fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Framsóknarmenn vilja síður kosningar í haust

Meiri fyrirvari á þingmönnum Framsóknar sem segjast fylgjandi – DV spurði stjórnarþingmenn

Ritstjórn DV
Föstudaginn 27. maí 2016 10:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Minni stuðningur er innan þingflokks Framsóknarflokksins við áform forystumanna ríkisstjórnarinnar um að stytta kjörtímabilið og boða til alþingiskosninga í haust. DV sendi fyrirspurnir á alla þingmenn og ráðherra stjórnarflokkanna þar sem þeir voru spurðir hvort þeir væru persónulega fylgjandi eða andvígir þeim áformum. Meirihluti þingmanna Framsóknarflokksins, sem svöruðu fyrirspurn DV, eru andvígir því að gengið verði til kosninga í haust og þeir sem segjast ætla að styðja ákvörðunina hafa flestir mikinn fyrirvara á afstöðu sinni og virðast gera það af semingi. Á sama tíma er meirihluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem svöruðu fylgjandi því að ganga til kosninga fyrr.

Hægt að kortleggja meirihlutann

16 af 38 þingmönnum stjórnarflokkanna svöruðu skriflegri fyrirspurn DV og lýstu afstöðu sinni til kosninga í haust. Tíu framsóknarmenn og sex sjálfstæðismenn. Einn þingmaður afþakkaði að svara spurningu DV. Það var Vigdís Hauksdóttir, sem kvaðst á sjö árum sínum á þingi aldrei hafa tekið þátt í „skoðanakönnun þingmanna frá fjölmiðlum“ og frá þeirri reglu ætlaði hún ekki að víkja.

En þrátt fyrri dræm viðbrögð meirihlutans hafa ýmsir þeirra þegar tjáð hug sinn opinberlega á undanförnum vikum. Þegar sú afstaða sem endurspeglast í þeim er tekin með í reikninginn er hægt að kortleggja afstöðu minnst 22 þingmanna. Aðrir virðast hafa haldið spilunum þétt upp að sér.

Framsóknarmenn á móti

Af þessum 22 sem ýmist svöruðu fyrirspurn DV eða hafa tjáð sig opinberlega um kosningarnar í haust eru 9 úr röðum Framsóknarflokks andvígir því að kjósa fyrr, en aðeins 2 úr Sjálfstæðisflokki.

Þegar kemur að því að vera fylgjandi því að ganga til kosninga í haust segjast þrír þingmenn Framsóknar munu vera það. Auk þeirra stendur Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, í það minnsta opinberlega, með þeirri yfirlýsingu sem hann gaf ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, í byrjun apríl um að kjörtímabilið yrði stytt um eitt löggjafarþing og boðað yrði til kosninga í haust. Allir þeir framsóknarmenn sem svöruðu DV og túlka má sem stuðningsmenn þess að kjósa í haust gera það hins vegar með semingi. Segjast persónulega á móti því að flýta kjörtímabilinu eða að eðlilegast væri að kjósa í vor. En þeir muni virða og/eða styðja áform um kosningar í haust.

Alls eru sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að Bjarna meðtöldum, sem segjast, eða hafa áður sagst, fylgjandi því að ganga til kosninga fyrr.

Sigmundur gaf tóninn

Af þessu má bersýnilega sjá að það er alls ekki einhugur innan stjórnarflokkanna hvort boða eigi til kosninga í haust. Nú síðast steig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, fram í fjölmiðlum á sunnudag og lýsti því yfir að hann teldi ekkert liggja á að kjósa fyrr. Sigmundur sagði í viðtali í Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag að hann hefði heyrt á þingmönnum, ekki aðeins í hans eigin flokki, að þeir teldu ekki viturlegt að fara í kosningar núna.

Opinberlega virðast því þingmenn Framsóknarflokksins vera að fylkja sér á bak við formann flokksins í andstöðu sinni til snemmbúinna kosninga og halda fastar í þá fyrirvara og loðna orðalag sem loðað hefur við loforð forystumannanna í umrótinu í byrjun apríl. Á sama tíma virðast þingmenn Sjálfstæðisflokks einnig styðja formann sinn og taka undir afstöðu Bjarna Benediktssonar um að boðað verði til kosninga.

Fælir fylgið?

Ástæðan kann að liggja í því að samkvæmt skoðanakönnunum hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks minni ástæðu til að óttast um hag sinn og stöðu í kjölfar kosninga. Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup 3. maí mælist flokkurinn með 27% fylgi. En Framsóknarflokkurinn mælist með 10,5% fylgi og myndi tapa ansi mörgum þingsætum ef það yrði uppskeran úr haustkosningum.

Sem fyrr segir sendi DV öllum þingmönnum og ráðherrum stjórnarflokkanna skriflega fyrirspurn, mánudaginn 23. maí síðastliðinn, þar sem spurt var hvort viðkomandi væri persónulega fylgjandi eða andvígur því að kjörtímabilið verði stytt og gengið verði til alþingiskosninga í haust, eins og stefnt er að og þingmönnum boðið að rökstyðja svör sín í hnitmiðuðu máli. Erindið var síðan ítrekað miðvikudaginn 25. maí og fimmtudaginn 26. maí en viðbrögðin voru, sem fyrr segir, fremur dræm.


Framsóknarflokkur

Fylgi skv. nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup: 10,5%

Fylgjandi kosningum í haust

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra

Mynd: Sigtryggur Ari

Segir að sterk löngun framsóknarmanna sé að ljúka verkinu sem sett hafi verið upp í fjögurra ára plan.
„Á örlagaríkum þremur dögum, þegar mikið gekk á, var sagt, til að róa ákveðið andrúmsloft þá: Það verður kosið í haust ef tekst að koma forgangsmálum ríkisstjórnar í höfn. Auðvitað er eðlilegasti hluturinn að ríkisstjórn klári sín verk og síðan kemur dómur kjósenda á þau. […] En ég er þeirrar skoðunar, og miða alla mína vinnu í ráðuneytinu við kosningar í haust, vegna fallinna orða fyrr í vor. Ánægjan yrði samt meiri ef unnt væri að ljúka fleiri málum hjá mér.“


Haraldur Einarsson

„Eftir á að hyggja tel ég það eðlilegra að kjósa í vor. Mér finnst það lýðræðislegra og eðlilegra að þessi meirihluti fái að klára þau verkefni sem og þann tíma sem hann var kosinn til. Hins vegar að þá erum við búin að gefa væntingar um að kjósa í haust. Það var gert á örlagatímum og á miklu hraði. Útaf þeim væntingum mun ég styðja það að kjósa í haust ef að við náum að klára mikilvæg mál.“


Líneik Anna Sævarsdóttir

Mynd: Framsóknarflokkurinn

„Ég tel að réttast væri að kjósa vorið 2017 eins og ráð var fyrir gert við síðustu kosningar. Hins vegar er búið að ganga frá samkomulagi um að kosið verði fyrr ef tekst að ljúka mikilvægum málum sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa unnið að allt kjörtímabilið og ég virði það.“


Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra
(Svaraði ekki)

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hefur ítrekað lýst því yfir að gengið verði til kosninga í haust í samræmi við samkomulag hans og Bjarna þess efnis.


Andvíg/ur kosningum í haust

Elsa Lára Arnardóttir

Mynd: DV ehf / Þormar Vignir Gunnarsson

„Persónulega finnst mér ekki tímabært að ákveða kjördag. Horfa þarf til þeirra verkefna sem ríkisstjórnin var kosin til að vinna að. Má þar m.a. nefna húsnæðismálin, það er bættan leigumarkað og auðvelda ungu fólki að koma þaki yfir höfuðið. Jafnframt þarf að klára aðgerðir er varða verðtrygginguna og endurbætur á almannatryggingakerfinu. Auk þessa þarf að fara í endurbætur á löggjöf um fæðingarorlof, það er að hækka greiðslur og lengja fæðingarorlofið. Þetta eru þau brýnu verkefni sem horfa þarf til og klára. Þegar þeim er lokið er tímabært að ganga til kosninga. Hvort sem það er í haust eða síðar.“


Karl Garðarsson

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég tel að ríkisstjórnin eigi að sitja út kjörtímabilið og því eigi ekki að kjósa í haust. Kosið var til þings til fjögurra ára, og engin ástæða til að gera breytingar þar á. Minna má á að staða þjóðarbúsins hefur sjaldan eða aldrei verið betri en í dag og að stjórnarflokkarnir hafa mikinn meirihluta á þingi. Það eru vond skilaboð inn í framtíðina ef stjórnvöld hverju sinni eiga sífellt að beygja sig fyrir háværum hópum stjórnarandstæðinga, hvort sem það er innan þings eða utan.“


Silja Dögg Gunnarsdóttir

„Kosningar hafa þegar verið boðaðar í haust og ég á ekki von á að forsvarsmenn stjórnarflokkanna gangi á bak orða sinna. Ég hefði hins vegar kosið að slíkt loforð hefði ekki verið gefið á sínum tíma þar sem árangur ríkisstjórnarinnar er framúrskarandi góður og ég hefði viljað sjá þessa ríkisstjórn klára fjögurra ára kjörtímabil.“


Willum Þór Þórsson

Mynd: Framsóknarflokkurinn

„Forsætis- og fjármálaráðherra gáfu loforð um kosningar í haust en háð því skilyrði að næðist að klára mikilvæg verkefni – það verður þeirra að meta. Mín persónulega skoðun er sú að þessi ríkisstjórn ætti að klára kjörtímabilið. Það er búið að bregðast myndarlega við upplýsingaleka Panamaskjalanna og þá vísa ég til starfshóps ríkisstjórnarinnar og skýrslu efnahags- og viðskiptanefndar. Þessi ríkisstjórn hefur myndarlegan meirihluta, réttkjörinn, og er með fjölmörg mikilvæg mál í farvatninu. Tíminn til þess að klára mikilvæg mál er mjög knappur m.t.t. kosninga í haust. Ég nefni húsnæðismálin, verðtrygginguna, fæðingarorlofsmál og fjölmörg mál á borði efnahags- og viðskiptanefndar.“


Þorsteinn Sæmundsson

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég var kosinn til setu á Alþingi vorið 2013 og er umboð mitt til fjögurra ára. Ég tilheyri stjórnarmeirhluta sem samanstendur af 38 þingmönnum. Nýlokið er atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar sem var felld. Stór mál sem skipta þjóðina miklu máli bíða afgreiðslu á Alþingi. Lögum samkvæmt þarf sitjandi ríkisstjórn einnig að leggja fram fjárlög næsta árs. Af framansögðu má ráða að ekkert kallar á stytt kjörtímabil og kosningar að hausti.“


Ásmundur Einar Daðason

Mynd: Framsóknarflokkurinn

„Eðlilegast væri að kosningar færu fram á hefðbundnum tíma að vori. Hins vegar hefur verið talað um að þjappa saman starfi þingsins þannig að hægt verði að kjósa fyrr. En það er mikilvægt að afgreiða mál sem ríkisstjórnarflokkarnir leggja áherslu á áður, þarna má t.d. nefna húsnæðismál, mál tengd verðtryggingu o.fl. Ég tel að hægt sé að klára stór mál og þar með væri hægt að flýta kosningum en tíminn verður að leiða í ljós hvort þetta tekst.“


Páll Jóhann Pálsson

„Málið er að ég er persónulega á móti því að flýta kjörtímabilinu vegna þess að það eru mörg mikilvæg mál sem þarf að klára og það væri betri bragur á því að taka þann tíma sem þarf í að vinna þau vel. Auk þess ruglar það allri vinnutilhögun sem er í mörgum tilfellum í mjög föstum skorðum svo sem fjárlagafrumvarpið sem á að vera þingmál númer eitt á hverju hausti og verður að klárast fyrir áramót, einfaldlega svo hægt verði að borga reikninga og stjórnsýslan hafi fjárheimildir til sinna hefðbundnu útgjalda.“


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins
(Svaraði ekki)

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Lítur svo á að stjórnarandstaðan hafi gert það sem hann kallar tilboð ríkisstjórnarinnar um kosningar í haust að engu með því að leggja fram vantrauststillögu. Sigmundur lýsti því í viðtölum á sunnudag að hann telji ekki liggja á kosningum.


Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

(Svaraði ekki)
Sagði í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut að hann hafi verið og sé enn mótfallinn því að kjósa í haust. Kjósa eigi næsta vor.


Sjálfstæðisflokkurinn

Fylgi skv. nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup: 27%

Fylgjandi kosningum í haust

Elín Hirst:

Mynd: © Eyþór Árnason

,,Ég er fylgjandi því að ganga til kosninga í haust. Ég tel að mínum flokki verði vel tekið í þeim kosningum og dæmdur af góðum verkum sínum þar sem stöðugleiki, skuldastaða almennings, skuldastaða ríkisins, hallalaus fjárlög, skattalækkanir, kaupmáttaraukning, afnám hafta og fleiri stórmál bera hæst.“


Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Sagði í svari sínu við fyrirspurn DV að hún væri fylgjandi kosningum í haust.


Jón Gunnarsson

„Ég er sammála niðurstöðu forystumanna stjórnarflokkanna.“


Ásmundur Friðriksson

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég var kosinn á þing til fjögurra ára og hefði kosið að ljúka því tímabili. Nú hefur verið ákveðið að kjósa í haust og ég mun styðja þann framgang. Þeir stjórnmálaflokkar sem treysta kjósendum með opinni lýðræðislegri leið til að velja fólk á framboðslista sína eru þegar búnir að ákveða prófkjör í lok sumars eins og flest kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins hafa gert vegna kosninganna sem verða væntanlega í lok október. Ég tel að enginn ætti að efast, þótt skoðanir séu eðlilega skiptar.“


Haraldur Benediktsson

„Hef ekkert við haustkosningar að athuga enda búið að lýsa því yfir að þær verði.“


Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

(Svaraði ekki)
Þegar samkomulag náðist um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf lýsti Bjarni því yfir 6. apríl að stigin yrðu viðbótarskref „til að mæta kröfum um að virkja lýðræðið í landinu“ og koma til móts við þá stöðu sem myndast hafði með því að stefna á að halda kosningar í haust og stytta þar með kjörtímabilið um eitt löggjafarþing.“ Dagsetningin myndi ráðast af framvindu mála. Bjarni hefur einnig lýst því yfir að hann hlakki til að leggja árangur ríkisstjórnarinnar fyrir dóm þjóðarinnar.


Unnur Brá Konráðsdóttir

(Svaraði ekki)
Greiddi atkvæði með tillögu stjórnarandstöðunnar um þingrof og kosningar þann 8. apríl. „Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn sem og þjóðin öll hafi hag af því að fara í kosningar.“


Andvíg/ur kosningum í haust

Sigríður Ásthildur Andersen

„Það þurfa að vera mjög sérstakar ástæður fyrir því að rjúfa þing og senda lýðræðislega kjörna þingmenn heim áður en 4 ára umboð þeirra skv. stjórnarskrá rennur út, þegar til staðar er góður þingmeirihluti ríkisstjórnar. Það er umhugsunarefni hvort að slíkar aðstæður hafi verið fyrir hendi þegar hugmynd um kosningar í haust var fyrst nefnd. Meðal annars í þessu ljósi greiddi ég atkvæði gegn þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar um þingrof nú í vor.


Brynjar Níelsson

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

(Svaraði ekki)
Sagði í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut að hann væri sammála Gunnari Braga Sveinssyni um að ekki ætti að kjósa í haust. Fleiri væru þeirrar skoðunar innan Sjálfstæðisflokksins. Bætti þó við að trúlega væri engin leið önnur fær en að ganga til kosninga í haust.


Þessi svöruðu ekki fyrirspurn DV

Fyrirspurn send á alla þingmenn og ráðherra stjórnarflokkanna í tölvupósti 23. maí. Fyrirspurn ítrekuð 25. maí og 26. maí.

Sjálfstæðisflokkur: 13
Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Brynjar Níelsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Illugi Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason.

Framsóknarflokkur: 9
Eygló Harðardóttir, Frosti Sigurjónsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Vigdís Hauksdóttir, Þórunn Egilsdóttir.

Spurt var: Ert þú persónulega fylgjandi eða andvíg/ur því að kjörtímabilið verði stytt og gengið verði til alþingiskosninga í haust, eins og stefnt er að?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus