fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

„Ég heiti Kayla Mueller. Ég þarf hjálp“

Átakanlegt myndband af bandarískum hjálparstarfsmanni sem var rænt af ISIS

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 25. ágúst 2016 20:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég heiti Kayla Mueller. Ég þarf hjálp,“ segir bandaríski hjálparstarfsmaðurinn Kayla Mueller í átakanlegu myndbandi sem ABC-fréttastofan birti í dag. Kayla var handsömuð af liðsmönnum Íslamska ríkisins í hinni stríðshrjáðu borg Aleppo í Sýrlandi í ágúst 2013.

Myndbandið sem um ræðir fékk fjölskylda Kaylu sent nokkrum mánuðum eftir að henni var rænt. Kayla lést í febrúar í fyrra en að sögn liðsmanna ISIS lést hún í loftárás á borgina Raqqa.

Myndbandið var sýnt í fyrsta skipti í þættinum 20/20 á ABC-sjónvarpsstöðinni. Í þættinum er meðal annars rætt við foreldra Kaylu. Hún var 25 ára þegar hún lést og hafði hún ákveðið að helga líf sitt góðgerðastarfi. Hún flutti til Tyrklands síðla árs 2012 þar sem hún aðstoðaði sýrlenska flóttamenn.

Í ágúst 2013 heimsótti hún Aleppo með sýrlenskum kærasta sínum. Þar heimsóttu þau meðal annars og störfuðu á sjúkrahúsi samtakanna Læknar án landamæra. Þegar þau ætluðu að snúa heim til Tyrklands var henni rænt.

ABC birti myndbandið í fréttaskýringaþættinum 20/20. Á því sést Kayla biðja um aðstoð.
Myndbandið birt ABC birti myndbandið í fréttaskýringaþættinum 20/20. Á því sést Kayla biðja um aðstoð.

„Ógnvekjandi að vera hér“

Bandarískir fjölmiðlar greindu skömmu síðar frá því að bandarísk kona væri í haldi ISIS, en að ósk fjölskyldu hennar var ekki greint frá nafni hennar fyrr en hún lést. Myndbandið sem fjallað var um í þætti ABC var sent til vinar Kaylu í Bandaríkjunum og barst það þremur vikum eftir að liðsmenn ISIS rændu henni. Í myndbandinu, sem er um 10 sekúndur að lengd, segir Kayla meðal annars: „Ég hef verið hér lengi og ég er mjög lasin. Það er mjög, mjög ógnvekjandi að vera hér.“

Í viðtali við 20/20 segir Carl Mueller, faðir Kaylu, að tilfinningarnar hafi verið blendnar þegar þau horfðu fyrst á myndbandið. Það var ákveðin staðfesting á því að dóttir hans væri á lífi en það tók verulega á að vita af henni í þessum skelfilegu aðstæðum. „Ég varð stjarfur þegar ég sá þetta,“ segir hann meðal annars.

Kayla var einn fyrsti Vesturlandabúinn sem rænt var af liðsmönnum ISIS-samtakanna. Meðan hún var í haldi birtu samtökin myndbönd af aftökum vestrænna gísla. Mannræningjarnir fóru fram á milljónir Bandaríkjadala í lausnargjald, upphæð sem reyndist fjölskyldunni ómögulegt að greiða.

Ósátt við Lækna án landamæra

Tíu mánuðum eftir að hún var handsömuð fóru samningaviðræður af stað við gíslatökumennina. Það gerðist tveimur mánuðum eftir að samtökin Læknar án landamæra höfðu fengið netfang eins af gíslatökumönnunum. Netfanginu var hins vegar ekki komið strax til fjölskyldu Kaylu, meðal annars á þeim forsendum að Kayla var ekki starfsmaður Lækna án landamæra þegar henni var rænt. Jason Cone, framkvæmdastjóri Bandaríkjadeildar samtakanna, segir við 20/20 að afskipti samtakanna að málinu hefðu komið starfsmönnum þess í mögulega hættu. Foreldrar Kaylu eru mjög ósáttir við þessa ákvörðun samtakanna og gagnrýna afskiptaleysi þeirra harðlega.

Afplánar nú dóm í Texas í Bandaríkjunum. Liðsmenn ISIS vildu fá hana úr fangelsi í skiptum fyrir Kaylu.
Aafia Siddiqui Afplánar nú dóm í Texas í Bandaríkjunum. Liðsmenn ISIS vildu fá hana úr fangelsi í skiptum fyrir Kaylu.

Vildu pakistanskan taugasérfræðing úr fangelsi

Eftir að viðræðurnar hófust fékk fjölskyldan sendar hljóðupptökur sem áttu að staðfesta að hún væri á lífi. Fjölskyldan skiptist á tölvupósti við gíslatökumennina og kröfðust þeir meðal annars að pakistönskum taugasérfræðingi, Dr. Aafia Siddiqui, yrði sleppt úr fangelsi í skiptum fyrir Kaylu. Aafia þessi, er liðsmaður Al-Qaeda, en hún var sakfelld fyrir morðtilraun á bandarískum útsendurum og hermönnum í Afganistan árið 2008. Hún afplánar nú 86 ára fangelsisdóm í Texas. Ef þetta gengi ekki eftir, það er að Aafiu yrði sleppt úr haldi, vildu gíslatökumennirnir fá fimm milljónir evra.

Samningaviðræðurnar skiluðu engu og snemma á síðasta ári fékk fjölskyldan sendar í tölvupósti myndir af líki hennar. Gíslatökumenn ISIS sögðu að hún hefði látist í loftárásum bandarískra yfirvalda, en deilt hefur verið um hvernig dauða hennar bar að. Því hefur einnig verið haldið fram að hún hafi látist í loftárásum jórdanska hersins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu