fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Dularfull merki frá fjarlægu stjörnumerki: Geimverur eða eitthvað allt annað?

Vísindamenn klóra sér í kollinum vegna útvarpsbylgja frá stjörnumerkinu Herkúles

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 30. ágúst 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dularfullar útvarpsbylgjur frá stjörnumerkinu Herkúles hafa vakið upp spurningar um líf á öðrum hnöttum. Á undanförnum mánuðum hafa vísindamenn orðið varir við slíkar bylgjur sem taldar eru eiga rætur sínar að rekja til stjörnunnar HD 164595 í stjörnumerkinu Herkúles.

Óralangt í burtu

Þessi tiltekna stjarna er í um 95 ljósára fjarlægð frá jörðu, en til glöggvunar um fjarlægðina má geta þess að eitt ljósár segir til um vegalengdina sem ljós ferðast á einu ári í tómarúmi, eins og fram kemur á Vísindavefnum. Til að ná þangað þyrfti því að ferðast í 95 ár á ljóshraða í lofttæmi – sem er 299.792.458 metrar á sekúndu.

Vísindamenn hafa látið að því liggja að útvarpsbylgjurnar eigi sér að líkindum eðlilegar skýringar. Hugsanlega sé um náttúrufyrirbrigði að ræða sem kallast örlinsuhrif (e. Microlensing). Þrátt fyrir það hafa vísindamenn við SETI-verkefnið verið fengnir til að skoða merkið nánar og þá í þeim tilgangi að leggja mat á hvort merkin komi frá háþróaðri siðmenningu, óralangt í burtu.

SETI-stofnunin skoðar merkið

SETI-stofnunin (SETI stendur fyrir Search for Extraterrestrial Intelligence) þjónar meðal annars rannsóknarverkefnum sem snerta líf í alheiminum og er markmið stofnunarinnar að kanna og útskýra uppruna, eðli, tíðni og útbreiðslu lífs í alheiminum eins og stendur í svari Sævars Helga Bragasonar á Vísindavefnum.

Til að kanna þetta betur mun SETI-stofnunin fylgjast með þessari tilteknu stjörnu, HD 164595, með aðstoð Allen-sjónaukans í Kaliforníu. Merkið uppgötvaðist fyrst þann 15. maí á síðasta ári af rússneskum vísindamönnum.

Svipar til sólarinnar

Ástæðan fyrir því að vísindamenn eru spenntir fyrir þessari tilteknu stjörnu er sú að henni þykir svipa mjög til sólarinnar í okkar sólkerfi. Það þýðir að reikistjörnur gætu verið á sporbaug um stjörnuna, en það hefur þó ekki verið rannsakað til hlítar. Vitað er um eina stjörnu á sporbaug um HD 164595, en hún minnir um margt á reikistjörnuna Neptúnús í okkar sólkerfi.

„Það er enginn sem heldur því fram að þetta sé til komið vegna siðmenningar utan jarðar, en þetta er svo sannarlega eitthvað sem þarf að skoða betur,“ segir Paul Gilster, sem heldur úti vefnum Centauri Dreams. Þar leiðir hann lesendur sína og áhugamenn um stjörnufræði í allan sannleikann um rannsóknir og starf vísindamanna sem hafa því hlutverki að gegna að skoða geiminn.

Efni í vísindaskáldsögu

Gilster segir að styrkleiki merkisins veki nokkra athygli og bendir hann á að ef merkið komi frá stefnusnauðum útvarpsvita (e. Isotropic beacon) myndi það þýða að siðmenning, sem komin er á fyrsta stig Kardashev-skalans, stæði á bak við merkið. Kardeshev-skalinn segir til um það þróunarstig sem hugsanleg menningarsamfélög utan jarðar eru komin á. Fyrsta stig skalans á við um samfélög sem búa yfir nægjanlegri tækniþekkingu til að nýta alla orku heillar plánetu. Næstu stig á eftir segja til um getu hugsanlegra samfélaga til að nýa orku sólkerfa og jafnvel heilu vetrarbrautanna.

Hér er aðeins um hreinar vangaveltur að ræða, eins og Gilster bendir á, og sjálfur er hann á því að merkið eigi sér eðlilegar ástæður, ef svo má segja. Telur hann litlar líkur á því að á þessum tiltekna stað, óralangt í burtu leynist svo háþróað menningarsamfélag. Það er þó aldrei að vita.

Merkið og meira til verður til umfjöllunar á alþjóðlegri ráðstefnu geimvísindamanna sem haldin verður í Mexíkó í september.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala