Fréttir

Gamanið tekið að kárna

Sigurvin Ólafsson skrifar
Friday, August 11, 2017 06:00

Áður fyrr voru falskar fréttir skemmtiefni. Hvenær þær sáust fyrst í hefðbundnum fjölmiðlum hérlendis skal ekki fullyrt en þeim sem hér skrifar birtust þær fyrst í vikublaðinu Pressunni á tíunda áratug síðustu aldar. Þar mátti jafnan finna eina blaðsíðu aftarlega í blaðinu sem kallaðist Gula Pressan, með undirtitlinum „Hafa skal það sem betur hljómar“. Þar mátti til dæmis lesa fréttir um hárígræðslu Steingríms J., að Rás 2 hefði drepið íslenska þorskstofninn úr leiðindum og að ásatrúarmenn hafi reynt að fórna veðurstofustjóra til að kalla fram sólríkara sumar. Um svipað leyti flutti hinn geðþekki en oft hárbeitti fréttamaður Haukur Hauksson ekki-fréttir fyrir landann í útvarpinu og í sjónvarpinu var það Spaugstofan sem skemmti Frónbúum með fölskum fréttum undir stjórn fréttastjórans Péturs Teitssonar. Með tilkomu alnetsins á nýrri öld tóku blaðamenn Baggalúts svo falskar fréttir í nýjar hæðir. Fréttaflutningur Baggalúts hefur hægst nokkuð hin síðari ár en ekki má gleyma því að Baggalútur afhjúpaði í vor að Hauck og Aufhauser, einn kaupenda Búnaðarbankans á sínum tíma, hafi í raun verið þýskur tölvurafpoppdúett.

Í dag eru falskar fréttir hins vegar ekkert grín. Eins og dv.is hefur nokkrum sinnum greint frá þá birtast reglulega falskar fréttir á netinu, þar á meðal um íslenskt fólk, sem eru settar fram í auglýsingaskyni. Það er alvarlegt. Óhugnanlegri eru þó hinar fölsku fréttir sem eru birtar í því skyni að hafa áhrif á niðurstöður kosninga og hvaða fólk eða flokkar komast til áhrifa í ríkjum heimsins. Um slíkan fréttaflutning hefur mikið verið fjallað upp á síðkastið í tengslum við sitjandi forseta Bandaríkjanna, raunar bæði á þann veg að falskar fréttir hafi verið fluttar til að koma honum í embætti og að þær séu nú fluttar til að fella hann úr hásætinu. Nú síðast var sagt frá því að búast megi við stökkbreytingu í fölskum fréttum því nú sé tæknilega mögulegt að setja saman afar raunveruleg myndskeið af fólki að segja hluti sem það hefur í raun aldrei sagt. Miðað við hina miklu notkun og þann ótrúlega dreifingarhraða sem snjallsímar og samfélagsmiðlar bjóða upp á í dag gæti eitt slíkt myndskeið haft gríðarleg áhrif, þess vegna á heila þjóð. Það á kannski sérstaklega við í tilfelli okkar litla lands, þar sem hin minnstu mál eru oft komin á hvers manns varir á augabragði.

Þó að skemmtimiðlarnir, sem nefndir voru hér fyrr, hafi í fréttaflutningi sínum oft beint og óbeint verið að stinga á graftarkýlum samfélagsins þá mátti alltaf treysta því að frásagnir þeirra voru ekki sannar. Í dag er það ekki eins auðvelt. Hér verður þó ekki boðuð sú afturhaldssemi að öll framþróun í tækni og fjölmiðlun muni leiða okkur til glötunar. Hér skal aðeins bent á og fullyrt að í viðurkenndum og rótgrónum fjölmiðlum verða ekki fluttar falskar fréttir í þessu skyni eða öðru. Lesendur eiga því að geta treyst sannleiksgildi þess sem í þeim miðlum stendur. Um áherslur, uppsetningu og efnisval hvers slíks fjölmiðils má hins vegar alltaf deila enda er það smekksatriði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

í gær
Gamanið tekið að kárna

Uppreisn í Folsom-fangelsinu

Fréttir
í gær
Uppreisn í Folsom-fangelsinu

Fjórtán ára piltur sá föður sinn myrtan: Nokkrum dögum síðar hvarf hann sporlaust

Fréttir
í gær
Fjórtán ára piltur sá föður sinn myrtan: Nokkrum dögum síðar hvarf hann sporlaust

Tekinn af lífi 40 árum eftir ódæðisverkin

Fréttir
í gær
Tekinn af lífi 40 árum eftir ódæðisverkin

Hrósið fær Sigríður Andersen

Fréttir
í gær
Hrósið fær Sigríður Andersen

Reykvíkingar vildu ekki ráðhús við Tjörnina

FréttirMenning
í gær
Reykvíkingar vildu ekki ráðhús við Tjörnina

Partý í Hörpu: Sextugir undirheimastrákar á Sónar Reykjavík

í gær
Bölvun á Þorlákshöfn

Að skjóta sig í fótinn

Mest lesið

Ekki missa af