fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Lífeyrissjóðir vildu ekki stærri hlut í Hörpuhóteli

Stærstu lífeyrissjóðir landsins fjárfesta í lúxushótelinu við Hörpu í gengum sjóð Stefnis

Ritstjórn DV
Föstudaginn 30. september 2016 12:00

Stærstu lífeyrissjóðir landsins fjárfesta í lúxushótelinu við Hörpu í gengum sjóð Stefnis

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnendur þriggja stærstu lífeyrissjóða landsins höfnuðu fyrr í september boði um að sjóðirnir fjárfestu í eigin nafni í lúxushótelinu við Hörpu. Þeir tóku aftur á móti þátt í fjármögnun framtakssjóðsins SÍA III sem mun samkvæmt heimildum DV fjárfesta fyrir um 15 milljónir dala, jafnvirði 1,7 milljarða króna, í verkefninu sem tryggir eigendum hans um 40% af hlutafé hótelsins. Fjármögnun þess er langt komin og ætla innlendir einkafjárfestar og eigendur bandaríska fasteignafélagsins Carpenter & Company að útvega hlutaféð sem upp á vantar eða 25 milljónir dala, jafnvirði 2,8 milljarða króna.

Stundum með, stundum ekki

Sjóðirnir sem um ræðir eru Lífeyrissjóður verslunarmanna (LV), Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Gildi-lífeyrissjóður. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, staðfestir í samtali við DV að sjóðurinn verði þátttakandi í verkefninu í gegnum SÍA III en að tilboði um að hann myndi fjárfesta í eigin nafni hafi verið hafnað.

„Nei, ég vil ekki tjá mig sérstaklega um ástæðu þess. Við erum að horfa á alls konar fjárfestingarkosti og stundum tökum við þátt og stundum ekki. Við erum ekki með í verkefninu en ég vil svo sem ekki fara nákvæmlega ofan í einstök mál,“ segir Árni Guðmundsson.

Samkvæmt upplýsingum DV mun heildarfjárfesting SÍA III í hótelinu nema um 15 milljónum dala. Framtakssjóðurinn er í stýringu sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis sem er í eigu Arion banka. Starfsmenn Stefnis buðu lífeyrissjóðunum að taka þátt í verkefninu í umboði forsvarsmanna hótelsins. Líkt og kom fram í frétt DV þann 9. ágúst síðastliðinn var upphaflega horft til þess að SÍA III og innlendir einkafjárfestar ættu um 75% af hlutafé hótelsins. Til þess þyrftu þeir að setja 30 milljónir dala í verkefnið. Hluthafahópur SÍA III samanstendur af lífeyrissjóðum, tryggingafélögum og ýmsum umsvifamiklum einkafjárfestum.

Byggingarreitur hótelsins, sem á fullklárað að kosta 130 milljónir dala, er í eigu Carpenter & Company sem íslenski fjárfestirinn Eggert Dagbjartsson er hluthafi í. Samkvæmt frétt DV í ágúst ætluðu eigendur fasteignafélagsins að leggja fram um tíu milljónir dala eða um 1,1 milljarð króna. Arion banki myndi síðan lána um 90 milljónir dala, um tíu milljarða króna, sem vantar upp á til ljúka fjármögnun hótelsins.

Keyptu lóðirnar

Ljúka átti fjármögnun hótelsins fyrir lok september. Samningar um kaup Carpenter & Company á lóðinni við Hörpu voru undirritaðir í ágúst 2015. Lóðin var áður í eigu Kolufells ehf. en er nú skráð á íslenskt félag Carpenter, Cambridge Plaza Hotel Company ehf. Koluféll hélt eftir öðrum byggingarreit við Hörpu sem átti áður einnig að fara undir hótelið en annar fjárfestahópur sem vildi byggja þar hafði áform um mun stærri byggingu en nú er gert ráð fyrir.

Eggert Dagbjartsson og Hreggviður Jónsson, fjárfestir og stjórnarformaður Festis, keyptu í lok júlí 80% hlutafjár í Kolufelli í gegnum félagið Apartnor ehf. Í tilkynningu Arion banka, sem átti hlutaféð í Kolufelli ásamt Mannviti og T.ark Arkitektum, kom fram að Kolufell hefði hafið framkvæmdir við verslunar- og íbúðarhúsnæði á lóðinni við hlið hótelreitsins. Hreggviður Jónsson sagði í samtali við DV í ágúst að hann væri einnig að skoða að fjárfesta í hótelverkefninu. Sagði hann að Stefnir hefði fengið það verkefni að klára fjármögnun á íslenska hlutanum sem yrði að öllum líkindum um 80% af hlutafé hótelsins.

Fimm stjörnu framkvæmd

Hótelið verður líkt og komið hefur fram fimm stjörnu og rekið undir merkjum Marriott Edition. Gert er ráð fyrir að þar verði 250 herbergi, veitingastaðir, heilsulind, veislu- og fundarsalir, og að hótelið verði opnað árið 2019. DV óskaði eftir upplýsingum frá Carpenter & Company um hvernig fjármögnuninni miðar en fyrirspurninni hafði ekki verið svarað þegar blaðið fór í prentun. Ekki náðist í Hreggvið Jónsson við vinnslu fréttarinnar.

Eggert Dagbjartsson starfar í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum þar sem hann hefur búið síðustu áratugi og komið að ýmsum fjárfestingum. Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter, er hluthafi í Cambridge Plaza Hotel Company í gegnum erlend félög. Morgunblaðið fullyrti í maí síðastliðnum að Bill Gates, stofnandi og fyrrverandi forstjóri Microsoft, hefði ákveðið að fjárfesta í hótelinu en ekkert kom fram um hlutdeild hans í verkefninu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga