fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Lyfjastríð í Mjódd: Karl Wernersson reyndi að losna við samkeppnisaðila – Það gekk ekki vel

Aðeins þunnur veggur mun skilja að apótek Lyfjavals og Apótekarans í Mjódd

Björn Þorfinnsson
Miðvikudaginn 12. apríl 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nei, það eru engin særindi yfir þessu. Maðurinn er bara í bissness og hafði hag af því að losna við mig. Ég taldi hinsvegar mikilvægt að tvö apótek væru starfrækt í Mjódd og greip því til aðgerða,“ segir Þorvaldur Árnason, eigandi Lyfjavals, í samtali við DV. Strax eftir páska mun hann opna apótek í húsnæði að Álfabakka 14a en áður hafði apótekið verið starfrækt í fjórtán ár á öðrum stað í Mjóddinni, nánar tiltekið Þönglabakka 6. „Eigandi þess húsnæðis, Karl Wernerson, vildi ekki framlengja við okkur leigusamninginn og því var okkur gert að flytja. Ég hafði blessunarlega séð það fyrir og Lyfjaval mun því flytja í næsta verslunarrými við apótek Karls í Mjóddinni,“ segir Þorvaldur

Segja má að samkeppnin verði ekki harðari því þunnur veggur mun koma til með að aðskilja Lyfjaval og útibú Apótekarans, sem starfrækt er í Álfabakka 14.

Taldi eitt apótek í Mjóddinni nægja

Þorvaldur opnaði fyrsta útibú Lyfjavals í Þönglabakka árið 2003 en þremur árum síðar keypti félag í eigu Karls Wernerssonar fasteignina. Sama félag, Faxar ehf, á Lyf og heilsu og Apótekarann, og því var Þorvaldur að leigja húsnæðið af samkeppnisaðila sínum. Rétt er að geta þess að Faxar er í dag skráð í eigu Jóns Hilmars Karlssonar, 22 ára gamals sonar Karls, í gegnum nokkur félög.

Faxar ehf. var hluti af Milestone-samsteypunni sem að fór í þrot í hruninu árið 2008. Félagið var tekið yfir af slitastjórn Glitnis og þá freistaði Þorvaldur þess, ásamt öðrum verslunareigendum í Mjódd, að kaupa fasteignir Faxa ehf. í Mjódd. „Við unnum í því í nokkra mánuði og töldum okkur vera langt komnir með kaupin,“ segir Þorvaldur. Það kom honum því í opna skjöldu þegar að honum var tilkynnt í tölvupósti að Karl Wernerson væri aftur orðinn eigandi félagsins og þar með leigusali Þorvalds.

„Ég var með leigusamning til 1.maí 2017 og því hafði ég ekki miklar áhyggjur af þessu. Þegar um tvö ár voru til stefnu þá byrjaði ég að ræða við Karl um framlengingu á leigusamningnum en fékk engin skýr svör,“ segir Þorvaldur. Hann sá þá í hvað stefndi og þegar verslunarbilið í Álfabakka 14 var auglýst til sölu í lok árs 2015 þá stökk hann til og keypti rýmið.

Það reyndist vera þjóðráð því um mitt ár 2016 fékk hann loks svar frá Karli. „Hann tjáði mér að það væri nóg að hafa eitt apótek í Mjóddinni og því yrði leigusamningurinn ekki framlengdur,“ segir Þorvaldur. Eins og áður segir þá var hann ekki á sömu skoðun og fór því þegar að undirbúa flutning Lyfjavals.

„Við stefnum á að opna strax eftir páska. Það verður áfram samkeppni milli apóteka í Mjóddinni,“ segir Þorvaldur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala