fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Árni segist vera tíu milljónum fátækari vegna læknamistaka: „Óréttlætið er ógeðslegt“

„Lærið á mér hefur afskræmst svo mikið að ég forðast að horfa á það“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 5. maí 2016 21:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég virðist ekki hafa nokkra möguleika á að sækja rétt minn. Það er í boði læknamafíunnar, “ segir Árni Richard Árnason fyrrum keppnishlaupari en hann kveðst vera fórnarlamb læknamistaka. Fjallað var um mál Árna í grein Pressunar árið 2011 þar sem greint var frá því að árið 2007 hefði hann gengist undir krossbandaaðgerð í Orkuhúsinu. Eftir aðgerðina var honum tjáð að aðgerðin hafi gengið vel og að hann ætti byrja að hlaupa þremur mánuðum síðar. Að þessum þremur mánuðum liðnum átti hann hins vegar erfitt með að ganga og standa og segir hann að í kjölfarið hafi einn færasti íþróttabæklunarlæknir Danmerkur tjáð honum að krossbandið væri ónýtt, og reyndist það vera rangt staðsett.

Við tóku tvö ár sem einkenndust af „röð kostnaðarsamra aðgerða og áfalla“ eins og Árni orðar það. Segir hann læri sitt hafa afskræmst eftir að vöðvar slitnuðu í tvígang og sitji hann því uppi með hræðilegt lýti. Þrátt fyrir að hafa eytt ómældum tíma í endurhæfingu og þjálfun, hafi aðgerðirnar ekki skilað tilætluðum árangri. Árni hefur gengist undir alls tíu aðgerðir.

„Lærið á mér hefur afskræmst svo mikið að ég forðast að horfa á það. Ég hef ekki getað hreyft mig og þar af leiðandi hef ég bætt á mig 15 kílóum þrátt fyrir að hafa misst talsverðan vöðvamassa. Ég hef eytt mörg þúsund klukkutímum í endurhæfingarþjálfun. Ég á erfitt með að standa og ganga, og ég er allur skakkur þegar ég stend þar sem ég hef ekkert jafnvægi,“ segir Árni meðal annars í umræddri grein Pressunar, og bætir jafnframt við að sökum þessa hafi hann verið meira og minna rúmliggjandi í tvö ár. Þar af leiðandi hafi hann einangrast félagslega og fundið fyrir þunglyndi.

Þá kemur einnig fram í grein Pressunnar að Árni hafi sent fjölmörg bréf til Landlæknis vegna þeirra mistaka sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna krossbandsaðgerðarinnar. Loksins hafi borist svar þar sem fram kom að niðurstaða embættisins væri sú að umræddir læknar og sjúkraþjálfari hefðu staðið faglega að meðferðinni. Landlæknir fékk þá Magnús Pál Albertsson, handarskurðlækni í Orkuhúsinu og meðeiganda Orkuhússins, til að gefa álit sitt og undrast Árni það val á umsagnararaðilum.

Segir Árni að framkoma Landlæknis hafi fyllt sig viðbjóði á íslenskri stjórnsýslu og segir það klárt mannréttinda brot að mál hans fái ekki faglega umfjöllun óháðra sérfræðinga. Álit Landlæknis um að krossbandið hafi verið rétt staðsett, segir Árni að stangist á við staðfestingu bæklunarlækna í þremur löndum um að svo hafi ekki verið. „Ég og mín fjölskylda hefur fjármagnað allar aðgerðirnar og kostnaður hleypur á mörgum milljónum króna.“

Milljóna kostnaður

Árni tjáir sig á ný um málið í pistli sem birtist á Vísi í dag þar sem hann tekur fram að fjárútlát sín vegna aðgerðanna hafi verið yfir tíu milljónum króna, auk tekjutaps. Þá tekur hann fram að máli hans hafi verið vísað aftur til landlæknisembættisins eftir áralangt kæruferli og staðfestu þá tveir nýjir umsagnaraðilar að skaði á krossbandi og vöðvum væru afleiðing aðgerðarinnar. Í framhaldi af því viðurkenndu tryggingarfélög læknanna skaðabótaábyrgð í sjúklingatryggingu.

Segir Árni að engu að síður hafi örorkumatsmenn svikið hann um þau loforð að ljúka örorkumati innan tveggja mánaða frá örorkumatsfundi. Rökstuðningurinn hafi verið þau að meðferð var ekki lokið og fór örorkumat því ekki fram fyrr en eftir 14 mánuði.

„Niðurstaða örorkumatsins var sú að skaði á vöðvum væri ekki „bein afleiðing“ af aðgerðinni og því fékk ég engar bætur fyrir skaða á vöðvum! Það var því engin ástæða til að fresta örorkumatinu eða kalla til nýjan fund þar sem meðferðin gat ekki haft áhrif á matið,“ ritar Árni og segir óréttlætið „ógeðslegt.“

„Það kom fram að mistök voru gerð í krossbandsaðgerðinni en ekki hvaða mistök. Tryggingarfélögin neituðu að lokum að greiða kostnað við lagfæringu á krossbandi með þeim rökstuðningi að hann væri fyrndur. Og ég sem hafði barist svo mikið, svo lengi, fyrir þessum bótum.“

Árni segir örorkumatsmenn hafa valdið meira en tveggja ára seinkun á málinu og hefur hann nú eitt og hálft ár til stefnu þar til mál hans fyrnist. Í gegnum allt ferlið, sem hófst árið 2007, hefur hann ráðið lögmenn hjá sex mismunandi lögmannstofum og tóku þeir 3,8 milljónir af bótum hans í þóknun. Segist hann enn ekki hafa fundið lögmann sem hann geti treyst. Hann segist nú vera kominn aftur á byrjunarpunkt og þurfi að sækja um yfirmat til að fá viðurkenndan skaða sinn.

„Mitt ráð til þín er að sækja alla heilbrigðisþjónustu til útlanda“

Pistil Árna á Vísi má finna hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð
Fréttir
Í gær

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“