fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Guðlaugur Stefán verður borinn út af heimili sínu á næstunni

Hann fordæmir framgang Félagsbústaða

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 30. júní 2017 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Maður hefur heyrt því fleygt að Félagsbústaðir hafi verið stofnaðir til þess að Reykjavíkurborg geti komist framhjá stjórnsýslulögum. Miðað við mína upplifun þá virðist það vera rétt,“ segir Guðlaugur Stefán Pálmason í samtali við DV. Guðlaugur hefur leigt húsnæði í Fossvogi af Félagsbústöðum í tólf ár en fyrirvaralaust rifti fyrirtækið leigusamningnum í júní 2015. Síðan þá hefur hann staðið í baráttu við stofnunina og segir farir sínar ekki sléttar. „Það stendur ekki á mér að flytja út ef ég fæ annað hentugt húsnæði. Félagsbústaðir hafa ekki boðið mér neitt ásættanlegt húsnæði í staðinn og ganga fram af ótrúlegri hörku og óbilgirni. Velferð er ekki í hávegum höfð þar innandyra,“ segir Guðlaugur. Þá segir hann að fyrirtækið beri fyrir sig lygar varðandi ástæður uppsagnarinnar. „Ástæðurnar hafa breyst. Fyrst sögðu þeir að húsið væri óíbúðarhæft en núna er vísað í skipulagsbreytingar. Það á að rífa þetta hús til þess að byggja upp heimili fyrir ósakhæfa glæpamenn en feluleikurinn með það er hinu opinbera ekki sæmandi.“ Guðlaugur ber einnig forstöðumanni þjónustudeildar Félagsbústaða, Birgi Ottóssyni, illa söguna.

Slasaðist illa í umferðarslysi

Segja má að atburðarásin hafi byrjað árið 2000 þegar Guðlaugur lenti í alvarlegu umferðarslysi. Hann rak á þeim tíma líknarfélag auk þess sem hann var með sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn á landsvísu. Þegar slysið átti sér stað var hann ásamt félaga sínum í fjáröflun úti á landi. Þeir voru á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka þegar bíll þeirra bilaði skyndilega og drap á sér. „Við komumst út af veginum, vel út fyrir hvítu línuna og síðan kíkti félagi minn ofan í húddið og reyndi að átta sig á hvað hefði gerst,“ segir Guðlaugur.

Það næsta sem Guðlaugur veit er að hann rankar við sér langt fyrir utan bílinn og horfir á sjúkra- og lögreglubíla á vettvangi alvarlegs slyss. Bíll á fullri ferð hafði ekið aftan á bifreið félaganna. „Ég fékk stuðarann á bílnum okkar í bakið og rotaðist á bitanum milli hurða. Ég kastaðist framhjá stýrinu, skall með hökuna ofan á mælaborðið og lenti síðan á félaga mínum með rúðuna á milli okkar. Afleiðingin var sú að hann flaug um 15 metra út í hraun. Hann eyðilagði hnéð á sér og öxl en slapp annars lygilega vel,“ segir Guðlaugur. Sjálfur var hann illa slasaður og meðal annars festist takki úr mælaborði bílsins í hálsi hans. Þrátt fyrir að betur hafi farið en á horfðist þá hefur Guðlaugur þurft að glíma við afleiðingar slyssins æ síðan, meðal annars brjósklos og slit í baki. „Ég fór í sjúkraþjálfun skömmu síðar og þar var mér tilkynnt að til þess að eiga eðlilegt líf þyrfti ég að vera í þjálfun í 7–8 tíma á dag. Það er spurning hversu eðlilegt líf það er,“ segir Guðlaugur og kímir.

Hunsuðu lögbundið viðhald

Síðan þá hefur hann verið öryrki og átt afar erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði. „Ég fæ reglulega köst í bakið og ligg þá óvígur í 1–3 vikur. Það vill enginn slíkan starfskraft og þá sérstaklega í því sem ég hef reynslu, stjórnun og markaðsmálum. Ég er eiginlega búinn að gefast upp á að leita mér að vinnu,“ segir Guðlaugur.

Eins og áður segir þá fékk hann umrætt hús leigt í október 2005. Um er að ræða gamalt en fallegt einbýlishús í botni Fossvogs og þar hefur Guðlaugi liðið afar vel og alið upp syni sína. „Ég hef alla tíð staðið við mitt og hef alltaf greitt húsaleigu á réttum tíma,“ segir Guðlaugur. Þá fékk hann leyfi til þess að hafa hundana sína í húsinu sem skiptir hann afar miklu máli. „Ég á sífellt að vera í sjúkraþjálfun en hef einfaldlega ekki efni á því. Hundarnir mínir halda mér við efnið í þeim efnum. Ég kemst ekki upp með annað en að hreyfa og fæða þá daglega þrátt fyrir verkina og það gerir mér gott. Þá eru hundarnir mínir svo ótrúlegir að þeir leggjast upp að mér þar sem bólgurnar eru í líkamanum og lina þannig þjáningar. Þeir hjálpa mér að sofa og ég gæti ekki án þeirra verið,“ segir Guðlaugur.

