fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

GPS tækið sendi bandarískt par til Þórs: Allt út af loðnunót áratugum áður

„Þótti ég bera einhverja ábyrgð á óförum þeirra“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 30. maí 2016 13:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þór Þorsteinsson á Skálpastöðum II í Borgarfirði greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hann hafi fengið óvænta heimsókn um helgina. Bandarískt par sem var á leið í Þórsmörk endaði fyrir misskilning á hans slóðum. Tengist það loðnunót sem varð eftir úti á túni áratugum fyrr.

„Þetta var bara til að gera daginn skemmtilegri,“ sagði Þór í samtali við Vísi sem greindi fyrst frá málinu en þar má lesa ítarlegt viðtal við Þór og Guðrúnu konu hans. Í samtali við DV segir Þór að hann sé ekki alltof hrifinn af athyglinni en atvikið sé skemmtilegt og ánægjulegt að geta komið ánægjulegri frétt á framfæri.

Í skemmtilegri sögu á Facebooksíðu-sinni greinir Þór frá hvernig þetta hafi nú atvikast allt saman.

„Sem ungur drengur smíðaði ég forláta fótboltamörk úr timbri á einu túni hérna í sveitinni. Til að þurfa ekki að sækja boltann eins langt setti ég net í mörkin, leifar af einhverri gamalli loðnunót. Síðan var spilaður fótbolti þar til kom að því að slá þurfti túnið. Þá var mér skipað að fjarlægja mörkin sem ég sannarlega gerði. Einhverjar leifar af loðnunótinni urðu hinsvegar eftir og lentu þær að sjálfsögðu í sláttuvélinni. Það tók það sem eftir var af deginum og fram undir morgun að losa netið úr sláttuvélinni og ekkert slegið á meðan.“

Þór greinir frá því að faðir hans hafi nú ekki verið alltof ánægður með þetta og var starfskrafta hans við að losa netið úr vélinni ekki óskað.

„Túnið hafði ekkert eiginlegt nafn þegar þetta gerðist ólíkt flestum öðrum túnum á bænum. Það var hluti af Goðalöndunum svokölluðum sem voru í raun fjögur tún og var kallað Efsta Goðaland. Þegar pabbi var búinn að jafna sig á þessum mistökum mínum og sláttur aftur kominn á fullt skrið fékk túnið loksins nafn.“

Nafnið var auðvitað Þórsmörk. Líklega ætlað að sjá til þess að sögn Þórs að hann myndi aldrei gera önnur eins mistök aftur.

,,Síðustu ár hefur félag eldri borgara í Borgarfirði unnið ákaflega mikilvægt starf við skráningu örnefna á svæðinu í samstarfi við Landmælingar Íslands. Eins og sjá má á myndinni er túnið komið í kortagrunn Landmælinga.“

Þá heldur áfram:

„Í gærkvöldi bankaði uppá bandarískt par sem hafði ætlað sér að eyða deginum í að keyra í allt aðra Þórsmörk. Þau slógu einfaldlega nafnið inn í GPS tækið sitt og keyrðu af stað. Mér þótti ég bera einhverja ábyrgð á óförum þeirra og bauð þeim í kvöldmat sem þau þáðu, enda kjötið komið á grillið. Þeim var síðan gefin kortabók og send í burtu í rétta stefnu. Ég vona að þau hafi náð leiðarenda.“

Þá segir Þór að lokum:

„Í guðanna bænum, aldrei skilja eftir leifar af loðnunót úti á túni. Þú færð það allt í hausinn, jafnvel áratugum seinna.“

Á Vísi má lesa viðtal við hjónin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”