fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Sorgmæddur vegna andláts ungs manns: Gagnrýna lífstíl Gísla Pálma og annarra rappara

Tónlistarmenn eiga að vera fyrirmyndir og tónlistin bera góðan boðskap

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 29. ágúst 2016 12:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er depurð sem fylgir því að hugsa til þess að ungt fólk í blóma lífsins, sem á alla framtíðina fyrir sér, fari þessa leið,“ sagði Þorvarður Helgason við Fréttatímann. Þovarður er faðir hinnar 21 árs gömlu Evu Maríu, sem lést í teiti hjá tónlistarmanninum Gísla Pálma árið 2013. Banameinið var of stór skammtur af MDMA.

Í blaðinu segir Þorvarður að nýlegar fregnir af skyndilegu dauðsfalli ungs manns sem talinn er hafa látist úr lyfjaeitrun hafi vakið hjá sér sorg fremur en reiði. Hann ásamt fleirum hefur gagnrýnt lífsstíl Gísla Pálma og annarra rappara. Umræðan er kunnugleg, tónlistarmenn hér heima og erlendis hafa áður fengið á baukinn þegar vofveiflegir atburðir hafa átt sér stað en handboltakempan Árni Steinn og Stefnir Snorrason bráðatæknir gagnrýna lífstíl sumra tónlistarmanna.

Rússnesk rúlletta

Fram kom í frétt DV á dögunum að ungur maður hefði fallið frá með sviplegum hætti á menningarnótt, og að grunur léki á að hann hafi neytt fentanýls sem er rótsterkt lyfseðilsskylt verkjalyf í plástraformi. Þá var annar ungur maður hætt kominn og fór í hjartastopp en var bjargað. Í annarri frétt kom fram að mennirnir hefðu verið saman á veitingastaðnum Prikinu og væru báður tengdir nokkuð þekktum tónlistarhópi.

Í kjölfarið hafa miklar umræður orðið um neyslu fólks á morfínskyldum lyfjum sem og fentanýl, sem er rótsterkt lyfseðilsskylt verkjalyf sem selt er í plástraformi, en plástrunum er breytt í duft og það reykt með öðrum efnum á borð við marijúana og hass. Pistill sem Stefnir Snorrason bráðatæknir skrifaði vakti mikla athygli og vildi hann meina að DV væri að gera Gísla Pálma að hetju með því að greina frá því að hann hefði hnoðað lífi í vin sinn. Stefnir sagði:

„Þegar menn leika rússneska rúllettu eru yfirgnæfandi líkur á harmleik. Dauðdagi ungs fólks er ömurlegur harmleikur. En hann er samt skuggi sem eltir þá er neyta hættulegra efna og ætti engum að dyljast.“

Þá gagnrýndi hann rappara og sagði:

„Dauðinn virðist fylgja fast að hælum tónlistarmanna sem syngja dulkóðaða lofsöngva um ólögleg efni og neikvæðan, dimman lífsstíl þó hann virðist glysgjarn í fyrstu. Menn eru almennt ekki sammála þeim lífsstíl sem þeir lifa en samt fá þeir að koma fram á ýmsum stöðum og jafnvel unglingaskemmtunum. Svo erum við alltaf jafn slegin þegar harmleikur hendir hjá þeim sem þennan lífsstíl stunda. Þetta er bara orðið það alvarlegt mál að það varðar almannaheill finnst mér og þögn þeirra sem eru ábyrgir fyrir tónlistaruppákomum og útgáfum á tónlist sem þessari er ærandi. Ég er í hópi þeirra sem koma fyrstir að slíkum harmleikjum….. Þetta er svo ömurlegt…. Bara ömurlegt.“

Handboltakappi vill að rapparar séu jákvæðari

Handboltakempan Árni Steinn Steinþórsson tekur í svipaðan streng í pistli á Facebook sem hefur einnig vakið athygli.

