fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Íslensku bræðurnir sem hurfu sporlaust: „Þetta var skelfilegt mál“

Geirfinnur og Runólfur – Yngri bróðirinn hvarf þriggja ára

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 29. september 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Freyja Jónsdóttir blaðamaður rannsakaði mannshvörf á Íslandi um langt skeið. Meðal þeirra mála sem hún rannsakaði var bræðranna Geirfinns og Runólfs Einarssona sem hurfu með 33 ára millibili. Mál Geirfinns þekkja flestir Íslendingar enda eitt þekktasta sakamál síðustu aldar. Færri þekkja mál Runólfs sem hvarf aðeins þriggja ára gamall.

Sendust með kaffi

Freyja segir: „Þetta var skelfilegt mál. Þetta fólk var og er gegnumheilt og gott fólk.“ Foreldrar bræðranna voru Einar Runólfsson og Anna Guðbjörg Jónsdóttir, bændur í Dalalandi í austanverðum Vopnafirði. Runólfur Kristberg var þeirra annað barn, fæddur 1938, en hann hvarf þann 19. júní árið 1941.

„Þessi litli drengur fór með eldri systur sinni og einum eða tveimur öðrum krökkum til að færa föður sínum og öðrum vinnumönnum miðdegiskaffi þar sem þeir voru að vinna nokkuð langt frá bænum að hlaða vegaslóða.“ Verið var að hlaða og gera við reiðgötur uppi í fjalli, yfir í næsta dal. Runólfur var langyngstur en hinir krakkarnir voru á aldrinum 7–8 ára.

„Það gekk allt vel og þau færðu Einari kaffið, sem við getum ímyndað okkur að hafi verið í flösku sem hefur verið klædd í sokk til að halda því heitu. Það var fínt og bjart veður þegar þau fara af stað heim, búin að afhenda kaffið. En þegar þau koma aftur að bænum dembist þokan yfir.“

Í nokkra stund, kannski klukkutíma, áttaði enginn sig á því að Runólfur var ekki með þeim. „Einhvern veginn verður fólkið á bænum vart við það að Kristberg litli hafi ekki skilað sér heim með hinum. Hin börnin áttuðu sig ekki á því að hann væri horfinn, við vitum hvernig þetta er með krakka. En það voru ekki taldar miklar hættur í umhverfinu þarna um kring. Þá er byrjað að hlaupa út um allt og hrópa og kalla eftir drengnum. Það er farið til vegavinnumannanna sem henda frá sér skóflunum og allir fara að leita.“

Gekk einn í þoku

Leitin að Runólfi litla var ein sú umfangsmesta sem gerð hafði verið á þessum tíma. „Þetta var mjög umfangsmikil leit sem stóð yfir í þrjár vikur. Það var fengin flugvél til að fljúga yfir svæðið og sérstakir leitarhundar sem var mjög óvanalegt. Stundum voru notaðir smalahundar við leit, en aðeins þeir sem höfðu slíka hæfileika.“ En leitin reyndist algerlega árangurslaus. „Drengurinn fannst aldrei, hvorki tangur né tetur af honum.“

„Það verða ansi margar flökkusögur til í kringum mannshvörfin, stórar og tröllauknar“

Líklegasta skýringin er að drengurinn hafi gengið með fram gili og fallið fram af björgum við stað sem nefnist Búrið, austan við Vopnafjörð. „Það er svolítið löng leið fyrir lítið barn að ganga en við vitum að krakkar á þessum aldri geta gengið ótrúlega langt. Þetta er talin eina skýringin á þessu hvarfi.“

Áður hefur verið sagt að annar skór Runólfs hafi fundist í leitinni en Freyja kannast ekki við það. „Ég hef hvergi séð það. Það verða til svo margar sögur í kringum svona. Ég ræddi við fólk sem var þarna og það minntist aldrei á neinn skó. Það verða ansi margar flökkusögur til í kringum mannshvörfin, stórar og tröllauknar.“

Þekktasta sakamál Íslands

Hvarfið fékk mjög á fjölskylduna en þegar þetta gerðist höfðu þau nýlega eignast þriðja barnið, ónefndan son. Hann var skírður Runólfur Kristberg í höfuðið á týnda bróður sínum. Ári síðar fæddist hjónunum svo fjórða barnið, Geirfinnur, og síðar tvö önnur börn. Anna Guðbjörg lést árið 1950 úr veikindum og þá voru systkinin send í fóstur á aðra bæi. Geirfinnur ólst upp á bænum Straumi í Hróarstungu, milli Jökulsár á Dal og Lagarfljóts. Sem ungur maður starfaði hann á ýmsum kaupstöðum á Austurlandi uns hann flutti til Keflavíkur og settist þar að. Árið 1963 kvæntist hann Guðnýju Sigurðardóttur og eignuðust þau saman tvö börn á næstu árum. Geirfinnur vann ýmis störf, svo sem við sjómennsku og hjá byggingarverktaka.

Þann 19. nóvember árið 1974 hvarf Geirfinnur sporlaust eftir fund við óþekktan mann við Hafnarbúðina svokölluðu í Keflavík á ellefta tímanum um kvöldið. Hann kom heim í stutta stund því að viðmælandi hans virðist ekki hafa mætt. Þá fékk hann símtal um að koma aftur og fór því aftur af stað. Geirfinnur sást aldrei framar eftir þetta.

Hvarf 19. nóvember árið 1974.
Geirfinnur Einarsson Hvarf 19. nóvember árið 1974.

Umfangsmikil leit hófst á Suðurnesjum og í Reykjavík að Geirfinni en hann fannst aldrei. Hann var úrskurðaður látinn og upp hófst sakamálarannsókn yfir nokkrum ungmennum sem grunuð voru um að hafa myrt hann. Málið var talið tengjast hvarfi annars manns, Guðmundar Einarssonar, 25. janúar þetta sama ár. Málið var því kallað Guðmundar- og Geirfinnsmálið upp frá því.

Nokkur ungmenni játuðu á sig verknaðinn og árið 1980 voru sex einstaklingar dæmdir í Hæstarétti fyrir mismikla aðild að morðunum. Rannsóknin tók langan tíma og málsmeðferðin öll hefur verið mikið gagnrýnd allar götur síðan. Sér í lagi meðferð sakborninga í gæsluvarðhaldi og hvernig játningarnar voru fengnar án sönnunargagna. Hinir dæmdu og aðrir þeim tengdir hafa margoft reynt að fá endurupptöku í málinu í gegnum tíðina og nú fyrst er það komið í formlegt ferli.

Fólk leitar alltaf

Það er mjög sjaldgæft að fólk hverfi sporlaust og einstakt að tveir bræður hverfi með með svo löngu millibili. Þó að lík þeirra hafi aldrei fundist má telja öruggt að þeir hafi báðir farist en á meðan fullvissan er ekki til staðar leitar þetta á þá allra nánustu. Minnismerki var reist um bræðurna Runólf og Geirfinn á æskuslóðum þeirra við Vopnafjörð.

Freyja segir að þessi mál hafi reynt mjög mikið á Einar, föðurinn sem lést löngu síðar. Vinkona Freyju þekkti hann mjög vel og hann sagði oft við hana „Ég veit ekki hvað ég hef gert af mér í fyrra lífi, það hlýtur að hafa verið eitthvað voðalegt.“ Hún segist alltaf hafa rætt málin við nánustu ættingja og aldrei skrifað um þau mál sem fjölskyldan vildi ekki tala um, sem er mjög algengt. Fjölskylda Runólfs og Geirfinns hefur ávallt verið opin með þessi mál. „Við vitum að þeir sem missa sína nánustu, þeir leita alltaf meðan þeir draga andann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
Fréttir
Í gær

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fréttir
Í gær

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus