Elska Ísland: „Eitt af okkar eftirminnilegustu ævintýrum“ - Sjáðu myndbandið

Ljósmynd/Skjáskot af Youtube
Ljósmynd/Skjáskot af Youtube

Ísland er í aðalhlutverki á geysivinsælu ferðabloggi sem haldið er úti af bandaríska/franska parinu Jeff og Anne. Á dögunum eyddu þau rúmum tveimur sólarhringum hér á landi við ýmis konar iðju og segjast þau hafa fallið í stafi fyrir landi og þjóð. Ísland er nú orðið eftirlætis staður þeirra á jörðinni.

Jeff og Anne eru búsett í Dubai en halda úti umræddri bloggsíðu sem ber heitið „What Doesnt Suck?“ og birta þar myndskeið og texta þar sem þau lýsa ferðalögum sínum um heiminn. Þá veita þau öðrum ferðalöngum góð ráð og halda einnig úti vinsælum Snapchat aðgangi.

Parið gerir Íslandsförinni góð skil í meðfylgjandi myndskeiði sem hugsað er sem nokkurs konar leiðarvísir ferðalanga um Ísland. Í nýlegri færslu á síðunni dásama þau land og þjóð í hástert. „Flestir heimsækja þetta land Víkinganna á veturna í þeim tilgangi að sjá norðurljósin en ferðalag til Íslands að sumri til er eitt af okkar eftirminnilegustu ævintýrum hingað til,“ rita þau meðal annars og þá hvetja þau aðra ferðalanga til að grípa tækifærið.

„Það eru fáir staðir á jörðinni sem jafnast á við Ísland, þannig að gerið ykkur greiða og bókið miða til þessa töfralands elds og ísa áður en það verður of seint. Þið munið ekki sjá eftir því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.