fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Safna 150 milljónum fyrir skuldum Fáfnis

– Boðað til hluthafafundar hjá Fáfni Offshore – Stjórnin vill gefa út skuldabréf

Ritstjórn DV
Föstudaginn 27. maí 2016 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórn Fáfnis Offshore hefur boðað til hluthafafundar í dag þar sem tillaga hennar um 150 milljóna króna skuldabréfaútgáfu fyrirtækisins verður tekin fyrir. Með fjármögnuninni á að greiða afborganir lána og vexti til Íslandsbanka og norska fjármálafyrirtækisins EksportKreditt Norge AS og þannig tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækisins. Fáfnir rekur sérútbúna fimm milljarða króna olíuþjónustuskipið Polarsyssel, dýrasta skip Íslandssögunnar, en smíði á öðru skipi fyrirtækisins, Fáfni Viking, var stöðvuð vegna verkefnaskorts.

Lengt í lánum

Samkvæmt fundarboði stjórnarinnar, sem DV hefur undir höndum, vill hún fá leyfi hluthafa Fáfnis fyrir skuldabréfaútgáfu upp á allt að 150 milljónir króna. Breytanleg skuldabréf verði gefin út ekki seinna en 11. júní næstkomandi, með 20% ársvöxtum, sem hægt verði að skipta fyrir hlutafé í olíuþjónustufyrirtækinu. Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis og starfsmaður Íslandssjóða, sem stýra framtakssjóðnum Akri, stærsta hluthafa Fáfnis, segir samkomulag við Íslandsbanka og EksportKreditt, um lengingu á lánum fyrirtækisins, vera á borðinu.

Jóhannes Hauksson segir skuldabréfaútgáfuna þurfa til svo Fáfnir geti staðið við samkomulag við Íslandsbanka og Eksportkreditt um lengingu í lánum olíuþjónustufyrirtækisins.
Stjórnarformaðurinn Jóhannes Hauksson segir skuldabréfaútgáfuna þurfa til svo Fáfnir geti staðið við samkomulag við Íslandsbanka og Eksportkreditt um lengingu í lánum olíuþjónustufyrirtækisins.

Fáfnir réðst einnig í skuldabréfaútgáfu í febrúar síðastliðnum og hljóðaði hún upp á allt að 195 milljónir króna. Tilgangur hennar var að útvega félaginu fé fyrir greiðslu til norsku skipasmíðastöðvarinnar Hayvard vegna fimm milljarða króna skipsins Fáfni Viking sem fyrirtækið átti upphaflega að fá afhent fyrir tveimur mánuðum. Þau bréf voru einnig gefin út með 20% ársvöxtum og með heimild til að skipta þeim fyrir hlutafé sem samsvaraði meirhluta hlutafjár í Fáfni. Eignarhlutur þeirra hluthafa sem tóku ekki þátt í skuldabréfaútgáfunni þynntust því út eins og mun koma til með að gerast á næstu dögum og vikum fari svo að hluthafafundurinn samþykki seinni útgáfuna næsta föstudag.

Fluttu út

Framtakssjóðurinn Akur, sem er í eigu þrettán lífeyrissjóða, Íslandsbanka og VÍS, á 30% hlut í Fáfni. Þar á eftir kemur Framtakssjóðurinn Horn II, sem er í eigu lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja og fagfjárfesta, með 23%. Samkvæmt nýjasta ársreikningi Fáfnis á Steingrímur Erlingsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, 21% hlut í gegnum einkahlutafélagið Fafni Holding. Hinir fimm hluthafarnir, þar á meðal Sjávarsýn ehf., sem er í eigu Bjarna Ármannssonar, fjárfestis og fyrrverandi forstjóra Glitnis, og Havyard Ship Invest AS, sem er í eigu norsku skipasmíðastöðvarinnar Havyard, eiga minna en 10% hver.

Það er verið að skoða verkefni fyrir þessa þrjá mánuði sem eru til viðbótar og það er bara í vinnslu.

Steingrími var eins og komið hefur fram sagt upp störfum í desember. Lækkun olíuverðs hafði þá gjörbreytt verkefnastöðu margra fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. DV fjallaði í febrúar um árangurslausa tilraun hans til að kaupa fyrirtækið af núverandi eigendum þess. Á hluthafafundinum í febrúar reyndi Steingrímur að koma Katli Sigurjónssyni, sérfræðingi í orkumálum og fyrrverandi orkubloggara, inn í stjórn félagsins fyrir hans hönd. Aðrir hluthafar Fáfnis studdu Davíð Stefánsson, starfsmann Íslandssjóða. Í apríllok barst Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra síðan tilkynning um að höfuðstöðvar Fáfnis væru ekki lengur staðsettar á Bárugötu 4 í Reykjavík en húsnæðið er í eigu Steingríms.

Þjónustusamningur Fáfnis Offshore við Sýslumanninn á Svalbarða hefur um langt skeið verið eina verkefni fyrirtækisins en hann var í vetur lengdur úr sex mánuðum á ári í níu. Samkvæmt upplýsingum DV reyna stjórnendur Fáfnis að ná samningi við sýslumanninn um að hann nái til tólf mánaða á ári. Jóhannes Hauksson vill í samtali við DV ekki staðfesta það.

„Það er verið að skoða verkefni fyrir þessa þrjá mánuði sem eru til viðbótar og það er bara í vinnslu,“ segir Jóhannes.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu