fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

„Ég hef verið tilfinningahrúga síðan hann tók þá ákvörðun fyrir mig að ég vildi sofa hjá honum“

Heiðrún opnar sig um nauðgun sem hún varð fyrir í Níkaragva fyrir skemmstu

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 5. maí 2016 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hjálpumst að og reynum að breyta heiminum. Komið umræðunni af stað, talið um þetta í matarboðum, skírnarveislum, á Twitter, Facebook eða snapchat! Ég ætla ekki að þegja,“ segir Heiðrún Mjöll Bachmann, 21 árs stúlka sem nú er stödd í Níkaragva. Heiðrún opnaði sig í vikunni um nauðgun sem hún varð fyrir í landinu fyrir skemmstu.

Fórnarlömbum gert erfitt fyrir

Heiðrún skrifar um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hún fer yfir atburðarás síðustu vikna. Hún gagnrýnir kerfið í Níkaragva og segir að fórnarlömbum kynferðisofbeldis í landinu sé gert erfitt fyrir. Hún segist hafa verið í tilfinningalegum rússíbana síðan atvikið varð en hún hafi tekið þá ákvörðun að þegja ekki heldur opna sig um reynslu sína.

Heiðrún sagði frá atvikinu í viðtali við Fréttablaðið síðastlinn fimmtudag. Hún hefur dvalið í landinu sem au pair hjá íslenskri fjölskyldu að undanförnu. Hún sagði frá því í viðtalinu að gerandanum hafi hún kynnst í ræktinni og þau farið í gleðskap á fimmtudagskvöldi fyrir hálfum mánuði. Þar sagði Heiðrún að sér hafi verið nauðgað eftir að hafa verið byrlað ólyfjan. Hún hafi fengið sér að drekka en það næsta sem hún muni var þegar hún rankaði við sér á hótelherbergi með manninn liggjandi við hliðina á sér.

Langt og erfitt ferli

Heiðrún segir frá í færslu á Facebook að hún hafi þurft að byrja á að kæra glæpinn til lögreglu og bíða eftir að komast í skoðun á heilsugæslustöð sem er á vegum lögreglunnar. Klukkan 17 á föstudeginum, daginn eftir umrætt atvik, segist Heiðrún hafa farið á lögreglustöðina til að kæra glæpinn. Eftir hálftíma bið þar hafi henni verið tilkynnt að hún þyrfti að kæra glæpinn á lögreglustöðinni í því hverfi sem glæpurinn var framinn í. Öðrum hálftíma síðar voru hún og vinkona hennar komnar niður á hina lögreglustöðina.

„Þar tekur við meiri bið og ég segi söguna mína í annað sinn (fyrsta skipti var fyrir lögfræðinginn). Eftir að ég var búin að segja söguna, gefa kjólinn sem ég var í til lögreglunnar, þau búin að taka allskonar myndir úr símanum mínum sem sönnunargögn og auðvitað svara allskonar viðeigandi spurningum t.d: „Hversu stuttur var kjóllinn þinn?“ „hversu mikið áfengi drakkstu?“ „ertu vön að drekka svona mikið?“ „hvernig dansaðirðu við hann?“.

Eftir svona aldeilis frábæra yfirheyrslu sem stóð yfir í 2-3 tíma þá spyr ég hvenær ég get eiginlega komist til læknis, lögreglukonan tilkynnir mér það að ég geti farið til læknis daginn eftir (takið eftir að ég var ekki búin að fara á klósettið allan daginn til þess að halda „sönnunargögnum“ í besta standi) ég lét vel í mér heyra og þegar klukkan slær 00.00 þá erum við lent fyrir utan þessa umtöluðu heilsugæslu og hálftíma seinna er ég farin inn að tala við lækninn. Ég fer svo í allsherjar skoðun og klukkan 02.00 er ég komin út og á leiðinni heim,“ segir Heiðrún.

Hún heldur áfram:

„Mánudeginum eftir þetta átti ég bókaðan tíma í sálfræðimat klukkan 09.00. Ég og túlkurinn minn erum mættar tímanlega og byrjaðar að bíða þegar lögfræðingurinn segir að við verðum að hætta við tímann vegna þess að túlkurinn minn (sem er fjölskylduvinkona) er ekki „certified“ túlkur og hann ætli að „redda því“ svo það komi ekki í bakið á okkur seinna meir. Hann segir okkur að mæta aftur klukkan 15.00. Sem við gerum. Eftir að hafa beðið aftur í biðstofunni er okkur sagt að læknirinn ákvað að hætta fyrr og er farinn heim og ég get mætt 08.00 daginn eftir,“ segir hún.

Vill vekja athygli á ástandinu

Þriðjudaginn 26. apríl fer hún í sálfræðimatið þar sem hún segir sögu sína í fimmta sinn. Tveimur tímum síðar segir Heiðrún að læknirinn hafi stoppað hana og beðið hana um að koma aftur daginn eftir klukkan 8 að morgni. Það gerir hún og segir söguna þá í sjötta sinn. Sama dag fór hún með túlknum sínum á lögreglustöðina og segir söguna í sjöunda sinn.

„Núna eru komnar næstum tvær vikur síðan og eina sem hefur verið gert í málinu er að styrkja olíufélög landsins. Einu svörin sem ég fæ er að það er allt í vinnslu,“ segir Heiðrún sem spyr hvernig málum sé háttað hjá fátækum konum í landinu sem verða fyrir nauðgun. „Þetta ferli sem ég lýsti hér fyrir ofan er meðferð sem „hvíta ríka“ konan fær. Ímyndaðu þér að vera fátæk kona eða karl í Nikaragúa og það er brotið á þér? Í landi þar sem nýlega er horft á nauðgun sem glæp? Í landi þar sem ríkir mikið karlaveldi? Í landi þar sem lögreglan er spillt? Í landi þar sem ríkisstjórnin er spillt? Þar sem einn lögfræðingur er að vinna í málum fyrir 50 manns í einu? Í landi þar sem þú ert skyldug til að tilkynna nauðgun en samt er ekkert gert til að hjálpa þér,“ segir Heiðrún og bætir við að hún hafi ákveðið að tjá sig um málið til að vekja athygli á ástandinu í Níkaragva.

„Ég ætla ekki að þegja“

„Ég hef verið tilfinningahrúga síðan hann tók þá ákvörðun fyrir mig að ég vildi sofa hjá honum. Síðan hann svipti mig öllu valdi og braut mig niður. Sjálfstæða Heiðrún þorir ekki að labba ein úti á kvöldin. Eftir að hann hafði lokið sér af spurði hann mig: „You pay or I pay?“ Sem sagt fyrir hótelherbergið sem hann fór með mig á án minnar vitneskju!

Hjálpumst að og reynum að breyta heiminum. Komið umræðunni af stað, talið um þetta í matarboðum, skírnarveislum, á Twitter, Facebook eða snapchat! Ég ætla ekki að þegja,“ segir Heiðrún að lokum í færslunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi