Fréttir

Niðurstaðan í ESB-málinu ekki vonbrigði

„Vonbrigði að fá ekki meirihluta atkvæða í kosningunum“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 10. janúar 2017 15:09

Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði í Gerðarsafni nú rétt í þessu, að sú niðurstaða sem birtist í nýjum stjórnarsáttmála að láta alþingi leiða til lykta tillögu um framhald viðræðna um Evrópumál, væri ekki vonbrigði. „Það voru vonbrigði að fá ekki hreinan meirihluta í kosningunum,“ sagði hann og uppskar hlátur.

Hann sagði að öllum flokkum væri ljóst að ekki væri samstaða um Evrópumál. „Allavega fyrir hönd okkar í Bjartri framtíð erum við sátt við það, sem er ljóst eftir vendingar síðustu ára, að það er ekki hægt að halda áfram án þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum.“ Hann sagði þetta ástættanlega niðurstöðu.

Sjálfstæðisflokkurinn er þeirrar skoðunar að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB en hinir flokkarnir tveir eru hlynntari aðildarviðræðum. Óttarr sagði eðlilegt í ljósi stöðunnar í Evrópusambandinu og útgöngu Breta, að þingið tæki afstöðu til tillögu um áframhald aðildarviðræðna á síðari hluta kjörtímabilsins. Hann nefndi í því samhengi að Evrópusambandið sjálft ætlaði ekki að taka inn ný ríki næstu árin.

Í stjórnarsáttmálanum segir: „Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af