fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Konan sem vinnur við að drepa fíkniefnasala

Stríðið gegn fíkniefnum á Filippseyjum hefur kostað mörg mannslíf undanfarna mánuði

Einar Þór Sigurðsson
Sunnudaginn 28. ágúst 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfirvöld á Filippseyjum eiga í hatrömmu stríði við sölumenn fíkniefna í landinu. Síðan hinn umdeildi forseti landsins, Rodrigo Duterte, tók við völdum í lok júní er talið að um tvö þúsund einstaklingar hafi verið myrtir. Hafa ber í huga að innan við tveir mánuðir eru liðnir síðan hann tók við embætti.

Vildi útrýma glæpamönnum

Harðneskjuleg afstaða forsetans gagnvart fíkniefnum þurfti ekki að koma landsmönnum á óvart. Í kosningabaráttu sinni var hann ötull talsmaður þess að útrýma glæpamönnum í landinu. Hann var áður borgarstjóri í Davao þar sem glæpatíðni var eitt sinn há. Eftir að hann tók við embætti borgarstjóra snarlækkaði glæpatíðnin, enda var hann sakaður um að hafa leyft aftökusveitum að drepa fjölmarga glæpamenn í borginni.

Það sama virðist nú vera að gerast á landsvísu eins og tölur um mannfall gefa til kynna. Breska ríkisútvarpið, BBC, fjallaði ítarlega um stöðu mála á Filippseyjum í vikunni og ræddi meðal annars við konu sem hefur það að starfi að drepa fíkniefnasala. Hún kveðst hafa sex mannslíf á samviskunni, en fyrsta manninn myrti hún fyrir tveimur árum.

Skotnir í höfuðið

Konan sem um ræðir er kölluð Maria – sem er ekki hennar rétta nafn – og kveðst hún vera hluti af teymi kvenna sem hefur því hlutverki að gegna að drepa þá sem selja fíkniefni. Konurnar eru sagðar vera á samningi hjá hinu opinbera og fá greitt fyrir vinnu sína líkt og gengur og gerist í venjulegri verktakavinnu. Ástæða þess að konur eru ráðnar, frekar en karlar, er sú að þær eiga auðveldara með að ávinna sér traust grunaðra fíkniefnasala.

Síðan að Duterte tók við völdum og eftir að hann hvatti landsmenn til að taka lögin í eigin hendur hefur hún myrt fimm til viðbótar við þann sem hún myrti fyrir tveimur árum. Allir voru þeir skotnir í höfuðið. Þegar hún er spurð hver gefi henni skipanir um hvern hún eigi að drepa segir hún: „Yfirmaðurinn okkar, lögregluþjónninn.“

Sór þess eyð að útrýma glæpamönnum.
Rodrigo Dutarte Sór þess eyð að útrýma glæpamönnum.

Mynd: EPA

Kynntist starfinu í gegnum eiginmanninn

Konan komst fyrst í kynni við starf launmorðingja í gegnum eiginmann sinn sem hafði svipuðu hlutverki að gegna. Hann vann við að drepa einstaklinga sem ekki höfðu greitt fíkniefnaskuldir sínar. „Það vantaði konu og eiginmaður minn sannfærði mig um að taka starfið að mér.“

„Það vantaði konu og eiginmaður minn sannfærði mig um að taka starfið að mér.“

Maria og eiginmaður hennar eru bæði frá fátæku hverfi í höfuðborginni Manila. Áður en þau gerðust leigumorðingjar voru þau ekki í fastri vinnu og lifðu í fátækt. Maria segist fá sem nemur 50 þúsund krónum fyrir hvert morð – upphæð sem getur haldið fólki upp í nokkurn tíma á Filippseyjum. Í umfjöllun BBC kemur fram að leigumorð séu ekki ný af nálinni á Filippseyjum. Staðreyndin er hins vegar sú að leigumorðingjar hafa aldrei haft jafn mikið að gera og einmitt nú.

Hér sjást fjórir af þeim tæplega tvö þúsund einstaklingum sem látist hafa síðan Dutarte tók við völdum.
Drepnir Hér sjást fjórir af þeim tæplega tvö þúsund einstaklingum sem látist hafa síðan Dutarte tók við völdum.

Mynd: EPA

„Ekki skemma landið mitt, því ég mun drepa ykkur.“

Sprenging í neyslu metamfetamíns

Í kosningabaráttu sinni sagði Dutarte að markmið hans væri að drepa hundrað þúsund glæpamenn á fyrstu sex mánuðum hans í embætti forseta. „Ekki skemma landið mitt, því ég mun drepa ykkur,“ sagði hann. Ástæða þess að Dutarte hefur tekið jafn harða afstöðu gegn fíkniefnum og raun ber vitni er sprenging í neyslu og haldlagningu lögreglu á metamfetamíni, svokölluðu „shabu“. Efnið er ódýrt, auðvelt í framleiðslu og mjög ávanabindandi. Dutarte hefur látið hafa eftir sér að hálfgerður faraldur ríki á Filippseyjum. Sjálfur hefur Dutarte sagt að fíkniefnahringir hafi tengsl við mjög hátt setta embættismenn í landinu. En það er fólkið á götunni sem finnur mest fyrir dauðasveitum Dutarte.

Mynd: EPA

Samkvæmt lögreglu hafa 1.900 manns verið drepnir í stríðinu gegn fíkniefnum frá 30. júní síðastliðnum. Af þeim voru 756 drepnir af lögreglu og höfðu allir, að sögn, streist á móti þegar kom að því að handtaka þá. Þá er búið að handtaka yfir 10 þúsund manns. Langflest dauðsföllin hafa átt sér stað í fátækum hverfum Filippseyja þar sem leigumorðingjar eins og Maria láta til sín taka.

Sumir taka stríðinu fagnandi

Þó að mannréttindasamtök hafi gagnrýnt Dutarte harðlega fyrir stríðið gegn fíkniefnum virðist almenningur á Filippseyjum, að einhverju leyti allavega, taka því fagnandi. Í Tondo, hverfi sem er skammt frá höfninni á Manila segja íbúar að hækkandi tíðni glæpa megi að stóru leyti rekja til metamfetamíns. Hærri tíðni afbrota væri ekki eina vandamálið því heilu fjölskyldurnar splundrist þegar fíknin nær tökum á fólki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu