fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

„Þetta eru menn sem þú vilt ekki skulda peninga“

Fyrrverandi Pepsi-deildarleikmaður er í forsvari fyrir ólöglega veðmálastarfsemi

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 20. september 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér finnst skemmtilegra að veðja á leiki hjá þeim því þá veit ég hverjir það eru sem þurfa að punga út peningum til mín. Það veitir mér meiri ánægju en að fá greitt frá einhverju risavöxnu erlendu fyrirtæki,“ segir heimildarmaður DV sem undanfarna mánuði hefur stundað veðmál á fótboltaleiki í gegnum svokallaðan Oddvitaklúbb. Hann viðurkennir að í heildina sé hann í tapi en telur að senn muni hagur hans vænkast.

Klúbburinn er fjármagnaður af aðilum með tengsl við undirheima Reykjavíkur en samkvæmt heimildum DV er fyrrverandi knattspyrnumaður, sem á yfir 100 leiki í efstu deild að baki, í forsvari fyrir klúbbinn. Þegar DV hafði samband við knattspyrnumanninn fyrrverandi sagðist hann ekkert kannast við málið. DV hefur þó rætt við nokkra menn sem stundað hafa veðmál hjá Oddvitaklúbbnum og átt samskipti við umræddan mann.

Lán upp að 100 þúsund krónum

Oddvitaklúbburinn stundar neðanjarðarveðmálastarfsemi sem gengur út á að íslenskir viðskiptavinir geti veðjað á allt milli himins og jarðar; íþróttakappleiki, menningarviðburði eða jafnvel stjórnmál. Allt það sama og er í boði hjá sænska veðmálarisanum Betson.

Á vef Betson fara viðskiptavinir til að skoða hvað sé í boði hverju sinni. Því næst er lögð inn pöntun í gegnum Viper-símaforritið á netinu. „Ég tek skjáskot af þeim leik sem ég vil veðja á og sendi þeim myndina auk upphæðarinnar sem ég vil leggja undir. Þegar ég fæ staðfestingu frá klúbbnum þá er veðmálið gilt,“ segir maðurinn um hvernig þetta fer fram.

Að hans sögn er lágmarksveðmál 10 þúsund krónur á hvern leik og möguleiki er að fá lán frá klúbbnum. „Þeir lána að hámarki 100 þúsund krónur. Hins vegar er dýrt að skulda því ef maður veðjar fyrir lánsfé þá er 10 prósenta álag á veðmálið. Ef viðkomandi á inneign hjá þeim þá er enginn slíkur kostnaður,“ segir heimildarmaðurinn.

Fjórir milljarðar í erlenda spilun á ári

Pétur Hrafn Sigurðsson

Pétur Hrafn Sigurðsson

Eftir miklu er að slægjast á íslenskum veðmálamarkaði. Áætlanir gera ráð fyrir að um fjórir milljarðar renni úr landi á hverju ári í erlenda spilun. „Þá er pókerinn reiknaður inn í þá tölu. Ætli veðmál á íþróttakappleiki séu ekki um helmingurinn af þessum fjórum milljörðum,“ segir Pétur Hrafn Sigurðsson, deildarstjóri getrauna hjá Íslenskri getspá.

Að sögn Péturs er velta Íslenskrar getspár aðeins brot af þessari tölu. „Við erum aðeins með íþróttakappleiki en ekki úrslit Eurovision og jafnvel kosningar. Þá einbeitum við okkur að leikjum í meistaraflokki en ekki yngri flokkunum eins og tíðkast á erlendum síðum,“ segir Pétur Hrafn.

Að hans sögn hefur mikill vöxtur verið á þessum markaði undanfarin ár. „Það helgast einna helst af tækniframförum sem veðmálafyrirtækin hafa verið mjög dugleg við að nýta sér. Núna er hægt að tippa á leiki um allan heim í beinni útsendingu á netinu,“ segir Pétur Hrafn. Sem dæmi um umfangið nefnir hann að hægt sé að skjóta á að um einum og hálfum milljarði sé veðjað á hvern leik í Pepsi-deildinni að meðaltali.

„Það eru ekki margar sumardeildir í gangi í heiminum og þess vegna er veltan svo mikil. Ef Pepsi-deildin væri spiluð að vetri til í samkeppni við sterkustu deildir heims þá væri veltan ekki jafn mikil. Sérstaklega eru mánudagsleikirnir vinsælir því aðrar sumardeildir eru spilaðar um helgar og því er ekki mikið í boði annað en íslenska deildin á þessum dögum,“ segir Pétur Hrafn.

„Þetta eru menn sem þú vilt ekki skulda peninga“

Viðmælandi DV er skuldlaus við klúbbinn í dag og á einhverja tugþúsunda inneign sem hann stefnir á að hækka. „Þegar ég er kominn í skuld þá borga ég yfirleitt eins fljótt og auðið er. Ég veit ekki til þess að gripið hafi verið til harðra innheimtuaðgerða en get alveg ímyndað mér það. Þetta eru menn sem þú vilt ekki skulda peninga,“ segir viðmælandinn.

Hann segir að í örfá skipti hafi hann þurft að fá peninga greidda út og þá hafi það gengið hratt og örugglega fyrir sig. „Það var bara borgað samdægurs í reiðufé. Ég mælti mér mót við einn sem tengist klúbbnum og hann borgaði mér,“ segir maðurinn sem gerir sér ekki grein fyrir umsvifum klúbbsins en telur þó að þau séu talsverð. „Flestir í kringum mig vita af þessari starfsemi og ég veit um allmarga sem veðja hjá þeim af og til. Þetta er að mörgu leyti þægilegt og stuðlarnir eru mun betri en þeir sem eru í boði hjá Lengjunni,“ segir viðmælandinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu