fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Maðurinn sem fann sprengju í ruslinu er ekki lengur heimilislaus

Lee Parker öðlaðist óvænta frægð á dögunum

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 22. september 2016 10:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vinirnir Lee Parker og Ivan White hlutu óvænta frægð á dögunum þegar þeir fundu bakpoka, fullan af sprengiefnum, í ruslatunnu í New Jersey í Bandaríkjunum á dögunum. Félagarnir höfðu strax samband við lögreglu sem greip til viðeigandi ráðstafana.

Ljóst er að illa hefði getað farið ef sprengjan hefði sprungið. Búið var að koma bakpokanum fyrir í ruslatunnu fyrir utan bar í borginni og segir lögregla að líklega hefðu margir slasast – og líklega einhverjir látist – hefði sprengjan sprungið. Sem betur fer tókst sprengjusérfræðingum að farga sprengjunni á öruggan hátt.

Parker, sem er 50 ára gamall, hefur verið heimilislaus um nokkurt skeið, en eftir að það fréttist að hann hefði fundið sprengjuna – og um leið komið í veg fyrir mikið mannfall – var stofnuð styrktarsíða fyrir hann á vefnum GoFundME. Ákveðið var að safna peningum fyrir Parker og White, en White þessi er fyrrverandi hermaður og lífeyrisþegi.

Í frétt USA Today segir að nú þegar hafi 20 þúsund Bandaríkjadalir safnast, 2,3 milljónir króna, og fer upphæðin hækkandi með hverri klukkustundinni.

Parker var á leið í atvinnuviðtal á mánudag þegar hann fann bakpokann. Pokinn virtist vera nýlegur og taldi hann að hann myndi fara honum vel þegar í atvinnuviðtalið væri komið. Þegar hann kíkti ofan í hann sá hann að ekki var allt með felldu.

Elizabeth-samtökin í New Jersey, sem meðal annars aðstoða heimilislausa, hafa verið í sambandi við Parker síðan hann komst í fréttirnar. Honum hefur nú verið komið í húsnæði á vegum samtakanna og er hann því kominn með þak yfir höfuðið. Þá hafa velunnarar gefið honum ný föt. Og það er aldrei að vita nema hann geti keypt sér íbúð, eða jafnvel farið á leigumarkaðinn, með þeim peningum sem safnast á GoFundMe.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt