fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

100 prósent öryrki eftir vinnuslys – Hæstiréttur snýr við 28 milljón króna bótaúrskurði: „Reiðin er mikil“

Auður Ösp
Föstudaginn 30. september 2016 14:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Faðir Sigurðar Jóhanns Stefánssonar varð fyrir alvarlegu vinnuslysi árið 2008 þegar hann starfaði sem verkstjóri hjá Jóhann Rönning hf. Fljótlega varð ljóst að hann yrði aldrei samur andlega né líkamlega og var hann metinn 100 prósent öryrki í kjölfarið. Tryggingafélagið VÍS neitaði að greiða bætur vegna málsins og bar meðal annars fyrir sig að það faðir sigurðar hefði sjálfur borið ábyrgð á öryggi á vinnustaðnum. Hæstiréttur sneri í gær við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmt hafði föður Sigurðar 28,7 milljónir króna í bætur. Ljóst er að því að hann fær engar bætur í sinn hlut, en málaferlin tóku allt í allt átta ár. Málið hefur tekið mikið fjölskylduna en sonur mannsins, Sigurður Jóhann Stefánsson kveðst upplifa mikla reiði fyrir hönd foreldra sinna og segir hann umhugsunarvert þegar aðilar á vinnumarkaði fá ekki líkamstjón bætt sökum þess að þeir eru í ábyrgðarstöðu.

Féll niður um fjóra metra

Er aðdragandi slyssins sá að faðir Sigurðar var ásamt þremur starfsmönnum fyrirtækisins Johan Rönning hf. að bera glerplötur á vörubretti í lagerrými á efri hæð í húsnæði fyrirtækisins Hafði öryggishlið á hæðinni sem að öllu jöfnu var girt fyrir op niður á neðri hæð, verið dregið frá og báru starfsmennirnir plöturnar að opinu, þar sem þeim var staflað á bretti er lyftari hífði síðan niður á neðri hæð. Átti slysið sér staðeftir að síðasta platan hafði verið lögð á brettið, en þá tók faðir Sigurðar skref aftur á bak og féll um fjóra metra niður á jarðhæð hússins.

Meðal annars kemur fram í dómi Héraðsdóms frá því í maí 2015 að skýrslur vitna lýsa mjög vel aðdragandanumm að slysinu; skoðun á vettvangi og ljósmyndir sem lögreglan tók strax eftir slysið sýna aðstæður vel. Fjórir menn báru saman þungar glerplötur og lögðu á bretti frammi á brún loftsins og var það bersýnilega hættulegt:

„Þegar borin er saman eigin sök stefnanda og vanræksla vinnuveitanda hans verður að telja að sök vinnuveitandans sé yfirgnæfandi og því sé ekki heimilt að skerða bætur til stefnanda með sakarskiptingu,“

segir í dómsorði og var VÍS þar af leiðandi gert að greiða föður Sigurðar rúmlega 28 milljónir króna í bætur.Í dómi Hæstaréttar frá því í gær stendur hins vegar eftirfarandi:

„Af gögnum málsins og skoðun á vettvangi verður ekki ráðið að nauðsynlegt hafi verið að hafa framangreint öryggishlið opið þegar glerplötunum var staflað á brettið. Þvert á móti verður að telja að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að hafa það lokað þegar þetta var gert og opna það síðan fyrir lyftara til niðurhífingar. Liggur ekkert fyrir í málinu um að gerð öryggishliðsins hafi verið ábótavant.

Samkvæmt þessu verður orsök slyssins ekki rakin til atvika, sem aðaláfrýjandi ber fébótaábyrgð á, heldur þess að öryggishliðið var ekki fyrir opinu þegar glerplatan var lögð á brettið og gagnáfrýjandi gætti ekki að sér við þær aðstæður. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.“

Reiðin mikil

Í samtali við blaðamann sagði Sigurður fjölskylduna tilbúna til þess að ræða málið opinberlega en gaf leyfi fyrir birtingu facebook færslu sem hann ritaði um málið í gær. Hefur færslan varkið afar sterk viðbrögð en rúmlega 500 manns hafa deilt færslunni er þetta er ritað. Sigurður segir það vera mestu mildi að faðir hans hafi lifað slysið af á sínum tíma, en hann eyddi mörgum vikum á gjörgæslu í kjölfarið. Hann var sem fyrr segir metinn með 100 prósent örorku.

„Fljótlega kom í ljós að VÍS viðurkenndi ekki bóta ábyrgð sína sem tryggingarfélag Jóhanns Rönnings hf og bar því við að faðir minn bæri ábyrgð á slysinu. Í kjölfarið hófst málsrekstur gegn VÍS og í október í fyrra dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur að VÍS bæri að greiða nánast allar bótakröfur vegna málsins, rúmlega 7 og hálfu ári eftir slysið. VÍS áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Íslands og krafðist sýknu.

Nú í dag, 8 og hálfu ári eftir slysið, kvað Hæstiréttur upp dóm sinn og sýknaði VÍS af öllum kröfum og taldi föður minn algerlega ábyrgan fyrir slysinu.

Þessari niðurstöðu kemst Hæstiréttur að eftir að hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson fóru á vettvang í ca 15 mínutur, 8 og hálfu ári eftir slysið og mátu það þannig að hægt hefði verið að bera sig öðruvísi að en þegar slysið átti sér stað. Ég leyfi mér að efast um ágæti slíkrar vettvangsskoðunar. Það tók þá s.s. ekki nema 15 mínútur á staðnum, 8 og hálfu ári seinna, að vita betur en faðir minn sem hefur starfað í iðnaði nánast alla sína ævi.“

„Gaf aldrei afslátt af öryggismálum“

Sigurður segir skömm dómarana vera mikla en þó ekki nærri því eins mikla og skömm tryggingafélagsins.

„VÍS er vísvitandi búið að tefja málið eins mikið og þeir geta og það getur ekki talist eðlilegt að fyrst núna sé að koma niðurstaða í þetta mál. Helstu rök VÍS voru þau að faðir minn væri verkstjóri á vinnustaðnum og bæri því mun meiri ábyrgð en aðrir starfsmenn. Þeir sem þekkja til föður míns vita að hann gaf aldrei afslátt af öryggismálum.

Til að spara sér að greiða tryggingar til manns sem er 100% öryrki þá var VÍS tilbúið í málaferli sem eins og fyrr segir komst ekki niðurstaða í fyrr en 8 og hálfu ári eftir slysið. Þessar bætur sem faðir minn sannarlega hefði átt að fá, hefðu getað létt foreldrum mínum lífið,“ ritar Sigurður og þá hvetur hann fólk til að sniðganga umrætt tryggingafélag.

„Það er líka umhugsunarefni fyrir þá sem eru á vinnumarkaðnum ef svo kemur í ljós að líkamstjón fæst ekki bætt vegna þess að viðkomandi var í ábyrgðarstöðu,“ og endar færsluna á þessum orðum:

„Og já, ég er mjög reiður!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala