Fréttir

„Bankahrunið“ innan gæsalappa

Leikrit í sjö þáttum

Sigurvin Ólafsson
Laugardaginn 19. ágúst 2017 15:45

Gárungarnir tala oft um „hið svokallaða hrun“ sem átti sér stað á Íslandi í október 2008 og setja stundum upp gæsalappir þegar þeir nefna orðin kreppa eða bankahrun. Af engu sérstöku tilefni ákvað DV að taka saman og birta nokkur eftirminnileg ummæli ýmissa persóna og leikenda, innan gæsalappa, í þessum súrrealíska leikþætti sem íslenska þjóðin spann í sameiningu frá byrjun þessarar aldar þar til tjöldin féllu.

1. Þáttur: JARÐVEGURINN LAGÐUR

„Á undanförnum árum hefur efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar endurspeglað þá sannfæringu að frelsi í efnahagsmálum hlyti að vera grundvöllur efnahagslegrar velmegunar og forsenda þess að blómlegt og margbreytilegt mannlíf fengi að dafna á Íslandi. Það er í anda þessarar stefnu sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að ráðist var í að einkavæða viðskiptabankana. Eins og vonlegt er þá hefur sala bankanna tekið sinn tíma, til hennar var vandað eins og hægt var og ríkið fékk gott verð fyrir þessar eignir sínar. En mestu skiptir að nú hefur ríkisvaldið dregið sig algerlega út úr bankarekstri og er það mikið fagnaðarefni. Hlutverk ríkisins á fjármálamarkaði takmarkast við það að setja lög og reglur, að hafa eftirlit með að eftir þeim sé farið og að tryggja að samkeppni ríki á þessum mikilvæga markaði“
– Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, 21. mars 2003.

„Það kann vel að vera að einhverjum finnist þetta undarlegt og spyrji hvernig það megi vera að þessi litla þjóð geti gert sig svo gildandi á erlendum mörkuðum sem raun ber vitni. Ég hef sjálfur lent í þeirri ánægjulegu stöðu að útskýra fyrir ýmsum erlendum aðilum að þar skipti að sjálfsögðu miklu máli það áræði, sá kraftur og það frumkvæði sem býr í íslenskum athafnamönnum.“
– Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, 30. mars 2005.

„Einu sinni spurði Nóbelsskáldið í útvarpserindi sem svo: „Hvað hefði Egill Skallagrímsson sagt um þetta?“ Egill kunni vel að meta veraldlegan auð á sinni tíð. Á því leikur varla vafi að sá gamli höfðingi og útrásarvíkingur mun slá við glotti ef og þegar hann fylgist með fjármálavíkingum nútímans. Þjóðin er stolt af þessum mikla árangri og hún nýtur þess sem flutt er hingað heim, áþreifanlegt og óáþreifanlegt í þessum mikla feng. Ég óska íslenskum fjármálafyrirtækjum og samtökum þeirra velfarnaðar og áframhaldandi útrásar og árangurs.“
– Jón Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, 26. apríl 2007.

„Overall, the internationalisation of the Icelandic financial sector is a remarkable success story that the markets should better acknowledge.“
– Úr skýrslu Richard Portes og Friðriks Más Baldurssonar 21. nóvember 2007.

„Both I and the people of Iceland are very proud of the bank‘s achievements. Kaupthing has become the flagship company of the Icelandic national economy. I give the Kaupthing Bank my strongest personal recommendation. The professionalism of its leadership and their staff has made Kaupthing into one of the most successful European banks with strong expertise both in clean energy and real estate.“
– Úr bréfi Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta Íslands, til krónprinsins í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, 23. apríl 2008.

2. Þáttur: HIÐ LJÚFA LÍF VÍKINGSINS

„Hæ Magnús, Við gengum ekki frá bónus fyrir síðasta ár. Ég legg til 1 millj evrur. Hvað segir þú. Kv. Se.“
– Tölvupóstur Sigurðar Einarssonar, fyrrv. stjórnarformanns Kaupþings, til Magnúsar Guðmundssonar, fyrrv. bankastjóra Kaupþings í Luxembourg, 9. júlí 2008.

„Takk Meira en nog :-).“
– Svar Magnúsar Guðmundssonar 9. júlí 2008.

„Og ég sagði við hann: Þorsteinn, ég veit að þú átt enga peninga, geturðu útskýrt fyrir mér hvernig þú getur keypt Vífilfell? Og hann horfði á mig, brosti, og ég gleymi aldrei orðalaginu: Með þróaðri fjármálatækni.“
– Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„… gengi Peningabréfa er aldrei neikvætt, sem þýðir að þú átt aldrei að geta tapað höfuðstól eða uppsafnaðri ávöxtun.“
– úr tölvupóstum starfsmanna Landsbankans við sölu Peningabréfa til viðskiptavina.

„Kaupthinking is beyond normal thinking.“
– Myndband Kaupþings frá 2007.

„Meginskýringin var sú að þeir menn sem þarna þurfti að taka á, þeir voru búnir að vera stórkostlegir gleðigjafar fyrir þjóðfélagið. Stórkostlegir gleðigjafar fyrir þjóðfélagið, meira að segja að þegar var verið að hugsa um framhaldið þá var alltaf Sigurður Einarsson kallaður til og gerður að stjórnarformanni í einhverjum nefndum sem áttu að undirbúa framhaldið, […] Þó að allir þessir menn vissu að hann væri opnandi rauðvínsflöskur sem kostuðu 200.000 krónur, flösku eftir flösku eftir flösku.“
– Davíð Oddsson, fyrrv. Seðlabankastjóri, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

3. Þáttur: ÚRTÖLUDRAUGAR KVEÐNIR NIÐUR

„Kraftur, kjarkur og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu. […] Auðvitað skortir ekki úrtölur eða þá sem telja sig knúna til að tala útrás og fjárfestingaævintýri Íslendinga erlendis niður.“
– Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, 21. desember 2007.

„But analysts reckon that, thanks to a series of cross-shareholdings across the Icelandic economy, it would not take much for the whole country‘s financial system to go into meltdown.“
– The Daily Telegraph, 5. febrúar 2008.

„British savers have billions in Icelandic accounts, but its banking system is looking shaky.“
– The Sunday Times, 10. febrúar 2008.

„When clients ask us why the Icelandic banks are considered to have higher risk profile than their other European peers, one does not have to search hard for answers: rapid expansion, inexperienced yet aggressive management, high dependence on external funding, high gearing to equity markets, connected party opacity. In other words: too fast, too young, too much, too short, too connected, too volatile.“
– Úr skýrslu Merrill Lynch, 31. mars 2008.

„Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans enn sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert.“
– úr skýrslu Seðlabankans „Fjármálastöðugleiki“, 8. maí 2008.

„Mér finnst þetta makalaus ummæli og hjá svona virtum fjárfestingarbanka og ég, það hvarflaði að mér um tíma, sko hvaða annarlegu sjónarmið búa þarna að baki því að þetta á ekki við nein rök að styðjast og ég spyr líka sem menntamálaráðherra þarf þessi maður ekki á endurmenntun að halda?“
– Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, 25. júlí 2008, brást við úrtölum starfsmanns Merrill Lynch.

4. Þáttur: VERNDARENGLARNIR

„Eftirlitið átti bara að vera þarna, en það átti náttúrlega bara helst að vera lítið og sætt og sinna bara svona einhverjum lykilverkefnum.“
– Jónas Fr. Jónsson, fyrrv. forstjóri FME fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Ég held að það hafi verið grundvallarmisskilningur út á hvað fjármálaeftirlit gengur hérna á Íslandi. Ekki bara Fjármálaeftirlitið, sú stofnun, heldur Seðlabankinn líka. Að það væri hlutverk þessara aðila að fylgjast með því að menn færu eftir lögum og ef menn færu eftir lögum, eins og þau voru á hverjum tíma […] þá væri allt í lagi. Þannig að þú ert að horfa á fjármálakerfið fara fram af brúninni, en af því að það gerir það samkvæmt lögum, þá er það bara fínt.“
– Þórarinn Pétursson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Bara þarna alveg fram, þangað til seint í september að þá bara var maður alveg grandalaus fyrir því að það væri bara allt að hrynja, það mundi vera hrunið bara nokkrum vikum seinna.“
– Ragnar Hafliðason, fyrrv. aðstoðarforstjóri FME, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„[…] ef að það er þannig að þessir menn sem að skrifuðu upp á reikninga bankanna hafi verið í algerri þoku um hvað væri hér að gerast í íslenskum bankaheimi þar til í október 2008, að þá náttúrulega voru þeir ekki að vinna vinnuna sína, það er svo einfalt […].“
– Stefán Svavarsson, fyrrv. aðalendurskoðandi Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

5. Þáttur: „HRUNIГ

„Ég meina, ég stóð allsber í búningsklefanum í World Class, var að fara í gufubað á sunnudegi og var að halda mér sérstaklega til því að ég var í fyrsta skipti á ævinni að fara til klæðskera. Og leit á símann minn í fötunum áður en ég fór í gufuna og þá sá ég bara að þar voru ógeðslega mörg símtöl og sms frá Einari Karli sem var staddur í Glasgow og sagði að það væru allir að leita að mér, það væri einhver krísa og ég yrði að hringja í Ingibjörgu Sólrúnu þannig að ég klæddi mig og hringi í hana. Þá sagði hún mér það að ég ætti að fara niður í Glitni og það væri krísa þar og hún sagði mér hvað væri um að ræða, Glitnir væri að fara niður. Hún sagði mér af tillögunni sem lægi fyrir, ég man ekki betur, 75 prósentunum, og ég sagði við hana: Bíddu, á ég að fara þarna? Ég meina, [ég hef] hvorki áhuga né vit á þessu, …“
– Össur Skarphéðinsson, fyrrv. iðnaðarráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Og mér var sérstaklega minnisstætt að þegar fundurinn er að hefjast þá snýtir Össur sér og segir yfir fundarborðið að hann hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum.“
– Sigríður Logadóttir, yfirlögfræðingur Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Hann [Þorsteinn Már Baldvinsson] orðaði það þannig: Ég hef aldrei á ævi minni verið tekið annað eins í rassgatið. … Það voru upphafsorðin hjá honum. Síðan fór hann yfir þetta og bara lýsti því sjónarmiði að með þessari ákvörðun væri verið að setja hluthafa Glitnis í þá stöðu að það hlytu að verða rosalegar afleiðingar fyrir þá.“
– Gestur Jónsson, lögmaður, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Og þegar að þessum ólgusjó linnir, af því að auðvitað linnir öllum slíkum fárviðrum fyrr eða síðar, þá mun þessi banki standa vel og þá geri ég ráð fyrir því að ríkið muni losa sig við sinn eignarhlut og þá geri ég ráð fyrir því að ríkið, og þar með skattborgararnir munu hagnast á öllu saman.“
– Davíð Oddsson í viðtali við fréttastofu RÚV 29. september 2008.

„Þetta er stærsta bankarán Íslandssögunnar og augljóslega hluti af stærri átökum sem hafa ekki farið framhjá neinum.“
– Jón Ásgeir Jóhannesson, 30. september 2008.

„Teningunum er kastað“
– Davíð Oddsson, 30. september 2008, (að sögn Jónínu S. Lárusdóttur í skýrslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis).

„ … the Icelandic government, believe it or not, have told us, they told me yesterday, they have no intention of honouring their obligations here.“
– Alistair Darling, 8. október 2008 á BBC Radio 4.

6. Þáttur: HINIR SAKLAUSU

„[…] hafna ég því eindregið að hafa sýnt vanrækslu vegna þeirra atriða sem […] annars vegar lúta að því að hafa ekki tekið málefni bankanna til formlegrar umræðu innan ríkisstjórnar og hins vegar að því að hafa ekki með formlegum hætti lagt mat á fjárhagslega áhættu íslenska ríkisins vegna starfsemi fjármálafyrirtækja hér á landi. Hvorugt framangreindra atriða getur fallið undir starfsskyldur mínar […]“
– Björgvin G. Sigurðsson, fyrrv. viðskiptaráðherra, í bréfi til rannsóknarnefndar Alþingis 2010.

„Eins og ég hef sagt áður, lausafjáreftirlitið er hjá Seðlabankanum […].“
– Jónas Fr. Jónsson, fyrrv. forstjóri FME, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Af öllu framansögðu er ljóst, að eftirlitsskylda með bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum hvílir afdráttarlaust hjá Fjármálaeftirlitinu en ekki Seðlabanka Íslands.“
Davíð Oddsson, fyrrv. Seðlabankastjóri, í bréfi til rannsóknarnefndar Alþingis 2010.

„Samráðshópur þessi var á forræði forsætisráðherra og málefni fjármálakerfisins á forræði annarra ráðuneyta, og stofnana þeirra, þ.e. Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitisins, eins og áður segir, en ekki fjármálaráðuneytisins. Því var ekki tilefni fyrir mig til þess að taka málefni [samráðshópsins] upp við aðra ráðherra án sérstakrar ástæðu.“
– Árni M. Mathiesen, fyrrv. fjármálaráðherra, í bréf til rannsóknarnefndar Alþingis 2010.

„Flestir halda að það hafi verið að troða því ofan í kokið á fólki að taka erlent lán út á húsin en það var akkúrat öfugt, menn grenjuðu að fá þetta.“
– Sigurjón Þ. Árnason, fyrrv. bankastjóri Landsbankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

7. Þáttur: EFTIR Á AÐ HYGGJA

„[Þ]ú gerir yfirleitt ráð fyrir því að fólk sé svona sæmilega heiðarlegt, sérstaklega fólk sem velst í svona stöður, er að reka svona fyriræki, hefur starfsleyfi, þú átt í sjálfu sér von á því að svona það sé í grunninn allavega heiðarlegt.“
– Jónas Fr. Jónsson, fyrrv. forstjóri FME, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Sigurjón [Árnason] er nú mikill stærðfræðingur og teiknaði upp fyrir mig einhver box sem ég skildi nú ekki helminginn af hvernig ætti að með pílum og örum að sem sagt ná í pening út úr Seðlabanka Evrópu.“
– Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Okkar stærsta sök er að vera hluti af íslensku samfélagi sem trúði þessu og var í ákveðnu meðvitundarleysi.“
– Jón Kaldal, fyrrv. ritstjóri Fréttablaðsins, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Það er nú eitt sem maður saknar svolítið, mér finnst að við hefðum getað gert meira, við Íslendingar, á þessu blómaskeiði okkar. Það ætti að liggja meira eftir okkur, stór verk.“
– Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Menn [voru] farnir að velta því fyrir sér að alþjóðasamfélagið, […] hefði verið búið að ákveða það að við færum á hausinn. Hingað kom maður, sem var [hagfræðingur hjá] BIS […] mjög merkilegur maður og hafði oft verið á undan öðrum að sjá hluti. Hann borðaði hérna með okkur eitt kvöldið í júlí [2008] […]. Þá sagði hann: Það er búið að ákveða að einn stór banki verður látinn fara á hausinn, það verða Lehman-bræður, og síðan eitt land, og það verðið þið. […] Ég verð að viðurkenna að þegar Lehmans-bræður fóru á hausinn komu þessi ummæli upp í hugann.“
– Davíð Oddsson, fyrrv. Seðlabankastjóri, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„Það er oft verið að horfa á hvaða steinar voru það í götunni svona á síðustu metrunum sem hinn drukkni datt um. En þetta byrjar á barnum og þetta byrjar þegar þeir fylla sig með öllu þessu fjármagni, fyrst og fremst erlendis frá og lána það út til lengri tíma, síðan fá þeir ekki nýtt fjármagn, þeir ná ekki að selja eignir og þá var leikurinn bara þá þegar raunverulega tapaður í eðli sínu.“
– Tryggvi Pálsson, fyrrv. frkvstjóri fjármálasviðs Seðlabankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

„En vandinn var sá […] hvað átti að gera? Hvaða úrræði hafði ríkið? Ef við gefum okkur það að við höfum vitað það þarna eða í ársbyrjun 2008 að þetta myndi allt fara til andskotans, hvað áttum við að gera? Það voru engin úrræði […].“
– Indriði, afsakið Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2009.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
í gær

Gunnar lenti í óprúttnum aðila í Hafnarfirði: „Er að skrifa svo enginn hringi í lögguna“

Gunnar lenti í óprúttnum aðila í Hafnarfirði: „Er að skrifa svo enginn hringi í lögguna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leikarinn Vilhelm Neto túlkar íslenska sumarið á einstakan hátt: „Á morgun ætla ég að fokka þér upp“

Leikarinn Vilhelm Neto túlkar íslenska sumarið á einstakan hátt: „Á morgun ætla ég að fokka þér upp“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bíll Dótlu Elínar gufaði upp í Kópavogi: „Þarna hefur einhver verið mjög fljótur að hugsa“

Bíll Dótlu Elínar gufaði upp í Kópavogi: „Þarna hefur einhver verið mjög fljótur að hugsa“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einn ríkasti maður Bretlands líkir landsliði Senegal við sólstrandarsölumenn: „Ég kannast við þessa frá ströndinni í Marbella“

Einn ríkasti maður Bretlands líkir landsliði Senegal við sólstrandarsölumenn: „Ég kannast við þessa frá ströndinni í Marbella“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bergvin segir börn ekki þrifin í Vatnaskógi: „Hvað ef börnin missa þvag eða það koma bremsuför?“

Bergvin segir börn ekki þrifin í Vatnaskógi: „Hvað ef börnin missa þvag eða það koma bremsuför?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hröktu ráðherra Trump af mexíkóskum veitingastað: „Skammastu þín!“

Hröktu ráðherra Trump af mexíkóskum veitingastað: „Skammastu þín!“