fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Þrotabú Guðmundar fékk 110 milljóna greiðslu rift

– Bú Guðmundar á Núpum lagði slitabú Kaupþings í héraðsdómi – Seldi verðmæta eign

Ritstjórn DV
Laugardaginn 18. júní 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur rifti á miðvikudag 110,5 milljóna króna greiðslu Guðmundar A. Birgissonar, sem kenndur er við Núpa í Ölfusi, til slitabús Kaupþings. Greiðslan var innt af hendi eftir að bú Guðmundar var tekið til gjaldþrotaskipta í desember 2013. Seldi hann þá kröfu á félagið Isis Investments Limited, sem skráð er á írsku eyjunni Mön, en lýstar kröfur í bú Guðmundar námu um mitt ár 2014 rúmum 3,2 milljörðum króna.

Seldi kröfur á 257 milljónir

Þrotabúið fór fram á að héraðsdómur staðfesti riftun á greiðslu Guðmundar þann 9. janúar 2014 á afleiðuskuld hans við slitabú Kaupþings. Samkvæmt dómnum var bú Guðmundar, sem var umsvifamikill fjárfestir á árunum fyrir hrun en orðinn ógjaldfær í lok 2008, tekið til gjaldþrotaskipta 20. desember 2013. Að mati þrotabúsins hefðu stjórnendur slitabúsins á þeim tímapunkti mátt vita af kröfunni um gjaldþrotaskiptin en þeir hafi þrátt fyrir það gert samkomulag við Guðmund um kaup og sölu á kröfum sama dag og hann var lýstur gjaldþrota. Seldi hann þá Mön Investments ehf., dótturfélagi Kaupþings, meðal annars allar kröfur sínar á hendur þrotabúi Isis Investments Limited. Dótturfélag Kaupþings greiddi í kjölfarið milljónirnar 110,5 upp í afleiðuskuld hans við Kaupþing. Einnig hélt það eftir 128 milljónum og greiddi rúmar 18 milljónir inn á bankareikning Guðmundar.

Héraðsdómur Reykjavíkur rifti á miðvikudag sölu Guðmundar á kröfu sem hann átti vegna kaupa á bresku verslunarkeðjunni.
Somerfield Héraðsdómur Reykjavíkur rifti á miðvikudag sölu Guðmundar á kröfu sem hann átti vegna kaupa á bresku verslunarkeðjunni.

Mynd:

Fyrir dómi fullyrti þrotabúið að greiðsla skuldarinnar hafi falið í sér framsal stórs hluta af stærstu eign athafnamannsins. Hún hafi verið greidd fimm árum eftir að skuldir hans við Kaupþing féllu í gjalddaga og færsla um árangurslaust fjárnám á honum var færð í vanskilaskrá. Aðrar eignir séu óverulegar en meðal þeirra séu fasteignir í Slóvakíu, Lúxemborg, Spáni og eignir í Bandaríkjunum. Skiptastjóri hafi fengið vitneskju um sölusamninginn þann 7. janúar 2014 og hafi þá reynt að leysa fjármunina úr vörslu Manar Investments þar sem þrotabúið hafi ekki getað fjármagnað riftunarmál sín.

Keypti í Somerfield

Krafan á hendur Isis var tilkomin vegna viðskipta Guðmundar með hlutabréf í bresku verslunarkeðjunni Somerfield. Haustið 2005 bauð Kaupþing honum, og nokkrum öðrum fjárfestum sem allir voru í einkabankaþjónustu bankans, að taka þátt í kaupunum. Bankinn gerði á þeim tíma lánssamning við hlutafélagið Tazamia Limited, frá Bresku Jómfrúaeyjum, að fjárhæð 67 milljónir punda. Isis yfirtók svo réttindi og skyldur Kaupþings í desember 2005 og skuldbatt sig til að leggja Tazamia til kaupverðið. Fjárfestarnir sem Kaupþing leiddi saman lögðu fram alls 40 milljónir punda og þar af kom ein milljón punda frá Guðmundi.

Í dómi héraðsdóms segir að breska verslunarkeðjan hafi skömmu síðar verið seld í heilu lagi með nokkrum ágóða fyrir fjárfestana. Kaupverðið hafi verið greitt út til Tazamia sem endurgreiddi Isis lánið. Írska félagið hafi aftur á móti verið tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2010 og fjárfestarnir því aldrei fengið greitt.

Stórtækur fyrir hrun

Bú Guðmundar var fyrst tekið til gjaldþrotaskipta í desember 2010 að kröfu gamla Landsbankans. Sá úrskurður var síðar felldur úr gildi og sótti Guðmundur í maí 2011 um heimild, sem honum var á endanum synjað um, til greiðsluaðlögunar hjá umboðsmanni skuldara. Við upphaf skiptameðferðar kom í ljós að eignir hans voru óverulegar með hliðsjón af þeim kröfum sem lýst var í búið.

Guðmundur átti fyrir hrun meðal annars fjölmargar fasteignir, bæði íbúðarhúsnæði og jarðir, innstæður í bönkum, hlutafé og innlend og erlend verðbréf og kröfur. Hann var einn af hluthöfum jarðafélagsins Lífsvals, sem var um tíma stærsti jarðeigandi landsins og Landsbankinn tók yfir í ársbyrjun 2012. Þá var hann hluthafi í MP banka, verðbréfafyrirtækinu Virðingu, FL Group, Hótel Borg og Bang & Olufsen á Íslandi. Guðmundur var einnig í forsvari fyrir minningarsjóð frænku sinnar Sonju Zorilla sem auðgaðist meðal annars á fjárfestingum á Wall Street.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga