Harmleikurinn á Jótlandi: Rannsakað sem morðmál

Mynd: EPA

Einstaklingarnir sex sem fundust látnir í húsi í smábænum Ulstrup á Jótlandi í gær voru fjölskylda sem samanstóð af tveimur fullorðnum og fjórum börnum. DV greindi frá því í gær að rannsókn málsins væri á frumstigi. Lögregla hefur nú tilkynnt að málið sé rannsakað sem morðmál.

Fram kemur í tilkynningunni að borist hafi nafnlaus ábending um kvöldverðarleyti í gær um að ekki væri allt með felldu í húsinu. Í kjölfarið fannst fjölskyldan þar látin. Lögreglan kveðst ekki geta gefið upp hvað nákvæmlega átti sér stað inni í húsinu en vonast er eftir að niðurstaða krufningar muni varpa ljósi á málið.

Ekkert hefur komið fram um hvort morðvopn hafi fundist í húsinu eða hvort merki um innbrot hafi verið á vettvangi.

Fram kemur í frétt Extra Bladet að foreldrarnir séu um fertugt og börnin fjögur á aldrinum 3 til 16 ára, tvær stúlkur og tveir drengir.

Rúmlega 2 þúsund manns eru búsettir í Ulstrup og hefur áfallateymi rætt við samnemendur barnanna. Þá hefur fótboltaæfingum hjá yngri flokkum í þorpinu verið frestað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.