fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Framsókn yrði einangruð undir forystu Sigmundar

Erfitt að vinna með fólki sem hefur orðið uppvíst að trúnaðarbrotum – Sjálfstæðismenn hafa áhyggjur af hugsanlegri vinstribeygju

Ritstjórn DV
Föstudaginn 30. september 2016 07:00

Erfitt að vinna með fólki sem hefur orðið uppvíst að trúnaðarbrotum - Sjálfstæðismenn hafa áhyggjur af hugsanlegri vinstribeygju

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson endurkjörinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi flokksins nú um helgina mun það einangra flokkinn í íslenskum stjórnmálum. Enginn þeirra stjórnmálaflokka sem nú sitja á þingi eða eru líklegir til að fá kjörna þingmenn geta hugsað sér að vinna með Framsóknarflokknum undir forystu Sigmundar. Er það bæði vegna tengingar Sigmundar við aflandsfélagið Wintris á Bresku Jómfrúaeyjum sem uppljóstrað var um í Panama-skjölunum en einnig, og kannski ekki síður, vegna persónu Sigmundar sjálfs og hans framgöngu.

DV hafði samband við fjölda þingmanna úr öllum flokkum sem eiga kjörna þingmenn, eða hafa mælst með fylgi sem dugar til að koma mönnum á þing, og innti þá eftir því hvort það skipti máli hvort Sigmundur Davíð eða Sigurður Ingi Jóhannsson yrði kjörinn formaður Framsóknarflokksins nú um helgina þegar kæmi að hugsanlegum stjórnarmyndunarviðræðum að afloknum kosningum. Fæstir þingmannanna vildu láta hafa eftir sér opinberlega hver skoðun þeirra væri en í samræðum við þá var hins vegar alveg ljóst að samstarf við Framsóknarflokkinn undir forystu Sigmundar væri út úr myndinni.

Hefur unnið í báðar áttir

Framsóknarflokkurinn hefur í sögulegu tilliti getað unnið bæði til hægri og vinstri í ríkisstjórnum. Framsóknarflokkurinn starfað í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðisflokknum á árunum 1995 til 2007 og á árunum 1989 til 1991 leiddi Steingrímur Hermannsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, ríkisstjórn ásamt Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi, sem Borgaraflokkurinn tók einnig þátt í seinni tvö árin. Þá varði Framsóknarflokkurinn, undir forystu Sigmundar, minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna falli meðan hún sat árið 2009.

Forsvarsmenn hinna flokkanna útiloka ekki samstarf við Framsóknarflokkinn undir forystu Sigurðar Inga.
Betur liðinn Forsvarsmenn hinna flokkanna útiloka ekki samstarf við Framsóknarflokkinn undir forystu Sigurðar Inga.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ýmislegt hefur breyst síðan það var.

Samstarf væri glapræði

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að hennar flokkur horfi fyrst og fremst á hugsanlegt ríkisstjórnarsamstarf út frá málefnum og hvort hægt sé að ná samstöðu um áherslur. „Mér finnst hins vegar að það þurfi að vera mat stjórnmálaflokkanna sjálfra, að velja sér leiðtoga og einstaklinga sem eru góðir í samstarfi við aðra. Væntanlega mun það ráða einhverju hjá Framsókn nú um helgina, en þeir ráða auðvitað sínum málum sjálfir.

Við förum ekki í ríkisstjórn upp á hvaða býtti sem er. Við semjum um ríkisstjórnarsamstarf til að ná fram samstarfi um ákveðin gildi og þá er ég að tala um jöfnuð, umhverfisvernd og lýðræði. Mér þykir Framsókn hafa sveigt mjög til hægri á þessu kjörtímabili. Flokkurinn hefur staðið að og staðið með mjög hægrisinnaðri stefnu undir forystu Sigmundar Davíðs. Það gerir flokkinn að ólíklegri samstarfsaðila en ella.“

Þegar rætt er við áhrifafólk í röðum Vinstri grænna er afstaðan mun afdráttarlausari en þessar yfirlýsingar Katrínar. Þar er fullyrt að samstarf við Framsóknarflokkinn undir forystu Sigmundar komi ekki til greina og eru tilgreindar fyrir því nokkrar ástæður. Meðal annars er ímynd og staða Sigmundar sögð svo sködduð eftir Wintris-málið að það væri glapræði fyrir nokkurn stjórnmálaflokk að leggja lag sitt við hann. Andúð á Sigmundi og reiði kjósenda í hans garð myndi augljóslega hafa áhrif á hugsanlega samstarfsflokka og óráð væri að hætta á slíkt.

Katrín segir að málefnin ráði för þegar komi að stjórnarmyndun.
Formaður VG Katrín segir að málefnin ráði för þegar komi að stjórnarmyndun.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það sé hins vegar ekki bara Panama-málið sem valdi því að samstarf við Framsóknarflokkinn undir forystu Sigmundar sé ekki fýsilegur kostur. Framganga Sigmundar gegn þinginu, bæði minnihlutanum og raunar gagnvart samstarfsflokknum einnig, hafi verið þannig að enginn vilji sé til þess að eiga við hann frekara samstarf. Hann hafi þar verið afar óbilgjarn og ósamstarfsfús.

Skiptir máli hvor vinnur að mati Smára

Smári McCarthy, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi, situr einnig í þriggja manna viðræðunefnd Pírata sem hefur umboð til stjórnarmyndunarviðræðna fyrir hönd Pírata ef til slíks kæmi. Þá var fullyrt í frétt á Eyjunni á dögunum að Smári væri forsætisráðherraefni Pírata.