„Mér finnst að það þurfi að setja meiri kröfur á tónlistarmenn sem koma fram opinberlega. Kröfur á að þeir séu fyrirmyndir. Að tónlistin þeirra beri góðan boðskap og líferni þeirra sé öðrum fyrirmynd, líkt og ætlast er til af íþróttamönnum. Í staðinn eru einstaklingar sem þekktir eru fyrir hættulegt líferni settir á háan stall og fá mikla athygli í fjölmiðlum. Nú síðast hefur frægur einstaklingur fengið mikla athygli með fyrirsögnum í fjölmiðlum um hetjudáð þegar hann bjargaði lífi vinar sins sem hafði tekið of stóran skammt eiturlyfja. Vissulega er það frábært ef sá einstaklingur nær bata en þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi tónlistarmaður reynir að hnoða lífi í manneskju vegna of stórs skammts eiturlyfja. Því miður fer það ekki alltaf jafn vel.“

Segir Árni það ömurlegt að lesa reglulega í fjölmiðlum um fráfall ungs fólks sem hefur dáið vegna of stórra skammta af eiturlyfjum.

„Einstaklingar sem fá ekki tækifæri til að njóta þeirra tækifæra sem lífið hefur upp á að bjóða. Einstaklingar sem fá ekki tækifæri á að upplifa drauma sína og elta markmið sín og tilgang í lífinu. Einstaklingar sem fá ekki einu sinni tækifæri til að kveðja fjölskyldur sínar og vini og segja hvað þeim þykji vænt um sína nánustu.“

Sparkað úr félaginu

Dauðinn virðist fylgja fast að hælum tónlistarmanna sem syngja dulkóðaða lofsöngva um ólögleg efni

Segir Árni Steinn að mörg dæmi séu um að íþróttamenn sem séu slæmar fyrirmyndir fái ekki samninga hjá íþróttafélögum eða sé vikið frá félögum.

„Það segir sig sjálft að ef ungur iðkandi sér fyrirmynd sína á djamminu stuttu fyrir leik þá spyr hann sjálfan sig að því hvort þetta sé eðlilegt í þessum heimi eða jafnvel nauðsynlegt til að ná árangri.“

Bætir Árni við að flestir tónlistarmenn séu góðar fyrirmyndir sem flytji góðan boðskap.

„Þeir eru fyrirmyndir fyrir unga einstaklinga sem læra lögin þeirra utan að, vilja „stæla” útlit þeirra og framkomu. Hinsvegar er það frekar „viðurkennt” innan samfélagsins að lífstíll tónlistarmanna sé í sumum tilfellum slæmur. Sérstaklega innan ákveðins tónlistargeira. Jafnvel er því stundum fleygt fram að mörg af bestu lögum þessarra tónlistamanna séu samin undir áhrifum efna og séu þess vegna svona góð. Ég persónulega er ekki hrifinn af þeirri tónlist sem þessir tónlistarmenn semja og flytja,“ segir Árni og bætti við: „Það er á ábyrgð þeirra sem spila tónlist annarra að boðskapur laganna sé góður. Það er á ábyrgð fjölmiðla hvaða einstaklingar fá athygli og hvort það sé gott fyrir samfélagið að sá einstaklingur fái athygli.“

Gagnrýna lífstíl Gísla Pálma

Mynd: Ske

DV sagði frá því þann 25. ágúst síðastliðinn að bjargvættur annars mannsins hefði verið tónlistarmaðurinn Gísli Pálmi og hefði hann hnoðað manninn um stund þar til sjúkraflutningamenn komu á vettvang, en þá tókst sjúkraflutningsmönnum að koma hjarta mannsins aftur af stað með hjálp hjartastuðtækis. Báðir mennirnir sem um ræðir voru meðlimir í Glacier Mafia sem er hópur í kringum Gísla Pálma sem stígur stundum á svið með honum og er oft áberandi í myndböndum tónlistarmannsins.