Að sögn Guðlaugs hefur viðhaldi hússins verið ábótavant að hálfu Félagsbústaða og um mitt ár 2015 var það metið óíbúðarhæft. „Afleiðingarnar urðu þær að ég gat ekki haft börnin mín hjá mér og því tók ég til minna ráða við að lagfæra húsið. Það tók mig um fimm vikur að klára uppsafnað lögbundið viðhald með hjálp góðs fólks. Viðhald sem Félagsbústaðir höfðu ekki sinnt og lentu á mér öryrkjanum,“ segir Guðlaugur. Hann segir að verkefnið hafi tekist vel og húsið sé fyllilega íbúðarhæft í dag.

Upplifði einelti

Á þessum tíma átti hann í samskiptum við Félagsbústaði sem vildu greinilega losna við hann úr húsinu. Þann 10. júní fékk Guðlaugur loks þau skilaboð frá Birgi Ottóssyni, forstöðumanni þjónustudeildar Félagsbústaða, að samskiptum hans við fyrirtækið væri einfaldlega lokið. Ástæðan var sú að húsnæðið væri óíbúðarhæft. „Ég gerði að sjálfsögðu athugasemdir við það enda hafði leigusamningnum ekki verið rift formlega,“ segir Guðlaugur. Samdægurs hafi áðurnefndur forstöðumaður hjá Félagsbústöðum, Birgir Ottósson, komið askvaðandi og tjáð honum fyrirvaralaust að leigusamningnum hefði verið rift. Þá hafi hann sagt Guðlaugi að hann ætti ekkert með að vinna í húsinu. Að mati Guðlaugs er um klárt húsbrot og skjalafals að ræða. „Ég var að reyna að dytta að húsinu til þess að fá syni mína aftur til mín. Birgir æddi þá inn á heimili mitt og vildi að ég skrifaði undir bréf þar sem fram kom að leigusamningnum hefði verið rift. Undir skjalið höfðu tveir vottar þegar skrifað án þess að þeir væru sjáanlegir. Ég spurði hann hvort hann áttaði sig á því hvað hann væri að gera og hann kvaðst meðvitaður um það,“ segir Guðlaugur. Hann var með gest í heimsókn og því átti hið meinta húsbrot sér stað í vitna viðurvist.

Í bréfinu kom fram að ástæða uppsagnarinnar væri sú að húsið væri óíbúðarhæft vegna óþrifa, slæmrar umgengni og viðhaldsskorts. „Ég skal viðurkenna að umgengni mín á þessum tíma var ekki til fyrirmyndar. Ég stóð í skilnaði og átti erfitt með að þrífa eftir átta manns á heimilinu. Það tók hins vegar ekki langan tíma að þrífa húsið og alvarlegra var að Félagsbústaðir brugðust algjörlega í tengslum við viðhald hússins. Síðan er það notað sem afsökun til að sparka mér út,“ segir Guðlaugur. Að hans sögn neitaði Birgir að fara fyrr en Guðlaugur væri búinn að undirrita bréfið og lét Guðlaugur undan að lokum.

Í nóvember 2015 var Guðlaugi síðan formlega sagt upp leigunni en þá hafði ástæðan breyst. Var vísað í fyrirhugaða breytingu á deiliskipulagi borgarinnar og væntanlega uppbyggingu á svæðinu. DV hefur áður fjallað um málið en ráðgert er að byggja öryggisheimili fyrir ósakhæfa einstaklinga sem munu krefjast umfangsmikillar gæslu. Ekkert samráð hefur verið haft við íbúa í nágrenninu hingað til. „Ef þessar framkvæmdir eru raunverulega ástæðan fyrir því að þeir vilja losna við mig þá er ljóst að það mun líða talsverður tími þar til hægt er að hefja þær. Því hefði verið hægt að finna lausn á málinu í rólegheitunum en þess í stað fóru Félagsbústaðir strax af fullri hörku gegn mér. Ég myndi skilja það hjá innheimtufyrirtæki en ekki hjá opinberri velferðarstofnun,“ segir Guðlaugur. Meðal annars hafi hann óskað eftir framlengingu á leigunni til þess að sonur hans gæti klárað 10. bekk en sú beiðni verið hunsuð.

„Ég upplifði mikið einelti af hálfu Birgis Ottóssonar jafnt á fundum sem og í daglegu lífi, þannig að ég bað um að fá að hitta næstráðanda hans til að skrifa undir. Þá skall allt í baklás og ég átti að snúa mér til lögfræðinga Félagsbústaða. Í tvígang reyndi ég að koma á fundi til undirskriftar en var fullkomlega hunsaður. Málið er síðan sett í útburðarfarveg að nauðsynjalausu. Að mínu mati er það lýsandi dæmi um hreina mannvonsku því það er vitað mál að öryrki hefur ekki efni á að berjast fyrir rétti,“ segir Guðlaugur.

Var orðinn hræddur

Síðan þá hefur hann barist gegn fyrirhuguðum útburði fyrir dómstólum. Hann segir að forsvarsmenn Félagsbústaða hafi stöðugt hótað honum því að hann stæði uppi réttindalaus ef að hann léti ekki undan og sækti um svokallaðan milliflutning, eins konar beiðni um annað húsnæði. „Það var mikil pressa á mér að sækja um milliflutning sem mér þótti óeðlilegt. Ég hef ekki óskað eftir því að flytja, það frumkvæði kemur frá Félagsbústöðum. Ég skal hins vegar glaður flytja ef mér býðst húsnæði sem hentar mér en það hefur fyrirtækið ekki gert,“ segir Guðlaugur. Hann furðar sig á offorsinu sem einkennir aðgerðir Félagsbústaða.

Skömmu áður en útburðarmálið var tekið fyrir dóm lét hann undan og skrifaði undir beiðni um milliflutning. Hann segir að hótanir stofnunarinnar um að annars endaði hann réttindalaus á götunni með fjölskyldu sína hafi valdið því. „Sú mynd sem dregin var upp; að drengirnir mínir væru á götunni var óbærileg. Ég var einfaldlega orðinn hræddur,“ segir Guðlaugur. Hann var þó vongóður um að vinna dómsmálið en svo fór ekki. „Við vorum með unnið mál í höndunum en þá var ákveðið að taka málið upp aftur og Félagsbústaðir fengu að bæta við gögnum sem voru dagsett löngu fyrir þá riftun sem var fyrir dómstólum. Ég fékk ekki að tjá mig um þau gögn, sem var forkastanlegt,“ segir Guðlaugur. Niðurstaðan varð sú að Félagsbústaðir hafi verið í rétti, sem Guðlaugur telur fráleita niðurstöðu. „Við munum áfrýja málinu og ég er bjartsýnn á að þar verði réttlætinu fullnægt.“

Það verður einhver að berjast

Í dag er staðan sú að Guðlaugur getur búist við því að vera borinn út á hverri stundu. „Ég veit ekki hvenær þeir henda mér út en sennilega gerist það á næstu dögum. Út af beiðninni um milliflutning, sem ég skrifaði undir, þá hafa þeir boðið mér nýtt húsnæði. Sú íbúð er á þriðju hæð í blokk í lyftulausi húsi. Það liggur í augum uppi að það gengur ekki upp fyrir hreyfihamlaðan mann. Þá fengi ég ekki að hafa hundana mína þar auk þess sem ekki er gert ráð fyrir að 19 ára sonur minn, sem er í fullu námi, geti búið með mér. Þar sem hann er kominn á aldur þá á hann víst bara að búa í tjaldi. Þetta ofbeldi á ekkert skylt við velferð,“ segir Guðlaugur.

Hann svaraði áðurnefndu tilboði á þá leið að hann óski eftir því að það sé dregið tilbaka. „Með því er ég að reyna að höfða til skynsemi og mannúðar. Ég er hræddur um að þetta verði túlkað sem svo að ég hafi hafnað boðinu. Ef ég hafna þremur boðum þá hef ég fyrirgert öllum rétti mínum. Ég trúi því samt varla að þeir hjá Félagsbústöðum geti verið svo ómannúðlegir,“ segir Guðlaugur.

Eftir þessa erfiðu baráttu undanfarinna ára er hann kominn í vígahug. „Ég veit að fleiri einstaklingar hafa farið illa út úr samskiptum sínum við Félagsbústaði. Einstaklingar sem eru litlir í sér og hafa ekki rödd. Ég vil endilega komast í samband við fleiri slíka einstaklinga. Það er óhugnanlegt að hugsa til þess að á döfinni sé að Félagsbústaðir fái aukin völd til þess að taka stjórnsýsluákvarðanir. Miðað við framgang forsvarsmanna í mínu máli þá höndla þeir ekki slík völd.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus