fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Lögreglan varar fólk við: „Það sorglega er að þetta er allt svindl“

Tilvik hafa komið upp hér á landi – Fólk hvatt til að fara varlega og falla ekki í gryfjuna

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 25. júní 2016 17:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sér ástæðu til að vara almenning við svindli þar sem fólki er lofað góðri ávöxtun fyrir það eitt að láta örfáar krónur af hendi. Þetta gerir lögreglan á Facebook-síðu sinni.

„Ef eitthvað er of gott til að vera satt. Þá er það svoleiðis. Nýlega hefur borið á auglýsingum frá fyrirtækjum sem lofa ótrúlega góðri ávöxtun. Þú þarft ekki annað en að skrá þig og bankareikningurinn fyllist. Þessi fyrirtæki hafa lagt út í frambærilegar auglýsingar þar sem „eigandi/stjórnandi“ fyrirtækisins talar við þig, að því er virðist persónulega og allt gengur þetta út á að sannfæra þig um að allir verða ríkir sem taka þátt,“ segir í færslu lögreglunnar.

Þá segir að lítið sé farið út í hvernig allt þetta eigi að gerast en notuð séu flókin orð eins og Binary Trading System. Meira sé farið út í að sýna fólk sem segist hafa grætt stórar upphæðir eftir að það tók þátt í kerfinu.

„Allt sem þú þarft að gera er að skrá þig og borga inn í kerfið. Í sumum er gengið svo langt að þér er sagt að þú fáir 1$ strax á móti 1$ sem að þú leggur inn. Síðan fer mikill tími í að sýna dýr hús og bíla. Þér er sagt að þú sért velkomin í hópinn og þú getir orðið svona ríkur. Svo er bætt við að þú verðir að gera þetta hratt því þetta sé aðeins opið í skamman tíma,“ segir í færslu lögreglu.

„Það sorglega er að þetta er allt svindl. Eini aðilinn sem græðir eru þeir sem eru að svindla á þér. Það er fullt af smáu letri og það er flókið að sanna fjársvik af því að brotaþolinn er viljugur þátttakandi og það er ekki bannað að fjárfesta í bjánaskap. En þetta eru fjársvik að því leyti að þessi fyrirtæki eru ekki að skila neinu af því sem er lofað á meðan bankainnstæður þeirra hækka með hverju þeim sem hægt er að plata til að senda þeim peninga,“ segir í færslunni og er almenningur hvattur til að vera á varðbergi.

„Fólk út um allan heim er að falla í þessa gryfju, en þeir eru í mestri áhættu sem eru illa tölvulæsir. Tilvik hafa komið upp hér á landi. Þar sem greiðsla fer fram í gegn um greiðslukort þá getur fólk fljótlega komið sér í alvarlegar skuldir,“ segir lögregla sem bætir við að ef leitað sé eftir bakgrunni fyrirtækjanna og þeirra sem eiga að vera eigendur þá komi nánast ekkert upp. Svindlararnir séu sniðugir.

„Þeir hafa stundum haft fyrir því að setja upp heimsíður þar sem fyrirtæki þeirra er lofað. En yfirleitt má finna tengla sem vara við þessum fyrirtækjum. „Traustverðugu“ forráðamennirnir og þátttakendurnir eru líka bull. Þetta eru leikarar sem eru að fylgja eftir handriti. Handritið er fullt af vitleysum en sennilega er skemmtilegast í einu þar sem það er tekið fram að þú fáir forrit sem Frakkland, Rússland og Kína myndu vilja komast yfir en fyrirtækið hefur lokað á þá en er tilbúið að gefa þér forritið. Það er jafn ótrúverðugt og allt hitt.

Ekki falla í þessa gryfju. Það eru engin fyrirtæki til sem búa til peninga fyrir aðra á undraverðan hátt.
Lögregla tekur við ábendingum um netsvindl í netfangið abendingar@lrh.is
Farið varlega, besta vörnin er forvörn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu