fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

ASÍ segir búvörusamninginn vonbrigði fyrir neytendur

Loforð um þjóðarsamtal um landbúnað er í skötulíki“

Kristín Clausen
Laugardaginn 17. september 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Búvörusamningar voru samþykktir á Alþingi á dögunum af 30% þingmanna. Niðurstaðan eru mikil vonbrigði fyrir neytendur og mun festa í sessi óbreytt kerfi til næstu 10 ára. Ljóst er að loforð sem formaður atvinnuveganefndar gaf um þjóðarsamtal um landbúnað er í skötulíki.“

Í tilkynningu frá Alþýðusambandinu segir að sambandið hafi gagnrýnt málið um nokkurt skeið og ekki að ósekju. Hér sé um að ræða stórt hagsmunamál neytenda og starfsfólks í landbúnaði sem enga aðkomu hefur haft að stefnumótun í greininni.

Ríkur vilji til að styðja við landbúnað

Með búvörusamningum er landbúnaði tryggður beinn stuðningur upp á 13-14 milljarða á ári ásamt óbeinum stuðningi í formi tollverndar sem samsvarar 9-10 milljörðum á ári. Einnig er eðlilegt að fjalla um búvörusamninga í samhengi við tollasamning Íslands við ESB en málin hafa áhrif hvort á annað.

Í frétt ASÍ segir að ljóst sé að ríkur vilji er í samfélaginu til að styðja við landbúnað, m.a. vegna byggðarsjónarmiða og fæðuöryggis. Hins vegar er ágreiningur um hvaða leið beri að fara til að ná markmiðum um samkeppnishæfan og nútímalegan landbúnað. Ljóst er að ef meginmarkmið búvörusamninga væru byggðatengd, hefði núverandi landbúnaðarkerfi reynst afar illa.

Þannig hefur til að mynda veruleg samþjöppun átt sér stað í landbúnaði undanfarna áratugi þar sem mjólkurframleiðendur eru í dag meira en helmingi færri en árið 1991 og mjólkurframleiðsla hefur nú að mestu þjappast á þrjú svæði, Suðurland, Eyjafjörð og Skagafjörð.

Þessi þróun er þó ekki óvænt þar sem meginmarkmið búvörusamninga hafa ekki verið byggðatengd frá árinu 2004. Stefnan hefur verið að auka samkeppnishæfni og lækka vöruverð til neytenda og stuðla þar með að því að innlend framleiðsla geti keppt við erlendar vörur bæði hér á landi og á erlendum mörkuðum. Það hefur að mörgu leyti gengið eftir, því færri framleiðendur framleiða nú meira magn af mjólk en nokkru sinni fyrr og framleiðnivöxtur hefur verið mikill.

„Neytendur, launafólk og bændur njóta hins vegar að takmörkuðu leyti góðs af framleiðnivexti í landbúnaði. Ástæður þessa eru margvíslegar. Samkeppni ríkir ekki á innanlandsmarkaði og há tollvernd gerir það að verkum að erlend samkeppni er ekki til staðar til að hvetja til hagræðingar í framleiðslu, aukinnar vöruþróunar og lægra vöruverðs.“

Þess vegna hefur það verið skoðun ASÍ að semja þurfi um gagnkvæman markaðsaðgang á erlenda markaði. Slíkt fæli í sér mikil tækifæri fyrir íslenska framleiðendur ásamt því að búa til verulegan ábata fyrir íslenska neytendur.
Skref voru stigin í rétta átt þegar tollasamningurinn við ESB var gerður á síðasta ári.

Með tollasamningnum verða til tækifæri til aukins útflutnings innlendrar framleiðslu þar sem tollfrjáls kvóti fékkst fyrir svínakjöt, alifuglakjöt, unnið lambakjöt og ost ásamt því að tollfrjáls kvóti fyrir skyr nærri tífaldast ásamt verulegri aukningu lambakjötskvóta á mörkuðum Evrópusambandsins.

ASÍ segir niðurstöðu umræðna um búvörusamninga undanfarnar vikur vera mikil vonbrigði. Búvörusamningar eru festir í sessi til 10 ára og þrátt fyrir að tollasamningur við ESB sé samþykktur hvetur atvinnuveganefnd Alþingis sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að breyta úthlutun tollkvóta með þeim hætti að verulega dregur úr ávinningi neytenda af nýgerðum tollasamningi við Evrópusambandið um gagnkvæma opnun markaða með landbúnaðarvörur.
Formaður atvinnuveganefndar Alþingis kallaði við meðferð málsins eftir þjóðarsamtali um landbúnað með aðkomu verkalýðshreyfingarinnar og fleiri hagsmunaaðila.

Skýr endurskoðunarákvæði

Formaður atvinnuveganefndar hét því að skýr endurskoðunarákvæði yrðu sett í búvörusamninga þannig að í reynd væri Alþingi einungis að samþykkja fyrstu þrjú ár samningsins.

Árin þrjú yrðu svo notuð til þjóðarsamtals, þar sem hagsmunaaðilar ynnu í sameiningu að stefnumótun í landbúnaði. Ákvæðið sem að lokum rataði í búvörulög varðandi þetta er:

„Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019. Skulu bændur eiga þess kost að kjósa um nýjan búvörusamning eða viðbætur við fyrri samninga.“.

Ákvæðið er afar skýrt og enginn launung á að búvörusamningar gilda til 10 ára og bændur hafa fullt neitunarvald til að hafna þeim breytingum sem samráðshópurinn leggur til. Þetta er langt frá því að vera það þjóðarsamtal sem formaður atvinnuvega lofaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð
Fréttir
Í gær

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“