fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Fjárfestar gera víðreist og vilja kaupa íslenskt vatn

– Fulltrúar Amel Group hafa rætt við nokkur sveitarfélög – Vilja rannsaka vatn Ísfirðinga – Stofnuðu einkahlutafélag í ágúst

Ritstjórn DV
Föstudaginn 23. september 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ráðgjafi kanadíska fjárfestingarfyrirtækisins Amel Group fundaði í sumar með sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps og bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar vegna áhuga þess á að hefja stórfelldan útflutning á íslensku vatni. Forstjóri Amel Group hafði áður átt í viðræðum við Hafnarfjarðarbæ um kaup á vatni og starfsmaður fyrirtækisins einnig óskað eftir fundi með Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum. Viljayfirlýsing ráðgjafans og Ísafjarðarbæjar bíður nú undirritunar. Ekki er vitað hvaða áform fyrirtækið hefur fyrir vatnið eða hvaða fjárfestar koma að því. Tveir æðstu starfsmenn þess hafa stofnað íslenskt einkahlutafélag undir nafni Amel Group og sest í stjórn þess.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir kanadíska fyrirtækið vilja kaupa vatn sveitarfélagsins og flytja það út í skipsförmum.
Ræða við Amel Group Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir kanadíska fyrirtækið vilja kaupa vatn sveitarfélagsins og flytja það út í skipsförmum.

„Við eigum eftir að fá viðbrögð við okkar breytingum á viljayfirlýsingunni og ef þau verða jákvæð má gera ráð fyrir að hingað komi strax teymi frá Amel Group og fari í fýsileikakönnun. Við munum tryggja það í okkar samningum að um verði að ræða skuldbindingu til raunverulegs útflutnings og samningsrof ef ekkert gerist,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Heimsótti Hafnarfjörð

Forsvarsmenn Amel Group óskuðu í ársbyrjun 2015 eftir fundi með Haraldi L. Haraldssyni, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, vegna áhuga fyrirtækisins á að kaupa vatn úr dreifikerfi bæjarbúa. DV fjallaði um fundinn í júní í fyrra og kom þá fram að Salah Saleh, forstjóri Amel Group, hefði hitt bæjarstjórann og verið boðið í skoðunarferð um Hafnarfjörð og að skoða vatnslindir í Kaldárbotnum. Haraldur sagði í samtali við DV að fundurinn hefði verið skipulagður af Íslandsstofu. Einnig kom fram að fyrirtækið hafði kynnt sér spár um fjölgun ferðamanna hér á landi og lýst áhuga á að byggja hótel í bænum. Í viðtali við DV síðasta þriðjudag staðfesti Haraldur að hann hefði ekkert heyrt í forsvarsmönnum Amel Group síðan í júní í fyrra.

Fyrirtækið er líkt og kom fram í umfjöllun DV skráð í Ontario-fylki í miðausturhluta Kanada og hefur komið að fjárfestingarverkefnum tengdum endurnýjanlegum orkugjöfum, landbúnaði, öryggis- og varnarmálum og fjarskiptum. Saleh og Mohamed El Hadidy, annar stjórnarmaður fyrirtækisins, eru einu starfsmenn þess sem nefndir eru á vefsíðu Amel Group.

Óskaði eftir aðstoð

Ljóst er að tilraunum Amel Group til að hefja vatnsútflutning frá Íslandi lauk ekki með heimsókninni í Hafnarfjörð. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, staðfestir í samtali við DV að starfsmaður fyrirtækisins hafi í byrjun síðasta sumars óskað eftir fundi með honum.

„Í sumar mætti ég manni hér á götu sem kynnti sig frá Amel Group. Var þá búinn að reyna að ná fundum með mér og sagði mér að hann væri að vinna með kanadíska fyrirtækinu. Þetta hefur örugglega verið í maí eða júní,“ segir Elliði.

Johan Gallani, breskur ráðgjafi kanadíska fyrirtækisins, fundaði í júlí síðastliðnum með Indriða Indriðasyni, sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps. Gallani, sem rekur breska ráðgjafarfyrirtækið Gallani Consultants, hafði þá átt í samskiptum við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (ATVEST) og óskað eftir aðstoð vegna leitar hans að sveitarfélögum sem væru tilbúin í viðræður um sölu á vatni.

„Gallani kom hingað og þeir lýstu áhuga á að kaupa vatn í einhverju magni. Síðan þá hef ég ekki heyrt neitt meira af málinu. Eins og staðan er í dag þá er vatnsbólið hjá okkur þannig að það er tekið úr því það sem sveitarfélagið þarf og alveg örugglega er gnægð af vatni þarna. En við erum ekki að fara að skuldsetja sveitarfélagið í leit að vatni. Það er ekki hlutverk okkar en við sláum þetta ekki út af borðinu,“ segir Indriði.

„Þetta var rætt á fundi hér hjá sveitarstjórninni og við vorum tilbúin til að undirrita viljayfirlýsingu sem þeir vildu leggja fram. Það var það síðasta sem ég sendi þessum manni. Staðan var einfaldlega þannig að þeir myndu þá leggjast í rannsóknir á vatninu og að öll framkvæmdin yrði okkur að kostnaðarlausu.“

Elliði Vignisson segist hafa rekist á starfsmann Amel Group úti á götu í Vestmannaeyjum sem hafi óskað eftir fundi með bæjarstjóranum.
Bæjarstjórinn Elliði Vignisson segist hafa rekist á starfsmann Amel Group úti á götu í Vestmannaeyjum sem hafi óskað eftir fundi með bæjarstjóranum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Vilja semja til 25 ára

Skömmu eftir fundinn með Indriða hóf Gallani viðræður við Ísafjarðarbæ. Líkt og kom fram í frétt RÚV á mánudag vill Amel Group flytja þaðan vatn í skipsförmum. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að fyrirtækið megi hefja rannsóknir á vatninu en talið er að bærinn geti afhent rúma 300 lítra af vatni á sekúndu. Viljayfirlýsing Gallani Consultants og Ísafjarðarbæjar, sem DV hefur undir höndum, er fyrsta skrefið að samstarfi að rannsóknum á vatninu. Í henni er ekki gefið upp hversu mikið magn Amel Group vill kaupa eða á hvaða verði. Tekið er fram að verðið verði tengt vatnsvísitölu Standard & Poor‘s (S&P Global Water Index).

Félagið Kaldalind ehf. á einkarétt á útflutningi á vatni Ísfirðinga til septemberloka 2017. Verði niðurstaða fýsileikakönnunarinnar kanadíska fyrirtækinu hagstæð er gert ráð fyrir að samið verði til 25 ára. Samkvæmt yfirlýsingunni hefur Amel Group til loka þessa mánaðar til að ganga frá samkomulagi um að ráðist verði í rannsóknirnar. Gallani Consultants og Amel Group muni greiða allan rannsóknarkostnað.

„Við báðum þá um að skrifa viljayfirlýsingu og létum okkar lögfræðing lesa hana yfir. Hann var með breska lögmenn sér til aðstoðar en sú áhersla sem kom frá okkur er að tryggja að Ísafjarðarbær geti tekið sjálfstæða ákvörðun um hvort honum þyki þetta fýsilegt þegar rannsóknum verður lokið. Svo lögðum við mikla áherslu á sjálfbærni fyrir samfélagið. Það er að segja að þetta valdi því ekki að við séum ekki með aðgang að vatninu sem við þurfum. Þetta hindri með engum hætti eðlilega framþróun okkar samfélags,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

„Við vitum að þetta er stórt kanadískt fyrirtæki en ekki nákvæmlega hvað þeir vilja með vatnið. Það eina sem liggur á borðinu og sést í viljayfirlýsingunni er að þeir vilja tryggja sér rétt á útflutningi.“

Vildu allir selja íslenskt vatn

Otto Spork vildi flytja út vatn frá Rifi á Snæfellsnesi.

Otto Spork vildi flytja út vatn frá Rifi á Snæfellsnesi.

Fréttir af fjárfestum sem vilja flytja út vatn í miklu magni skjóta reglulega upp kollinum. Forsvarsmenn Brúarfoss hf. hafa lengi viljað reisa vatnsverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ og fullyrða að þeir hafi gert sölusamning við góðgerðafélag í Kanada sem vill dreifa vatninu til flóttamannabúða Sameinuðu þjóðanna. Eigendur Icelandic Water Line ehf. hafa kynnt áform um smíði 105 þúsund tonna vatnsverksmiðjuskips. Þeir vilja hefja útflutning á íslensku vatni en verkefnið var meðal annars kynnt á lokuðum fundi fagfjárfesta og nýsköpunarfyrirtækja sem Kauphöllin (Nasdaq á Íslandi) hélt í Hörpu í maí í fyrra.

Árin 2008 og 2009 áttu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði í viðræðum við fulltrúa Glacier World ehf. sem vildu leggja vatnsleiðslu frá Kaldárbotnum og niður að höfn. Félagið var í eigu fjárfesta frá Dúbaí, Kúveit og Sádi-Arabíu. Nokkru áður hafði hollenski athafnamaðurinn Otto Spork, aðaleigandi Iceland Glacier Products, kynnt áform um umfangsmikinn vatnsútflutning frá Rifi á Snæfellsnesi. Um 8.000 fermetra hús var reist undir átöppunarverksmiðju en Spork var síðar dæmdur fyrir verðbréfasvik í Kanada.

Hóflegar væntingar

Um svipað leyti og Johan Gallani hóf viðræður við Ísafjarðarbæ settist forstjórinn Salah Saleh í stjórn íslenska einkahlutafélagsins Amel Group Iceland. Mohamed Elhadidy situr einnig í stjórn þess en félagið var stofnað í júní síðastliðnum af KPMG. Ekki náðist í Gallani eða Saleh við vinnslu fréttarinnar. Shiran Þórisson, fráfarandi framkvæmdastjóri ATVEST, hefur fundað með Johan Gallani og segir að af orðum hans að dæma sé ljóst að Amel Group hafi áhuga á fleiri fjárfestingartækifærum hér á landi.

„Það sem við vitum um fyrirtækið kemur af netinu og samtölum við Gallani. Í þeim kom fram að þeir séu með víðtækt tengslanet og séu áhugasamir um þennan iðnað og fleiri fjárfestingarkosti. Það hefur eitt og annað verið nefnt en við reyndum að einfalda þetta og spyrja hvað skipti mestu máli. Það eru í raun og veru þessar vatnspælingar, og hvort það leiðir til einhvers annars vitum við ekki og erum svo sem ekki að gera okkur neinar væntingar í þessu. Eins og við lítum á þetta þá er þarna hugmynd sem við viljum sjá hvort hægt sé að vinna við og því þjónustum við þennan Gallani eins og hvern annan skjólstæðing. Við gerum okkar hóflegar væntingar um næstu skref. Það er betra að flýta sér hægt í þessum efnum,“ segir Shiran.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi