fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Norska ríkið skráði son Klöru sem munaðarleysingja

Var „án forræðis“ í fjögur ár – Brýnir fyrir einstaklingum að gæta vel að réttri skráningu við búferlaflutninga

Auður Ösp
Föstudaginn 27. maí 2016 19:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það verður ekki metið til fjár, hversu mikilvægt er að foreldrar taki öll hugsanleg gögn með þegar flutt er frá landinu. Svona kerfisvilla getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér og sérstaklega fyrir foreldra sem ekki hafa sama aðgengi að upplýsingum og ég, það er að segja tala jafnvel litla sem enga norsku og vita ekki hvert á að leita,“ segir Klara Egilsson sem búsett er í Noregi ásamt 8 ára gömum syni sínum. Sökum villumeldingar við skráningu í norsku þjóðskrána á sínum tíma var sonur hennar skráður sem munaðarleysingi á ábyrgð norska ríkisins og má því í raun segja að Klara hafi verið án forræðis yfir drengnum í fjögur ár. Hún hvetur einstaklinga sem hyggja á búferlaflutninga erlendis að gæta vel að því rétt sé staðið að skráningu inn í viðkomandi land, þar sem afleiðingarnar geti annars orðið grafalvarlegar.

Klara birtir frásögn sína á Kvon.is Barnsfaðir hennar er látinn og er því Klara eina eftirlifandi foreldrið. Kveðst hún hafa farið fyrir fjórum árum að sækja um landsvistarleyfi fyrir þau mæðgin hjá skattstofunni í Noregi og haft meðferðis alla þá pappíra sem hún taldi nauðsynlega, meðal annars staðfestingu á forræði frá Sýslumanninum í Reykjavík. Tveimur vikum seinna komu kennitölurnar í pósti.

Það var síðan fyrir tveimur dögum, þegar Klara hugðist sækja um nýtt vegabréf fyrir son sinn, að hún rakst á vegg. Vegna umsóknarinnar þurfti hún að kalla eftir staðfestingu á forræði yfir syni sínum, en slíka staðfestingu þarf einnig ef einstaklingur hyggst breyta eftirnafni barns, gera erfðaskrá eða ráðstafa forræði.

„Hins vegar átti ég ekki von á svari starfsmanns, sem símleiðis fletti upp kennitölum okkar beggja og svaraði svo einfaldlega: „Ég get ekki orðið við þessari beiðni. Þú ert ekki skráð sem forráðamaður barnsins í norsku þjóðskránni. Drengurinn er vissulega skráður inn í landið og nýtur allra réttinda sem slíkur, en það er enginn skráður sem forráðamaður barnsins. Hann er á ábyrgð norska ríkisins“

segir Klara og bætir við: „Þessa skráningu fá meðal annars börn flóttafólks, sem koma einsömul til landsins. Munaðarlaus börn. Börn sem eiga engan að. Sonur minn fellur ekki undir þann hópinn. Hann er íslenskur ríkisborgari sem missti föður sinn ungur að aldri og það er íslensk móðir sem fer með fullt forræði barnsins.“

Hún segir að því næst hafi tekið við gríðarlegur barningur við að uppfæra upplýsingar um son hennar í þjóðskránni á meðan norska ríkið hafi í raun farið með „laumuforræði“ yfir drengnum.

„Til að fyrirbyggja allan misskilning, hefur enginn nokkru sinni dregið í efa né reynt að hrekja þann úrskurð að ég fari með fullt forræði yfir syni mínum. Norska ríkið gekk einfaldlega svo frá þegar barnið var skráð inn í landið á vormánuðum 2012, að hvorki væri hægt að óska eftir nýju vegabréfi fyrir barnið, uppfæra ríkisborgararétt né flytja barnið að nýju úr landi, þar sem enginn væri skráður með forræði barnsins – sem, einhvers staðar í myrkviðum kerfisins er skráður á ábyrgð norska ríksisins og hlaut landvistarleyfi í Noregi í mars árið 2012.“

Léttirinn mikill

Í samtali við blaðamann segir Klara að henni hafi loksins tekist að “endurheimta forræðið” yfir syni sínum í hádeginu í dag. Upplýsingarnar hafa verið uppfærðar í þjóðskrá og léttirinn er að hennar sögn gífurlegur. Á hún von á að staðfesting á forræði í búsetulandi muni berast í pósti eftir helgina.

„Staðan hefur verið uppfærð í norsku þjóðskránni núna. Ég get sótt um vegabréf fyrir barnið mitt í næstu viku og við erum sannarlega ekki föst í Noregi , eins og í stefndi. Ég þurfti á öllum mínum klókindum, skilning og þekkingu á norsku og svo líka þeim pappírum sem ég hafði meðferðis fŕá Íslandi árið 2012 að halda,“ segir hún en hún vonast til að frásögn hennar geti verið öðrum víti til varnaðar.

„Ég hef þurft á öllum mínum pappírum að halda – ítrekað – og yrði ég í dag spurð hvaða ráð ég ætti handa foreldurm í sambærilegri stöðu sem hyggja á flutning, myndi ég umhugsunarlaust benda á mikilvægi samskipta við Þjóðskrá Íslands og svo sýslumanns í viðkomandi bæjarfélagi, sem fúslega gefa út öll gögn sem gott er að hafa meðferðis áður en til flutninga kemur.“

Klara bætir við að hún viti um fleiri dæmi þess að einstaklingar hafi lent í svipaðri stöðu og hún. „Ég vil að aðrir foreldrar í sambærilegri stöðu viti að þeir eru ekki einir á báti og að það er hægt að uppfæra upplýsingar í þjóðskrá. Það sem tók mig sólarhring að kippa í lag getur tekið aðra foreldra í sambærilegri stöðu marga mánuði að kýla í gegn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu