fbpx
Laugardagur 23.febrúar 2019
Fréttir

Íslendingur myrtur í Stokkhólmi

Stunginn fjórtán sinnum með hníf og sleginn í höfuðið með járnröri – Árásarmaðurinn ófundinn

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 22. júlí 2016 07:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrjátíu og fimm ára gamall íslenskur karlmaður var myrtur í vesturhluta Stokkhólms síðastliðinn mánudag. Árásarmaðurinn komst undan og lögreglan hefur ekki enn haft hendur í hári hans. Maðurinn, sem hét Jón Gunnar Kristjánsson og var fæddur árið 1981, var myrtur á eins konar tjaldsvæði sem er í grennd við Akalla-neðanjarðarlestarstöðina í samnefndu úthverfi sænsku höfuðborgarinnar. Um er að ræða tjaldsvæði sem ekki er samþykkt opinberlega. „Þegar ég skoðaði vettvang glæpsins þá höfðust þar við um 10 einstaklingar, aðallega í húsbílum en einnig í tjöldum. Svæðið er mjög skítugt og mikið rusl á svæðinu en þó er það merkilega skipulagt að öðru leyti,“ segir Isabelle Nordström, blaðamaður Aftonbladet, í samtali við DV.

„Hann var ískaldur“

Jón Gunnar var, að sögn sjónarvotta, stunginn fjórtán sinnum með hníf í brjóstkassann auk þess sem morðinginn sló hann nokkrum sinnum með járnröri í höfuðið. Ein hnífstungan hæfði Jón Gunnar í hjartastað. Í framhaldinu yfirgaf morðinginn vettvanginn í rólegheitum. „Hann var ískaldur,“ sagði sjónarvottur um hegðun árásarmannsins við sænska blaðið Aftonbladet.
Þá kemur fram í umfjöllun sænska blaðsins að árásarmaðurinn hafi öskrað á fórnarlamb sitt eitthvað um dulkóðuð tölvugögn.

Ódæðið átti sér stað á ólöglegu tjaldstæði í nágrenni lestarstöðvarinnar.
Akalla-neðanjarðarlestarstöðin Ódæðið átti sér stað á ólöglegu tjaldstæði í nágrenni lestarstöðvarinnar.

Árásin átti sér stað um hádegisbilið og var Jón Gunnar þegar fluttur á nærliggjandi sjúkrahús með þyrlu þar sem reynt var að bjarga lífi hans. Það reyndist heilbrigðisstarfsfólkinu um megn og klukkan þrjú sama dag var Jón Gunnar úrskurðaður látinn.

Síðar sama dag var ungur maður skotinn til bana í hverfinu Kista sem er í grennd við Akalla-hverfið. Fjórir góðkunningjar lögreglunnar voru handteknir vegna þess morðs. Stokkhólmslögreglan telur á þessari stundu ekki að málin tengist.

Kemst ekki lengra niður í tilfinningum

Jón Gunnar var, sem fyrr segir, fæddur árið 1981 á Íslandi, en fluttist til Svíþjóðar tveimur árum síðar ásamt fjölskyldu sinni. Hann lagði stund á læknisfræði um tíma og lætur eftir sig þriggja ára son og fjögurra ára dóttur. Hann átti þrjú systkini, samfeðra systur sem býr hérlendis og alsystur sem býr í Svíþjóð. Eldri samfeðra bróðir hans lést af slysförum árið 1997. Í samtali við DV sagði faðir mannsins, sem enn býr í Svíþjóð, að tíðindin hefðu verið gríðarlegt áfall fyrir fjölskylduna. „Maður getur ekki hugsað sér að komast lengra niður í tilfinningum en við svona fregnir,“ segir faðirinn. Hann gat ekki veitt frekari upplýsingar um málið vegna rannsóknarhagsmuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af