Gísli Pálmi hefur ekki farið leynt með fíkniefnaneyslu sína og sagt að hann syngi bara um sitt líf og reynslu. Hann sé ekki mikið að rappa um stelpur og ástina. Gísli Pálmi sagði í samtali við Vísi:

Þeir eru fyrirmyndir fyrir unga einstaklinga sem læra lögin þeirra utan að, vilja „stæla” útlit þeirra og framkomu

„Það er bara ekki ég, ég er ekkert í því og er ekki beint rómantíska týpan.“

DV greindi einnig frá því á sínum tíma að Þorvarður hefði um hríð barist fyrir því að fá upplýsingar um andlát Evu Maríu- og hvað hafi átt sér stað í samkvæminu. Í viðtali við Vísi bað hann Gísla Pálma um upplýsingar hvað hafi gerst en Þorvaldur taldi að það hefði verið Gísli Pálmi sem hringdi í Neyðarlínuna eftir að Eva María fannst meðvitundarlaus í partýinu. Gísli Pálmi sagði í samtali við Vísi að málið væri viðkvæmt og valdi hann að tjá sig ekki um það í fjölmiðlum.

Erfitt fyrir foreldra

Það er nefninlega ekki bara einn sem deyr

Þá segir Stefnir í sínum pistli að erfitt sé að koma á vettvang þar sem fólk hefur fallið frá vegna fíkniefnaneyslu: Ör verði á sálinni ævilangt.

„Það er nefninlega ekki bara einn sem deyr. Það deyja margir hið innra við slíkt fráfall og sá hópur sem eftir situr er laskaður til æviloka og sum sár gróa seint og jafnvel aldrei […] Þessi ör rifna alltaf upp við hvert tilfelli sem við komum að. Það er eitthvað mikið að í samfélaginu þegar menn eru settir á stall og boðskapur þeirra sem er eins og eitraður kóngulóarvefur fyrir ungt fólk er talinn í lagi. Úr vefnum sleppa fæstir sem í honum lenda,“ segir Stefnir og bætir við: „Ég vorkenni þessum peyjum mjög mikið og fjölskyldum þeirra ekki síður. Þeir eru ekki töffarar. Þeir eru veikir, bara mjög veikir einstaklingar og þurfa á því að halda ungt fólk segi „nei takk“ við lífstíl, lögum og stefnunni sem þeir eru á. Orðið NEI getur nefninlega orðið til lífs.“

Árni Steinn tjáir sig á svipuðum nótum og segir:

„Fjölskyldur og vinir verða fyrir missi sem aldrei er bættur, sár sem aldrei grær og eina sem hægt er að gera er að reyna lifa með því og sumir fjölskyldumeðlimir ná því aldrei. Þeir sem missa ástvin án fyrirvara eru minntir á þann ömurlega harmleik í hvert sinn sem fréttir berast af einstaklingum sem falla frá vegna of stórs skammts „partýlyfja“.“

Í samtali við Fréttatímann tekur Þorvarður í svipaðan streng en segist ekki kenna rapparanum umdeilda um andlát dóttur sinnar enda sé Gísli Pálmi ekki fyrsti tónlistarmaðurinn sem tengdur sé við fíkniefnaneyslu.

„Það er hinsvegar sorglegt að horfa á það þegar honum er hampað og hann verður óhjákvæmilega ákveðin fyrirmynd fyrir þessa krakka. Það er fullt af ungmennum innan við tvítugt sem hanga í honum og það getur verið óhugnanlegt,“ segir Þorvarður sem tengir óhjákvæmilega við sorgina sem aðstandendur mannsins sem lést á menningarnótt glíma nú við.

„Þetta er rosalega erfitt fyrir foreldra. Það er erfitt að ganga í gegnum svona lagað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Í gær

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Grunur um manndráp á Akureyri

Grunur um manndráp á Akureyri