fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Álfar, efnahagsmál og íþróttir

(eða: frásögn um álfalausan pistil)

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 15. júlí 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir hálfum öðrum áratug dvaldi ég eitt ár í Berlín og var með aðgang að eitthvað tólf eða fimmtán þýskumælandi sjónvarpsstöðvum; flestar þýskar en líka frá Austurríki og Sviss. Mörg kvöld eins og gengur og gerist var svona sappað í gegnum rásirnar til að sjá hvað væri í boði, og eins merkilegt og það kann að hljóma þá var næstum óbrigðult að einhver stöðin væri að senda út dagskrá tengda Íslandi. Það voru auðvitað myndir af landslagi, sagt frá Björk og Bláa lóninu, og svo var mjög gjarnan heimildamynd um heimsókn sjónvarpsfólks til hins sérkennilega Íslands og þá var undantekningarlaust rætt við Erlu heitna Stefánsdóttur í Hafnarfirði um álfa og álfatrú Íslendinga, og sömuleiðis við Magnús Skarphéðinsson um drauga og skottur á Íslandi. Bæði voru þau að sjálfsögðu áheyrilegt og áhugavert fólk, en stundum gat maður undrast einhæfnin, og líka þessa sýn Þjóðverja á Ísland sem skringimenni með sína fáránlegu hjátrú.

Hugmyndir Evrópubúa um hin lifandi og stöðugu tengsl Íslendinga við álfa minnti dálítið á það sem ég hef heyrt frá Vesturlandafólki sem hefur farið til starfa í Afríku. Og þessir Vesturlandabúar hafa lagt áherslu á að það verði að sýna kenjum innfæddra virðingu; það trúir kannski á stokka og steina og að andar forfeðranna séu í veggjum húsa. „En“ segja þróaðir Vesturlandabúar, „þetta er fátækt og frumstætt fólk og við megum ekki gera grín að hindurvitnum þess, heldur sýna þeim áhuga.“

„Valhalla“

Stöku sinnum í þannig þáttum var líka talað við einhvern frá Ásatrúarfélaginu, en það var þó sjaldnar. Ekki vegna þess að þeim þætti ekki ásatrú Íslendinga furðuleg eða grótesk, heldur vegna þess að hinn forni átrúnaður er í hugum Þjóðverja of tengdur hugmyndum um nasisma. Merki um það sá ég þegar ég las í einu Berlínarblaðanna að fótboltastórveldi borgarinnar, Hertha Berlín, hefði hreinsað til í sínum stuðningsmannaklúbbum. Þannig klúbbar voru og eru margir, og nokkrir þeirra voru grunaðir um tengsl við nýnasistahreyfingar; einn þeirra hét „Blue-White-Power“ (með vísum í félagsliti Herthu en jafnframt augljósri skírskotun til „White-Power“-samtakanna.) Og forystumenn fótboltaliðsins ákváðu að skera á öll tengsl við B-W-Power, enda félagar þar yfirlýstir rasistar. En annar klúbbur fékk líka að fjúka, til vonar og vara samkvæmt frétt blaðsins, og það þótti mér merkilegt. Því að ástæða brottrekstrarins var eingöngu sú að nafn hans þótti svo skuggalegt og varasamt; sá stuðningsmannaklúbbur hét „Valhalla“. Þjóðverjum myndi samkvæmt því hafa þótt skrýtið að frétta að höfuðstöðvar stærsta stjórnmálaflokks Íslands héti „Valhalla“ og sömuleiðis hótelið í helsta þjóðgarði landsins.

Eða Norræna húsið – Pohjolan talo

Það er auðvitað flugufótur fyrir þeirri hugmynd fólks í okkar nágrannalöndum að við séum einhvers konar leifar fortíðar, liðinna tíma. Eins og sú staðreynd að hér skuli hafa varðveist að mestu hin forna norræna tunga; mál víkingaheimsveldisins. Það er á sinn hátt samsvarandi því ef einhvers staðar á þeim slóðum sem hið forna Rómaveldi náði yfir væri enn töluð latína, og þar sem íbúarnir gætu lesið rit Virgils og Óvíd rétt eins og dagblöðin. Fólki annars staðar á Norðurlöndum þykir á sinn hátt vænt um þetta, og eiga erfitt með þá tilhugsun að Íslendingar breytist í venjulega heimsborgara, og þessari staðreynd eigum við ýmislegt að þakka, sérstaklega í norrænum stuðningi við okkar menningu. Áþreifanlegasta dæmið um það er kannski Norræna húsið frá því á sjöunda áratugnum, hið fyrsta sinnar tegundar. Á þeim tíma höfðu norrænir forystumenn áhyggjur af ameríkaníseringu hinna undarlegu Íslendinga með sína skrýtnu þjóðtrú og fornu tungu; þá var mikið talað um kanasjónvarp og kanaútvarp og að Íslendingar væru að verða bandarískri flatneskju að bráð; sumir munu hafa litið á Norræna húsið sem einhvers konar virki gegn framrás amerískrar tyggjómenningar. Og að þá væru nú jafnvel álfarnir skárri.

Svo átti ég að skrifa grein um sérkenni Íslendinga

Um allt þetta var ég að hugsa þegar kom til tals að ég skrifaði grein um Íslendinga á dögunum fyrir þýska stórblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung, í tengslum við þá miklu athygli sem fótboltalandsliðið okkar hafði vakið með framgöngu sinni á Evrópumótinu. Ástæðan fyrir því að þessi hugrenningatengsl þyrluðust upp er sú að þegar ég var í sambandi við ritstjórnarfulltrúann sem hafði með málið að gera fyrir hönd blaðsins lagði hann áherslu á að skrifin ættu ekki beinlínis að vera um fótbolta heldur hvernig séreinkenni Íslendinga birtust í því hvernig við stunduðum íþróttir. „I smell a rat“ hugsaði ég; nú vilja þeir fá álfa- og huldufólksgrein, svo ég baðst eiginlega undan erindi hans. En sem betur fer reyndist blaðamaðurinn ekki vera að biðja um þannig klisjur þegar við ræddum málin betur. Og hann skildi, þegar hann bað um grein með „karakter Íslendinga“ og ég spurði á móti hvort hann treysti sér til að defínera „karakter Þjóðverja“ að þar í landi myndu slíkar pælingar vera afgreiddar sem þvættingur, og að sama gilti kannski um önnur lönd, þótt þau væru fámennari og afskekktari. Svo að ég sendi grein sem þeir voru ánægðir með og birtu í síðustu sunnudagsútgáfu.

Upphaf greinar fyrir Frankfurter Allgemeine:

Hún byrjaði svona: „Ég hef verið spurður hvort einhver tengsl megi finna milli íslenskra stjórnmála og afreka okkar á íþróttasviðinu, og í sannleika sagt þá sé ég þau ekki; íþróttafólk okkar gerir það sem það gerir á mjög fagmannlegan hátt, en það sama er sjaldan hægt að segja um stjórnmálamenn vora. En að hinu leyti má sjá að þegar eitthvað illt hendir í stjórnmálum eða efnahagslífi þá hverfur það stundum í skuggann af glæsilegum íþróttaafrekum. Dæmi um slíkt höfum við séð á liðnum vikum eða svo; snemmsumars var landið skekið af einum stærsta pólitíska skandal í okkar sögu. Forsætisráðherrann, valdamesti maður samfélagsins, neyddist til að hverfa úr embætti á svipstundu þegar ekki aðeins kom í ljós að hann var afhjúpaður í svonefndum Panamaskjölum, heldur að auki vegna þess hve fáránlega klunnalega hann brást við er hann var spurður um málið í sænskum sjónvarpsþætti, og endaði með að strunsa út úr settinu þegar honum tókst ekki að ljúga sig út úr sínu klandri. Upptaka af þessu atviki, sem flaug um allan heim á vængjum netsins, og einnig sú staðreynd að marga aðra háttsetta Íslendinga úr stjórnmálum og viðskiptalífi var að finna í Panamaskjölunum, gerðu Ísland og Íslendinga að aðhlátursefni um allan heim; hvar sem einhver frá okkar landi birtist, jafnvel í fjarlægustu afkimum jarðar, hrópaði fólk: Ísland! Panamaskjöl! Hahaha!“ Íslenskur heiðursmaður tékkaði sig inn á hótel ásamt eiginkonu sinni í Tyrklandi eða Balí og var fagnað í afgreiðslunni með skrýtlum um forsætisráðherra og bananalýðveldi. Við, borgarar míns lands, vorum hræddir um að við myndum aldrei komast yfir þetta hneyksli.

En, undur og stórmerki!, aðeins fáum vikum síðar er allt gleymt, þökk sé fótboltalandsliði voru. Árangur þess í úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi, og ekki síst sigurinn gegn Englendingum, hefur algerlega breytt stöðunni – nú er Íslendingum alls staðar fagnað með gleðiópum og hamingjuóskum. Ekki meiri brandarar um Panama og banana.

Ég sagði hér í byrjun að þegar eitthvað illt hendi í stjórnmálum eða efnahagslífi þá hverfi það stundum í skuggann af glæsilegum íþróttaafrekum. En það getur líka farið á hinn veginn. Eitt af stærstu augnablikum íslenskrar íþróttasögu var síðsumars 2008 á Ólympíuleikunum í Kína. Landslið okkar í handbolta vann þá nær alla sína leiki, tapaði aðeins í úrslitaleiknum gegn Frakklandi og vann þannig silfurverðlaun, og skildi eftir á sinni leið handboltarisa eins og Þýskaland, Spán, Króatíu, Svíþjóð, Rússland og Danmörku. Snemma í september það ár er handboltahetjurnar sneru heim var þeim fagnað af hálfri þjóðinni í miðborg Reykjavíkur. Þetta var ein glæstasta stund í okkar sögu, enda var veðrið frábært og árgæska til sjós og lands, efnahagslífið virtist allt í blóma, íslensku bankarnir voru að breytast í alþjóðlega risa, og sú hugmynd leitaði á marga að úr þessu myndi ekkert illt geta hent okkur. En aðeins þremur eða fjórum vikum seinna vöknuðum við við nýjan veruleika; allt íslenska bankakerfið fór á hausinn á einni nóttu, það tók Seðlabankann með sér og flestar stærstu fyrirtækjasamstæðurnar að auki. Það virtist áþreifanleg hætta á að ríkið hryndi að auki og sjóðir þess tæmdust og ríkisstjórnin sat á neyðarfundum vegna þeirrar yfirvofandi skelfingar að við myndum ekki lengur geta greitt fyrir svo lífsnauðsynlegar innflutningsvörur eins og eldsneyti eða lyf. Á þeirri stundu mundi enginn lengur glæsta sigra handboltaliðsins okkar innan við mánuði fyrr.“

Og niðurlag pistilsins:

Svona lét ég gamminn geisa um hríð, sumt af því sem ég ræddi er flestum hér kunnugt, og ég sjálfur áður tekið fyrir í pistlum á þessum vettvangi. En ég endaði sumpart á jákvæðum nótum:

„En furðu fljótt fór allt að ganga betur. Forsætisráðherrann var meira eða minna sýknaður og er nú ambassador í Washington, hrunskýrslunnar óralöngu er nú helst minnst fyrir óvænt bókmenntalegt gildi hér og þar, fyrirtækin sem lifðu af tóku brátt að blómgast á ný. Bresk stjórnvöld töpuðu málaferlunum á hendur íslenskum skattgreiðendum, fiskimiðin eru full af fiski, og vinsældir landsins sem ákvörðunarstaður ferðamanna hafa aukist svo mikið að nú koma hingað sexfalt fleiri en fyrir hrun; nú í ár verða hér eitthvað um fimmfalt fleiri ferðamenn en innlendir borgarar. Eina áhyggjuefnið virðist vera að ástandið minnir æ meir á það sem var fyrir hrunið 2008. En svona er þetta í lífinu: líka sporti og bissness; stundum vinnur maður, en stundum tapast.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
Fréttir
Í gær

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fréttir
Í gær

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus