fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Gætu þurft að greiða milljarða í gjald til Seðlabankans

Stórir hlutir í íslenskum félögum taldir aflandskrónueign – Greiði gjald fyrir undanþágu

Ritstjórn DV
Föstudaginn 27. maí 2016 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erlendir fjárfestar, sem eru stórir hluthafar í nokkrum þekktum íslenskum fyrirtækjum, gætu þurft að greiða til Seðlabankans milljarða króna taki þeir þátt í gjaldeyrisútboði bankans um miðjan næsta mánuð þar sem eignarhlutur þeirra í félögunum er skilgreindur sem aflandskrónueign. Þar munar ekki síst um 25% hlut bandaríska fjárfestingasjóðsins Yucaipa í Eimskip, sem er metinn á um tólf milljarða miðað við núverandi gengi bréfa í skipafélaginu, en sjóðurinn þyrfti að leggja inn um þrjá milljarða á reikning Seðlabankans ef hann kýs að taka þátt í útboðinu. Eimskip hefur verið skráð í Kauphöll Íslands frá árinu 2012.

Samkvæmt frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um meðferð aflandskrónueigna, sem var samþykkt á Alþingi síðastliðið sunnudagskvöld, eru ýmsar eignir í formi hlutafjár í skráðum og óskráðum innlendum félögum taldar vera aflandskrónueignir. Þetta eru nýmæli en fram til þessa hefur Seðlabankinn ekki skilgreint slíkar hlutafjáreignir sem hluta af aflandskrónustabbanum. Fyrir utan eignarhlut Yucaipa í Eimskip þá nær þetta ákvæði í frumvarpinu, samkvæmt heimildum DV, meðal annars einnig til umtalsverðra eignarhluta sem erlendir aðilar eiga í HS Orku, eignaumsýslufélaginu Klakka og Verði tryggingafélagi.

Gjald fyrir ráðstöfunarrétt

Í útboðsskilmálum Seðlabankans, sem voru birtir á vef bankans síðastliðinn miðvikudag, segir að uppgjör tilboða frá eigendum slíkra aflandskrónueigna skuli fara þannig fram að milligönguaðili leggur krónufjárhæð inn á reikning bankans. Fjárhæðin ræðst af markaðsvirði aflandskrónueignar og útboðsgengi en Seðlabankinn hefur gefið út að það verði á bilinu 190 til 210 krónur fyrir hverja evru. Ef útboðsgengið verður þannig 200 krónur fyrir hverja evru, sem myndi þýða 30% afföll miðað við skráð gengi krónunnar, þá þyrfti eigandi aflandskrónueignar í formi hlutafjár sem væri metin á tólf milljarða króna að greiða þrjá milljarða inn á reikning Seðlabankans. Með því að greiða slíkt gjald – 30% af markaðsvirði eignarinnar – fá eigendur aflandskrónueigna í formi hlutafjár undanþágu frá takmörkunum laga um gjaldeyrismál. Þannig væri fjárfestingasjóðnum Yucaipa í kjölfarið heimilt að selja hlut sinn í Eimskip, ef hann kýs, og flytja söluandvirðið úr landi.

Þeim, sem eiga hlutabréf í íslenskum félögum, er valfrjálst, rétt eins og gildir um alla aflandskrónueigendur, að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanakans. Kjósi þeir að taka ekki þátt í útboðinu munu þeir hins vegar þurfa að koma andvirði hlutabréfanna fyrir á bundnum reikningum á 0,5% vöxtum ef þeir selja bréfin. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur sagt að það sé óvíst hvenær eigendur aflandskrónueigna, sem ekki taka þátt í útboði Seðlabankans, geti átt von á því að geta losað þær úr landi.

Útboðið verður 16. júní

Útboð Meiri þátttaka þýðir hagstæðara gengi.

Útboð Meiri þátttaka þýðir hagstæðara gengi.

Eigendum aflandskrónueigna í formi reiðufjár og ríkisverðbréfa býðst að selja eignir sínar í skiptum fyrir reiðufé í erlendum gjaldeyri á genginu 190 til 210 krónur fyrir hverja evru í gjaldeyrisútboði Seðlabankans. Fer útboðið fram, eins og upplýst var um í DV síðastliðinn þriðjudag, hinn 16. júní næstkomandi en eigendur aflandskróna að fjárhæð tæplega 320 milljarða króna geta tekið þátt í útboðinu.

Verð seldra evra í gjaldeyrisútboði Seðlabankans ræðst af þátttöku í útboðinu. Þannig fá aflandskrónueigendur hagstæðara útboðsgengi ef fleiri aðilar kjósa að taka þátt í útboðinu og þá um leið eru auknar líkur á því að ekki verði neinar eftirlegukindur (e. hold-outs) í hópi aflandskrónueigenda eftir að útboðinu lýkur.

Keyptu á árinu 2009

Bandaríski sjóðurinn Yucaipa, sem er stærsti einstaki hluthafi Eimskips, eignaðist upphaflega 32% hlut í skipafyrirtækinu þegar hann kom að endurskipulagningu félagsins árið 2009 með því að fjárfesta í frystigeymslustarfsemi í Norður-Ameríku og lagði inn nýtt hlutafé í Eimskip. Aðrir erlendir fjárfestar, sem eru taldir eiga aflandskrónueignir í formi hlutafjár í íslenskum félögum, komu einnig sem hluthafar á árunum 2009 og 2010. Þannig er 66% hlutur kanadíska orkufyrirtækisins Alterra Power, áður Magma Energy, í HS Orku skilgreindur sem aflandskrónueign en félagið keypti upphaflega samtals 98% hlut í orkufyrirtækinu fyrir um 30 milljarða. Þá er hlutur BankNordik í Verði tryggingafélagi, sem stendur núna í 49%, talinn vera aflandskrónueign en færeyski bankinn keypti fyrst 51% hlut í félaginu á árinu 2009. Þremur árum síðar eignaðist bankinn tryggingafélagið að fullu. Á síðasta ári seldi BankNordik hins vegar 51% hlut í félaginu til Arion banka fyrir 2,7 milljarða og hefur Arion banki heimild til að kaupa allt hlutafé í tryggingafyrirtækinu frá og með næsta ári.

Frumvarp fjármálaráðherra um meðferð aflandskrónueigna bitnar einnig á hagsmunum bandaríska vogunarsjóðsins Davidson Kempner en sá sjóður var í hópi umsvifamestu kröfuhafa föllnu bankanna. Þannig er ríflega 13% eignarhlutur Burlington Loan Management, sjóður í stýringu Davidson Kempner, í eignaumsýslufélaginu Klakka skilgreindur sem aflandskrónueign en Klakki er sem kunnugt er móðurfélag fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar. Sá sem stýrir umsvifum Burlington á Íslandi er Bretinn Jeremy Lowe en sjóðurinn hefur tögl og hagldir í Lýsingu sem stærsti hluthafinn – eignarhlutur hans nemur 45% – og jafnframt eini lánveitandi félagsins. Íslenska ríkið er næststærsti hluthafinn með um 30% sem það á með beinum og óbeinum hætti í gegnum eignarhald sitt á Klakka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“