Smári er nokkuð afdráttarlaus þegar hann er spurður hvort hann telji að það skipti máli hvor þeirra, Sigmundur eða Sigurður, myndi fara með sigur af hólmi. „Já, ég held að það skipti máli. Það er bara hreinlega þannig að það er auðvitað erfiðara að vinna með fólki sem hefur orðið uppvíst að svona trúnaðarbresti gagnvart almenningi,“ segir Smári og vísar til Wintris-málsins. Smári vill þó ekki útiloka samstarf við neinn flokk en bendir á að Framsóknarflokkurinn standi fjarri Pírötum í ýmsum málum, svo sem varðar kerfisbreytingar í íslensku þjóðfélagi. Það eigi hins vegar við um fleiri flokka.

Aðrir Píratar sem DV ræddi við eru mjög harðir á því að samstarf við Framsóknarflokkinn undir forystu Sigmundar Davíðs komi alls ekki til greina. Til þess sé hann „of spilltur“ eins og einn áhrifamaður úr röðum Pírata orðaði það.

„Það er auðvitað erfiðara að vinna með fólki sem hefur orðið uppvíst að svona trúnaðarbresti gagnvart almenningi.“

Óþarft að velta stöðunni fyrir sér

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir að þar á bæ myndu menn ræða hugsanlegt samstarf út frá trúverðugleika og sögu flokka og einstaklinga innan þeirra, auk málefna. „Ég myndi ekki útiloka samstarf við neinn fyrirfram en sé horft á málefnastöðu og persónur eru sumir lengra frá okkur en aðrir.“

Þingmenn Bjartrar framtíðar segja að samstarf við þingið hafi verið afskaplega lítið, ef nokkurt, í forsætisráðherratíð Sigmundar. Það hafi gjörbreyst með því að Sigurður Ingi tók við sem forsætisráðherra. Vissulega hafi fleira komið til, það að almennt hafi þingmenn gert sér far um að vanda sig betur og ná meira samtali eftir hræringarnar í apríl. Persónulegur stíll Sigurðar Inga sé hins vegar allt annar en Sigmundar.

Einn áhrifamaður úr Bjartri framtíð sagði hins vegar að það væri fyllilega ónauðsynlegt að velta þessum kostum fyrir sér. Framsóknarflokkurinn muni koma svo sundurtættur út úr flokksþinginu um helgina, hvort sem Sigmundur hafi sigur eða Sigurður, að flokkurinn verði algjörlega óstjórntækur og tómt mál að tala um mögulega þátttöku flokksins í ríkisstjórn.

Yrði móðgun við íslenskan almenning

Innan Samfylkingarinnar taka menn mjög harða afstöðu gegn Sigmundi. Þar er það samdóma álit fólks að það væri raunar móðgun við íslenskan almenning að lyfta Sigmundi aftur til valda, í hvaða efnum sem það væri, aðeins rúmu hálfu ári eftir að tugþúsundir kröfðust afsagnar hans og ríkisstjórnarinnar og þess að boðað yrði til kosninga vegna upplýsinga um aflandsfélagaeign hans. Hins vegar virðist ekki vera teljanleg andstaða við Sigurð Inga í þessum efnum þó að fæstir þeirra Samfylkingarmanna sem DV ræddi við séu spenntir fyrir því að eiga í samstarfi við Framsóknarflokkinn yfirhöfuð.

Staðan önnur ef Sigurður Ingi vinnur

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, vildi ekki láta annað eftir sér hafa í þessum efnum en að þar á bæ myndu menn láta málefnin ráða, kæmi til þess að flokkurinn tæki þátt í stjórnarmyndunarviðræðum. „Það er öllum augljóst að það er ekki hægt að vinna með Framsóknarflokknum undir forystu Sigmundar Davíðs. Öðru máli gegnir ef Sigurður Ingi hefur sigur,“ sagði áhrifamaður í Viðreisn í samtali við blaðamann.

Sjálfstæðismenn fegnir að vera lausir við Sigmund

Innan Sjálfstæðisflokksins ríkir mikil þreyta í garð samstarfsflokksins og einkum og sér í lagi í garð Sigmundar. Þar er þó bent á að engin sérstök ánægja hafi ríkt í þeirra röðum í vor þegar Sigurður Ingi var kynntur til sögunnar sem kostur Framsóknarmanna í forsætisráðherrastólinn. Mikill kurr hafi verið innan flokksins vegna þeirrar staðreyndar að Sigurður Ingi hafi verið einn þeirra sem fluttu þingsályktunartillögu um að ákæra skyldi Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og draga hann fyrir landsdóm. Sjálfstæðismenn viðurkenna hins vegar að Sigurður Ingi hafi staðið sig býsna vel í embætti, allt annar bragur hafi verið á störfum og samskiptum við þingið til að mynda. Að því leytinu til eru þingmenn raunar guðslifandi fegnir að vera lausir við Sigmund Davíð.

Afar lítill vilji sé því fyrir áframhaldandi samstarfi við Framsóknarflokkinn undir forystu Sigmundar. Ekki sé hins vegar óhugsandi að starfa með flokknum ef annar formaður verði kjörinn. Sjálfstæðismenn eru hins vegar uggandi yfir því að hafi Sigurður Ingi sigur um helgina og Eygló Harðardóttir verði kjörinn varaformaður muni Framsóknarflokkurinn færast verulega mikið til vinstri í hinu pólitíska litrófi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“
Fréttir
Í gær

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða
Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“
Fréttir
Í gær

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips