fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FréttirLeiðari

Kvíðin æska á Facebook

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 17. janúar 2017 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Örar tækniframfarir hafa leitt til þess að við þurfum ekki lengur einungis að hitta fólk augliti til auglitis til að eiga við það samskipti, við getum allt eins nýtt til þess samfélagsmiðla. Ekki ættum við að bölva tækninni sem virðist hafa auðveldað líf okkar svo mjög, en þarna er samt hætta sem við verðum að gera okkur grein fyrir. Það er hægt að ánetjast svo mörgu og einnig samfélagsmiðlum. Það getur varla verið eðlilegt að eyða mörgum klukkustundum á dag á Facebook og halda því áfram í sama mæli dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. Samt er það einmitt þetta sem margir gera og sjá fátt athugavert við það, þótt einhverjir heyrist andvarpa og viðurkenna að þarna séu þeir að eyða of miklum tíma. Gríðarmikill tími á samfélagsmiðlum hlýtur að bjóða upp á að eitthvað láti undan, sérstaklega ef viðkomandi er barn eða unglingur.

Síðustu ár höfum við fengið æ fleiri fréttir af rannsóknum sem sýna að íslensk ungmenni verja ískyggilega miklum tíma á samfélagsmiðlum með þeim afleiðingum að kvíði þeirra fer vaxandi, og þá sérstaklega stúlkna. Öll speglum við okkur í umhverfinu (samt í mismiklum mæli) og það er þáttur í mannlegu eðli að vilja fá hrós. Facebook-færslur hrópa á athygli og biðja um hrós og ef viðbrögðin eru lítil sem engin og fá „like“ berast þá er hætt við vonbrigðum, jafnvel svo miklum að sjálfsmynd viðkomandi láti á sjá. Það er ekki hollt að eiga of mikið undir hrósi og athygli annarra og getur ekki annað en aukið á kvíða og skapað öryggisleysi.

Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og Columbia-háskólann í New York, er í forsvari fyrir rannsóknarmiðstöðina Rannsóknir og greining, sem í langan tíma hefur rannsakað líðan barna og unglinga. Í nýlegu viðtali sagði Inga Dóra að of lítill svefn, samfélagsmiðlar, kvíði og líkamsímynd séu allt þættir sem tengist. Það segir sig líka sjálft að ungmenni sem vakir fram á nótt til að vera á samfélagsmiðlum og fær fyrir vikið ekki sinn níu tíma svefn er ekki upp á sitt allra besta daginn eftir. Samkvæmt mælingum Rannsókna og greiningar eru 40 prósent þeirra stúlkna sem sofa minna en sex klukkustundir á sólarhring taugaóstyrkar. Ekki kemur það beinlínis á óvart en það er sláandi að margar unglingsstúlkur skuli ekki fá fullan nætursvefn.

Margoft hefur verið bent á og ítrekað að foreldrar eigi að fylgjast með netnotkun barna sinna og fræða þau um ýmsa vafasama þætti í netheimum. Það er vissulega rétt að þetta ættu þeir að gera. Þær spurningar vakna hins vegar hversu vel allir foreldrar eru í stakk búnir til að sinna þessu hlutverki sínu þegar þeir eru sjálfir tímunum saman á netinu að safna „likum“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala