing kom saman 6. desember síðastliðinn og því er liðinn sá frestur sem gefinn er til skráningarinnar. Annar þingmannanna er Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, sem er í veikindaleyfi og skýrir það væntanlega hví hann hefur ekki skráð sína hagsmuni. Hinn þingmaðurinn er Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Svo sem sjá má hér í ítarefni gilda reglur um skráningu ýmissa hagsmuna um þingmenn. Ekki ber þeim hins vegar skylda til að birta upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni fjölskyldumeðlima sinna eða tengsl við fyrirtæki og félög. Fimmtán þingmenn hafa birt yfirlýsingu um að þeir hafi enga fjárhagslega hagsmuni sem reglurnar taki til. Meðal þeirra eru tveir sitjandi ráðherrar, Gunnar Bragi Sveinsson og Ólöf Nordal, og einnig fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Nýir þingmenn líklegri til að eiga í félögum

Sextán þingmenn eiga hluti í félögum eða fyrirtækjum samkvæmt hagsmunaskrá. Í langflestum tilfellum er um að ræða þingmenn sem komu nýir á þing í síðustu kosningum og má því ætla að þeir þingmenn sem setið hafi lengur hafi í flestum tilfellum losað sig við sína eignarhluti, hafi þeim verið til að dreifa. Umsvifamestur í þessum efnum er þingmaður Viðreisnar, Jón Steindór Valdimarsson, en hann á hluti í fjórum félögum sem nema 25 prósentum eða meiru af hlutafé eða stofnfé. Það eru fyrirtækin Marel, Eimskipafélagið og Össur, auk Nordberg Innovation sem ekki hefur starfsemi.

Tveir sitja í sveitarstjórnum

Fimmtán þingmenn færa inn í hagsmunaskrá að þeir gegni launuðum störfum utan þingmennsku eða standi í starfsemi sem sé tekjumyndandi fyrir þá eða félag í þeirra eigu. Þeir Brynjar Níelsson og Haraldur Benediktsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, eiga báðir eigin fyrirtæki í rekstri. Í tilfelli Brynjars er um að ræða lögmannsstofu hans en í tilfelli Haraldar er um að ræða kúabú á Vestri-Reyni sem hann á og rekur ásamt konu sinni. Þá sitja tveir þingmenn einnig í sveitarstjórnum, Bryndís Haraldsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, í Mosfellsbæ og Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, í Kópavogi. Það gerði raunar Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Akureyri þar til um síðustu áramót. Þess er þó ekki getið í hagsmunaskráningu enda Njáll ekki búinn að skila henni.

Þingmenn tiltaka ýmis störf sem þeir hafa sinnt tímabundið í hagsmunaskrá. Þannig tiltekur Birgitta Jónsdóttir Pírati að hún hafi unnið að ráðgjöf við handrit kvikmyndarinnar The Fifth Estate. Athygli vekur að Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og heilbrigðisráðherra, hefur skroppið einn túr á makríl með Samherjatogaranum Vilhelm Þorsteinssyni í ágúst árið 2010.

Eiga í fjölmiðlum

Tveir þingmenn eiga hluti í fjölmiðlum. Það eru þeir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem er eigandi Þjóðmála sem kemur út ársfjórðungslega og Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sem á tveggja prósenta hlut í Stundinni. Smári hefur raunar greint frá því að hann hyggist selja hlut sinn og leiti nú kaupanda.

Tveir þingmenn hafa fengið eftirgjöf skulda, Framsóknarkonurnar Elsa Lára Arnardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir. Elsa Lára fór í gegnum sértæka skuldaaðlögun en Silja Dögg fékk leiðréttingu á evruláni. Þá tiltekur Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, að hún standi í málaferlum við Landsbankann vegna þess að fyrirtæki í hennar eigu hafi verið tekið af henni með, að hennar sögn, ólögmætum hætti.

Þingmenn sitja síðan margir hverjir í stjórnum eða gegna trúnaðarstörfum fyrir ýmis félög. Skemmtilegustu lýsinguna á slíku er án efa að finna í skráningu Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingkonu Vinstri grænna. Lilja Rafney er stjórnarmaður í Sæmundi Fróða ehf., sem er „einkahlutafélag um rekstur maka. Launalaust.“

Uppfært: Njáll Trausti var staddur norðan heiða í síðustu viku en rak sig þá á að tenging hans við innri vef Alþingis virkaði ekki. Hann sendi hagsmunaskráningu sína því í tæka tíð á Word-skjali til skrifstofu Alþingis. Starfsmönnum þar var óheimilt að setja inn skráninguna fyrir hans hönd og því varð það að bíða þar til Njáll Trausti var kominn aftur suður. Hann hefur nú skilað inn hagsmunaskráningunni og bíður hún samþykktar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Í gær

Spurning vikunnar: Hvað er uppáhaldslagið þitt í Söngvakeppninni frá upphafi?

Spurning vikunnar: Hvað er uppáhaldslagið þitt í Söngvakeppninni frá upphafi?
Fréttir
Í gær

Sigríður áreitt á veitingastað þar sem hún sat með 14 ára syni sínum: „Framkoma þeirra var viðurstyggileg“

Sigríður áreitt á veitingastað þar sem hún sat með 14 ára syni sínum: „Framkoma þeirra var viðurstyggileg“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dýravinir í stríð við Egilsstaði vegna kattafjöldamorða: „Don´t visit Egilsstaðir“

Dýravinir í stríð við Egilsstaði vegna kattafjöldamorða: „Don´t visit Egilsstaðir“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jón Baldvin kemur femínisma til varnar: „Dæmigert fyrir karlaveldið“

Jón Baldvin kemur femínisma til varnar: „Dæmigert fyrir karlaveldið“