fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Ozersk – forréttindi eða ógn?

Samira Goetschel gerði heimildamynd um City 40 – Borgin víggirt og íbúarnir neita að fara

Ritstjórn DV
Laugardaginn 30. júlí 2016 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hvað varðar mig, bandaríska konu fædda í Íran, er ógnin sem stafar af mögulegri kjarnorkuárás frá óstöðugu ríki eða hryðjuverkamönnum meira en bara fréttaefni. Hún er raunveruleg,“ segir kvikmyndagerðarkonan Samira Goetschel. Hún hefur gert heimildamynd um Ozersk, í Rússlandi, þar sem Mayak-kjarnorkuverið er. Í Mayak hafa komið upp tvö alvarleg slys, íbúar Ozersk eru umkringdir víggirðingum og flest kjarnorkuvopn Rússa eru geymd í Mayak.

„Ég ákvað að fara til Rússlands, lands sem á rúmlega 8.000 kjarnaodda og stærsta kjarnorku vopnabúr heims, raunar stærra en restin af heiminum samanlagt. Ætlunin var að komast að því hversu erfitt það væri fyrir venjulega manneskju að fá aðgang að svo mikilli kjarnorku og tækni tengdri henni að ég gæti orðið raunveruleg ógn,“ segir Samira. Efnistökin breyttust þó umtalsvert þegar hún var komin þangað og hún segir sögu íbúa Ozersk í heimildamynd sem hún hefur gert sem heitir City 40. Þess má geta að myndin verður aðgengileg á Netflix í haust.

City 40

Samira fór til Moskvu og fræddist um borgirnar sem voru kallaðar Z.A.T.O og voru byggðar eftir seinni heimsstyrjöldina til þess að styðja við kjarnorkuáætlun Sovétríkjanna. Borgirnar voru faldar fyrir óvininum, aldrei merktar á kort og nöfnum þeirra breytt reglulega. Eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins var verkefninu að mestu hætt, borgirnar voru flestar færðar aftur á kortin og kjarnorkuvopnin flutt þaðan. En City 40 er enn til.

Frá því að hún var byggð hefur hún verið girt af og vöktuð af vopnuðum hermönnum. Hún heitir núna Ozersk og er fæðingarstaður kjarnorkuvopnaáætlunar Sovétríkjanna. Fyrsta plútóníumsprengja Sovétríkjanna var búin til þar.

Óheimilt að fara

Ozersk byggist í kringum 1947 og er byggð utan um Mayak-kjarnorkuverið. Í dag búa þar hundrað þúsund íbúar, í Chelybinsk í suðurhluta Úralfjallanna. Á árunum 1947–1954 var íbúum City 40 óheimilt að yfirgefa borgina og þeir fengu ekki að hafa samband við aðila utan borgarmarkanna.

Enn í dag er fylgst vel með ferðum íbúanna. Þeim er óheimilt að bjóða utanaðkomandi í heimsókn, og gildir þá engu hvort um er að ræða aðra Rússa eða útlendinga, nema með sérstöku leyfi. Kvikmyndatökur eru stranglega bannaðar. Samiru tókst þó að koma inn og út, búnaði, myndefni og mannskap til að aðstoða sig við gerð myndarinnar.

Kirkjugarður kjarnorkunnar

Flestir borgarbúar vinna og búa nálægt kjarnorkuverinu. Samira segir að flest kjarnorkuvopn Rússa séu geymd í verinu, en stærsta hlutverk þess er að framleiða vopn og búnað fyrir rússnesk yfirvöld. Þar að auki hafi þar orðið gríðarleg umhverfisslys.

„Í hálfa öld hefur kjarnorkuúrgangi frá Mayak verið hent í umhverfið,“ segir Samira. Hún segir að í fyrstu hafi Mayak skellt úrganginum í ánna Ob, en hafi fært út kvíarnar og setji það í fleiri vatnsuppsprettur. Það hefur ekki fengist staðfest af rússneskum yfirvöldum, en íbúunum virðist vera kunnugt um þetta.
Fyrir vikið hefur Ozersk, eða City 40, orðið ein mengaðasta borg heims. Talað er um hana sem kirkjugarð kjarnorkuúrgangsins, jafnvel jarðarinnar.

Bjargvættir heimsins

„Innan víggirðingarinnar fundum við borg sem minnir á fangelsi og íbúarnir búa í útlegð. Við fræddumst um persónulega harmleiki þeirra, banvæna náttúruna og stórfenglegar náttúruhörmungar sem íbúarnir neyðast til að eiga við,“ segir Samira og segir að þrátt fyrir að ógnin steðji að þeim hafi íbúarnir fallist á að ræða við hana og ósýnilegu borgina sína. Í borginni gengur lífið sinn vanagang. Íbúarnir eignast börn og fjölskyldur, sækja vinnu og stunda áhugamál sín. Þeir synda í jafnvel í menguðum ánum.

Forréttindi?

Íbúarnir sögðu frá foreldrum sínum og foreldrum þeirra sem fluttu til Ozersk samkvæmt skipun frá stjórnvöldum. Þeir áttu að byggja atómsprengju. Þeim var sagt að þau væru síðasta vígið, skjöldurinn og jafnvel bjargvættir heimsins. Utan Ozersk væri óvinurinn. „Þetta er hugmyndafræði sem heldur þeim gangandi, enn í dag,“ segir Samira. Hún segir fólkið vita að það sé eitrað fyrir því, en það haldi áfram að búa í Ozersk.

Þeir sem fluttu til Ozersk á sínum tíma fengu meira en aðrir íbúar Sovétríkjanna. Þeir voru fjarlægðir af íbúaskrám, en á sama tíma fengu þeir meiri fjármuni, betri mat og vinnu en áður var í boði. Þeir bjuggu við forréttindi á vissan máta. Fólkið fékk til að mynda góðar íbúðir, skólarnir voru góðir og heilsugæslan með besta móti. Nóg var um að vera.
Fórnarkostnaðurinn var leyndin, bæði sem sneri að einkalífi þeirra og vinnu. Íbúarnir segja að í Ozersk sé „fínt“ að búa. Þeir fái margt upp í hendurnar, íbúarnir séu vel gefnir og menntaðir. Þeir búi við fjárhagslegt öryggi. Börnunum þeirra standi til boða stórkostleg framtíðartækifæri.

En stjórnvöld gerðu þeim aldrei grein fyrir fórnarkostnaðinum, þó að hann hafi fljótlega orðið ljós. Að langvarandi áhrif kjarnorkumengunar myndu hafa skaðleg áhrif á fólkið sem þar bjó. Nákvæmar tölur um áhrifin liggja ekki fyrir en fólk veiktist og það dó. Fólkið er talið hafa orðið fyrir fimm sinnum meiri kjarnorkumengun en þeir sem bjuggu nærri Chernobyl-kjarnorkuverinu.

Vilja vera þar

Íbúarnir mega ferðast, þeir mega koma aftur og þeir sem ekki vilja búa þarna mega fara og koma aldrei aftur. Fáir gera það, enda telja þeir sig búa við ákveðin forréttindi. Sumir segja að girðingin sé til að halda þeim inni, en aðrir meta það svo að hún sé til að halda umheiminum utan við Ozersk. Hún verndi þá fyrir óvininum. Hún er hluti af þeim, bæði girðingin og mengunin.

„Það sem hófst sem rannsókn á möguleikanum á kjarnorkuógninni sem steðji að frá hryðjuverkamönnum eða einstaklingum varð að kvikmynd um sorglegan, mannlegan og umhverfislegan fórnarkostnað kjarnorkunnar,“ segir Samira.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“