fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Lögreglan gagnrýnd fyrir hörku: „Svo standa þeir bara og öskra mace og byrja að hrinda krökkunum í burtu“

Gleðskapur í Blúskjallaranum á Neskaupsstað endaði með ósköpum

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 3. maí 2016 14:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Líklega hefur lögreglan misst stjórn á þessu, en maður hefði haldið að þrír fullorðnir karlmenn ættu að ráða við þetta,“ segir íbúi á Neskaupsstað um atvik sem varð í Blúskjallaranum í bænum aðfaranótt laugardags.

Nemendur í Verkmenntaskóla Austurlands segja farir sínar ekki sléttar af samskiptum við lögreglu sem leysti upp gleðskap sem haldinn var á staðnum. Nemendur höfðu farið á staðinn að loknu árshátíðarballi sem haldið var. Eftir ballið, eða um klukkan eitt að nóttu, var lögreglu tilkynnt að ungmenni, undir lögaldri, væru á staðnum þar sem áfengis væri neytt.

Hækkaði í græjunum

Heimildarmaður DV sem var á staðnum segir að margir hafi verið samankomnir í Blúskjallaranum þegar lögregla kom á staðinn. „Það komu þarna þrír lögreglumenn og ætluðu að koma öllum sem væru undir 18 ára út. Þeir vildu fá þögn, en þá var einn í partýinu sem hækkaði í græjunum,“ segir heimildarmaður DV og bætir við að lögregla hafi ekki tekið þessu vel.

„Þeir vildu fá þögn, en þá var einn í partýinu sem hækkaði í græjunum.“

Að sögn heimildarmannsins róaðist gleðskapurinn þó fljótlega og hafi nemendur sem þarna voru samankomnir farið að spjalla saman á rólegu nótunum. Í kjölfarið segir hann lögregluna hafa gengið á nemendur sem voru inni á staðnum og beðið um skilríki. Þegar einn neitaði lögreglu hafi allt farið í bál og brand og lögregla beitt piparúða.

Gátu ekki tjáð sig um málið

„Einn fór upp á sjúkrahús og leitaði sér hjálpar, tveir eða þrír fóru upp á lögreglustöð og létu skola þetta,“ segir heimildarmaðurinn sem bætir við að aðgerðir lögreglu á staðnum hafi verið harkalegar. DV náði tali af Helga Jenssyni, staðgengli lögreglustjórans á Austurlandi, sem sagðist aðspurður ekki geta tjáð sig um málið.

„Já, en ég get ekki tjáð mig um málið,“ sagði Helgi aðspurður hvort hann kannaðist við umrætt mál. Þegar Helgi var spurður hvers vegna hann gæti ekki rætt málið sagði hann: „Ég hef ekki tíma til að ræða við þig núna.“ Aðspurður hver það gæti verið sem gæti gefið upplýsingar um málið sagði hann engan geta gert það og í kjölfarið var símtalinu slitið. DV reyndi að ná í Jónas Wilhelmsson yfirlögregluþjón en án árangurs.

Samkvæmt upplýsingum DV ríkir megn óánægja meðal íbúa á svæðinu með viðbrögð lögreglu. Telja þeir sem DV hefur rætt við að hægt hefði verið að leysa málið án þess að grípa til piparúða.

„Hvað í fokkanum ertu að gera?“

Elís Ármannsson, nemi í verkmenntaskólanum, segir við RÚV að lögregla hafi gengið of langt. „Það er einn strákur sem er að segja við lögreglumann að hann hafi sinn rétt til að vera þarna því hann væri orðinn 18 ára. Lögreglumaðurinn kemur og ýtir í hann og hann segist ætla að kæra hann fyrir ofbeldi. Þá tekur hann hendina fyrir aftan bak og grýtir honum utan í vegg. Þar áður voru þeir búnir að kalla að ef við ætluðum ekki að fá sekt fyrir að hlíða ekki lögreglu þá skyldum við drulla okkur út. Þegar hann grýtti honum utan í vegginn voru félagar hans ekki sáttir við það og fóru að mótmæla þessu. Spurðu: „Hvað í fokkanum ertu að gera?“ Þá dregur lögreglumaður upp piparúðann og sprautar yfir fólk án þess að kalla mace,“ segir Elís í frétt RÚV.

Elís segir í frétt RÚV að engin ógn hafi stafað af ungmönnum sem voru inni en þrátt fyrir það hafi lögregla ekki hikað við að nota piparúðann. „Svo er ein stelpa þarna 17 ára sem var ekki að gera neitt. Þeir úða samt framan í hana einni bunu af piparúða. Svo standa þeir bara og öskra mace og byrja að hrinda krökkunum í burtu. Það verður til þess að allavega fjórir duttu í jörðina. Þeir ýttu það fast í bringuna að þeir duttu aftur fyrir sig,“ segir hann og bætir við að þrír hafi leitað á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað eftir að hafa fengið piparúða í augun.

„Þeir ýttu það fast í bringuna að þeir duttu aftur fyrir sig.“

Lögregla segir ungmennin hafa gert aðsúg

Þá ræddi RÚV við Óskar Þór Guðmundsson, sem er einn þeirra lögreglumanna sem tóku þátt í aðgerðinni. Hann segir að þarna hafi verið samankomnir unglingar allt niður í sextán ára gamlir sem hafi verið að drekka. Enginn hafi viðurkennt að vera húsráðandi og lögregla hefði reynt að rýma svæðið í góðu. Þeir sem komnir voru saman á staðnum hafi látið hótanir um sektir vegna óhlýðni sem vind um eyru þjóta. Lögregla hafi þá brugðið á það ráð að handjárna einn sem var á staðnum sem vildi ekki segja til nafns. Þá hafi fyrrgreind atburðarás orðið; ungmenni hafi gert aðsúg að lögreglu og reynt að frelsa piltinn. Þess vegna hafi piparúða verið beitt.

Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn, segir í frétt RÚV að lögreglumennirnir hafi borið á sér myndavélar og farið verði yfir upptökurnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu