fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Margir minnast Péturs: Vinsæll strákur sem allir elskuðu – „Líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki um hann“

Tíu ár frá leitinni að Pétri Þorvarðarsyni – „Rosalega vinsæll“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 24. maí 2016 18:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pétur K. Þorvarðarson týndist á Möðrudalsöræfum. Leitin að Pétri stóð yfir í sjö daga. Hann fannst látinn í maí árið 2006 í meira en 27 kílómetra fjarlægð frá útgangspunkti leitarinnar, langt utan við skilgreint leitarsvæði. Kastljós rifjar upp málið í kvöld sem tók mjög á fólk á Austurlandi. Fáir trúðu að Pétri hefði tekist að ganga þetta langt á svo skömmum tíma, en samkvæmt heimildum DV hélt móðir hans því statt og stöðugt fram og hafði rétt fyrir sér. Pétri er lýst sem ákaflega elskulegum dreng og margir sem minnast hans enn í dag með hlýjum orðum.

Í umfjöllun Kastljós kemur fram að björgunarsveitarmenn á Austurlandi, sem stýrðu leitinni hafi lært mikið af henni. Var leitað að Pétri í átta daga og fékk leitin á alla sem að henni komu. Staðkunnugir leitarmenn gagnrýndu leitarskipulagið og vildu auka áherslu á hraðleitir um stærra svæði. Upplýsingar um að talið væri að Pétur hefði verið ölvaður réðu því að ekki var leitað á stærra svæði.

Á Facebook minnast gamlir vinir, kunningjar og ættingjar Péturs en áratugur er liðinn frá því að hann hvarf úr samkvæmi nærri Grímsstöðum á Fjöllum. Þóra Arnórsdóttir segir að þó ekki hafi tekist að finna Pétur í tíma hafi menn lært margt af leitinni.

DV hefur áður fjallað um Pétur. Fyrir fimm árum tjáði æskuvinkona hans, Sædís Sif Harðardóttir, við DV. Þau voru bestu vinir.

„Það líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki um hann.“

Sædís keppti það ár í Söngvakeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Menntaskólans á Egilsstöðum. Lagið Á draumastað fjallaði um Pétur og var sungið í minningu hans en lagið var samið af yngri systur Sædísar.

Hélt hann væri staddur á sveitabæ

Í frétt DV frá árinu 2011 segir:

Það var í maí fyrir fimm árum að Pétur Kjerúlf var í gleðskap á Grímsstöðum á Fjöllum fyrir austan og vildi komast heim. Hann hringdi þá í Sædísi sem var stödd á Akureyri. „Hann var drukkinn og ég hélt að hann væri á einhverjum sveitabæ fyrir utan Egilsstaði. Ég sagði honum að rölta út á veg og húkka sér far rakleiðis heim. Seinna um kvöldið hætti mér að lítast á blikuna og hringdi ég þá strax í neyðarlínuna sem tók ekki mark á mér því ég var of ung. Ég hringdi síðan aftur seinna um nóttina og vildi fá samband við lögregluna á Egilsstöðum en fékk ekki. Ég vildi láta þá vita að vinur minn væri á röltinu einhvers staðar en mér varð ekkert ágengt,“ segir Sædís.

Pétur gekk í ranga átt og lengra en nokkur hafði búist við.

Mikil samkennd

Baldur Pálsson björgunarsveitamaður kveðst í Kastljósi muna vel eftir þessum hörmungaratburði:

„Þessi leit, hún reyndi á allt samfélagið á Austurlandi og samfélagið stóð með okkur. Það var ótrúlegt hvað margir tóku þátt í þessari leit með okkur Austfirðingunum eftir að við fórum að sjá um leitina. Við þurftum að skipuleggja svæði þar sem við vorum með björgunarsveitarmenn sem voru að leiðbeina kannski heilu íþróttafélagi um lönd sem þau höfðu aldrei nokkurn tímann komið á. Og það var gríðarleg samkennd, ég gleymi aldrei konunum af Vopnafirði sem sáu um heitan mat utan við Langadal á síðustu metrum leitarinnar. Og svo gleymir maður seint úrslitaleitinni af því að það var komin mjög vond veðurspá. Að það skyldi þá takast á síðasta degi fyrir mjög slæmt veður sem stóð lengi. Að hann skyldi finnast, það var kraftaverk.“

Símtal frá móður

Sædís Sif segir í viðtalinu við DV að strax morguninn eftir hafi hún fengið símtal frá móður hans og þá vitað að eitthvað var að. Hún hélt rakleiðis frá Akureyri inn á Egilsstaði. Þá strax tók hún eftir björgunarsveitarmönnum við leit og fékk það á hana.

„Þegar heim var svo komið var rosaleg samstaða hjá vinum og fjölskyldu. Okkur var öllum hleypt inn í kirkju þar sem við fengum pitsur og fengum að vita um allt sem gerðist í leitinni. Þetta voru mjög erfiðir tímar.“

Þegar Sædís söng lagið á sínum tíma vildi hún koma skilaboðum áleiðis til unglinga sem væru að drekka að gæta hvors annars. Það væri lykilatriði.

Vinsæll strákur sem allir elskuðu

Þá segir æskuvinkonan að Pétur hafi verið frábær og allir elskað hann.

„Við vorum æskuvinir og skólaparið. Hann var rosalega vinsæll á meðal stelpnanna þannig að ég þurfti svolítið að halda í hann. Ég mun aldrei gleyma honum. Í dag held ég aðeins í hann í gegnum Friends-þættina en hann var alveg eins og Joey […] Þetta var góður strákur sem kvaddi alltof snemma.“

Hér má sjá bút úr umfjöllun Kastljós:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“